Endurheimt votlendis - Hólar í Öxnadal

Eftir seinna stríð hófu Íslendingar að ræsa fram mýrar til að rækta tún og efla landbúnað í landinu. Um það bil  4.200 km2 votlendis hafa verið ræstir fram hér á Íslandi, en einungis 570 km2 þess lands eru nýttir til jarðræktar. Losun gróðurhúsalofttegunda frá framræstu votlendi er mjög mikil og einnig hefur framræsla haft áhrif á líffræðilega fjölbreytni og eiginleika lands til að miðla vatni og næringarefnum. (Heimild: Landgræðsla ríkisins)                                                                    

Í gær fór umhverfis- og heilsunefnd skólans í heimsókn fram í Hóla í Öxnadal og fengu fræðslu um endurheimt votlendis. http://rala.is/votlendi/default.htmEigandi Hóla, Landvernd og Landgræðsla ríkisins höfðu samband við okkur og spurðu hvort Þelamerkurskóli hefði áhuga á að fylgjast með endurheimtarframkvæmdum sem eru að hefjast á Hólum.

Verkefnið okkar mun m.a. vera:

1. Mæla vatnshæðina í jarðveginum, svo förum við aftur að ári og mælum til að sjá breytinguna.


2. Skoða fuglalíf á svæðinu. Þá getum við m.a. skoðað hvaða tegundir eru á svæðinu og hverjar þeirra eru votlendistegundir.  

 3. Einnig eru hugmyndir um að skólinn taki þátt í verkefni á landsvísu tengt vistheimt.

 Eins og sést á myndunum sem fylgja þessari frétt þá var veðrið yndislegt þennan dag og ferðin bæði fróðleg og skemmtileg.