Fréttir

Jólaljósa- og jólaföndurdagur

Þann 9. desember héldum við okkar yndislega árlega jólaljósadag í upphafi skóladagsins. Allir nemendur fara með friðarkerti upp í hlíðina fyrir ofan skólann og lýsa upp skammdegið. Að venju mætti Birgitta á Möðruvöllum með drónann sinn og afhenti okkur margar fallegar yfirlitsmyndir. Falleg og góð hefð. Eftir að hafa gengið í kringum jólatréð og sungið jólasöngva við undirleik Jóns Þorsteins, fengum við okkur kakó og kringlu í matsalnum. Þá tók við opinn jólaföndurdagur þar sem foreldrar og aðrir aðstandendur voru boðnir sérstaklega velkomnir til samveru í skólanum. Foreldrasamfélag Þelamerkurskóla er einstakt og sást það á gríðarlega góðri mætingu, en nánast öll heimili nemenda áttu fulltrúa á svæðinu. Börn og foreldrar nutu sín vel við jólaföndurgerð eins og sjá má á myndunum sem fylgja. Í lok dags bauðst svo öllum að borða saman dýrindis gúllassúpu.
Lesa meira

Áhugasviðsvinna í 7.-10. bekk

Í hverri viku vinna nemendur í 7.-10. bekk að áhugasviðsverkefnum sem þau velja sér eðli málsins samkvæmt sjálf. Þau vinna í nokkrar vikur að sama verkefni og halda ávallt kynningu á þeim í lokin. Á kynningunum má sjá mjög fjölbreytta framsetningu verkefna sem nemendur hafa skapað sjálfir. Jafnframt hafa kynningar falið í sér gestakomur í skólann og hafa hin ýmsu gæludýr til dæmis kíkt í heimsókn, nemendum til mikillar ánægju.
Lesa meira

Útiskóli haustönn 3.-6. bekkur

Nemendur 1.-6. bekkjar fara í útiskóla í hverri viku. Þar fer fram fjölbreytt nám sem tengist flestum námsgreinum. Á myndunum sem hér fylgja má sjá fjölbreytta vinnu nemenda í útískóla.
Lesa meira

Stöðvavinna í Byrjendalæsi hjá 1. og 2. bekk

Í Byrjendalæsinu vinna nemendur reglulega á fjölbreyttum stöðvum þar sem allir vinna að verkefnum við hæfi. Verkefnin reyna á ólíka þætti læsis og tengjast öll þeim gæðatexta sem unnið er með hverju sinni. Á myndunum sem fylgja þessari frétt má sjá nemendur í 1. og 2. bekk í fjölbreyttri stöðvavinnu þar sem mikið nám átti sér stað. Allir nemendur voru virkir í vinnu sinni þar sem var lesið, skrifað, hljóðgreint, talað saman og spilað.
Lesa meira

Jól í skókassa

Eins og hefð er fyrir í Þelamerkurskóla tóku nemendur þátt í verkefninu Jól í skókassa. Jól í skókassa er verkefni á vegum KFUM&KFUK sem gengur út á að fá fólk til að útbúa jólagjöf handa barni í Úkraínu, en þar glíma margir við sára fátækt, alltof mörg börn búa á munaðarleysingjaheimilum og búa þar við döpur kjör. Skólavinir pökkuðu saman inn jólapökkum og fylltu þá með fatnaði, snyrtivörum, ritföngum, leikföngum og nammi. Stemmingin var falleg og góð og nemendur unnu mjög vel saman.
Lesa meira

Starf skólaliða laust til umsóknar

Þelamerkurskóli óskar eftir barngóðri og metnaðarfullri manneskju í 80-100% starf skólaliða. Skólaliði hefur umsjón með og styður við nemendur í matsal, frímínútum, á göngum, skólalóð og frítímum auk þess sem hann sér um að halda skólahúsnæðinu hreinu. Í Þelamerkurskóla eru 76 nemendur og fer skólinn hratt stækkandi á næstu árum. Skólinn er heilsueflandi skóli og Grænfána skóli. Jafnframt leggur skólinn áherslu á útinám og fjölbreytileika í skólastarfi, nokkuð sem krefst sveigjanleika og þátttöku alls starfsfólks.
Lesa meira

Rithöfundaheimsókn

Í dag fengum við góða heimsókn í skólann þegar þau Arndís Þórarinsdóttir og Ævar Þór Benediktsson rithöfundar komu á vegum Skáld í skólum með stórskemmtilega bókmenntaumræðu fyrir nemendur í 3. - 10. bekk. Nemendur hlustuðu af athygli á fróðleik og vangaveltur um alls konar bækur, lestur og hvernig hugmyndir safnast saman og verða að bók. Rithöfundarnir söfnuðu auk þess upplýsingum frá nemendum um hvernig bækur eiga að vera til að krakkar vilji lesa þær. Krakkarnir voru að venju ötul við að tjá sig, spyrja spurninga og hafa skoðanir á gæðum barnabókmennta, enda flottur hópur lestrarhesta.
Lesa meira

Aðalfundur foreldrafélagsins fimmtudaginn 10. nóv. kl. 19.00. Súpa og fræðsluerindi um börn og samfélagsmiðla.

Kæru foreldrar/forráðamenn Við ætlum að gera aðra tilraun til að halda aðalfund foreldrafélags Þelamerkurskóla fimmtudaginn 10. nóvember kl. 19. Boðið verður upp á súpu og brauð í stofu 4, venjuleg aðalfundarstörf og endum á fræðsluerindi frá Skúla B. Geirdal verkefnastjóra fjölmiðlanefndar. Erindið fjallar um : Hvað gera börn og ungmenni á samfélagsmiðlum? Í fyrirlestrinum er farið yfir helstu niðurstöður úr víðtækri rannsókn á stafrænu umhverfi barna á Íslandi sem nefnist "Börn og netmiðlar." Helstu efnistök: Vinsælustu samfélagsmiðlarnir, aldurstakmörk og ástæður fyrir þeim, tækjaeign, nethegðun, deiling nektarmynda, klám, öryggi á netinu og tölvuleikir. Við hvetjum alla foreldra að mæta og missa ekki af þessu mikilvæga erindi og taka þátt í starfi félagsins.
Lesa meira

Þrír nemendur á Ungmennaþingi SSNE 2022

Ungmennaþing SSNE fór fram á Dalvík dagana 13.-14 október síðastliðinn. Þingið var að þessu sinni haldið í menningarhúsinu Berg á Dalvík og var þar samankomin hópur ungmenna úr sveitarfélögum landshlutans, ásamt starfsmönnum sveitarfélaga. Lilja Lind Torfadóttir, Valgerður Telma Einarsdóttir og Arnsteinn Ýmir Hjaltason tók þátt fyrir hönd Hörgársveitar. Þetta er í þriðja sinn sem Ungmennaþing er haldið í landshlutanum en verkefnið er eitt af áhersluverkefnum SSNE árið 2022.
Lesa meira

Bleiki dagurinn í boði nemendaráðs

Nemendaráð skólans boðar til bleika dagsins nk. föstudag til að ljá baráttu við brjóstakrabbamein lið.
Lesa meira