Vegna umfjöllunar um árangur BL-skóla á samræmdum prófum

Í gær birti Menntamálastofnun greiningu á árangri nemenda í skólum sem hafa tekið þátt í Byrjendalæsi. Þelmerkurskóli er einn þeirra skóla sem undanfarin fjögur skólaár hefur nýtt kennsluaðferðir Byrjendalæsis í lestrarkennslu. Það þýðir að tveir árgangar hafa farið í samræmt próf í íslensku í 4. bekk síðan innleiðing aðferðarinnar hófst við skólann.

Ef árangur þessara tveggja árganga er borinn saman við árangur nemenda okkar áður en Byrjendalæsi var innleitt er ekki greinanlegur munur á árangri árganganna. Þess má geta að á þessum árum var árangur nemenda okkar  í íslensku og stærðfræði  í 4. bekk yfir landsmeðatali.

Það er mat kennara og stjórnenda Þelamerkurskóla að kennsluaðferðir Byrjendalæsis styðji við grunnþætti aðalnámskrár og lykilhæfni sem ný aðalnámskrá leggur áherslu á í viðmiðum um námsmat í grunnskóla.

Í samræmdum prófum er aðeins mældur afmarkaður hluti þess sem sérhver skóli hefur tækifæri til að meta hjá nemendum sínum. Í Þelamerkurskóla leggjum við okkur fram um að meta nám nemenda okkar samkvæmt viðmiðum aðalnámskrár samhliða því sem við tökum niðurstöður samræmdra prófa alvarlega og bregðumst við þeim eftir því sem við á hverju sinni.

Ummæli mennta- og menningarmálaráðherra og fyrirsagnir af því tagi sem fylgdu áðurnefndri úttekt Menntamálastofnunar eru ekki til þess fallin að efla traust samfélagsins á fagmennsku þeirra sem starfa í skólunum. Það er von okkar í Þelamerkurskóla að umræðan hverfi frá samanburði milli skóla og skólahverfa og að hún þróist heldur á þann veg að hún gagnist meginmarkmiði skólastarfs, framförum nemenda.