Fréttir

Frá ljósmyndavali

Í ljósmyndavali nú í haust höfum við nemendurnir lagt okkur fram við að mynda náttúru og dýralíf Íslands með miklum dugnaði og samvinnu. Nú höfum við sett saman nokkrar af bestu myndunum okkar og prentað þær út fyrir alla til að sjá. Í valinu voru Valdemar Ásberg, (7. bekk) Lilja Lind, Juliane Liv (9. bekk) og Elísa (10 bekk.) Við vorum öll mjög dugleg í haust og vonumst til að öðrum lítist vel á ljósmyndirnar okkar. Kveðja, Ljósmyndavalið
Lesa meira

Nemendur 7.-8. bekk taka þátt í Alþingiskosningum á sinn hátt

Nemendur í 7. og 8. bekk hafa undanfarnar vikur verið að læra um Alþingi og lýðræði. Ákveðið var að taka þátt í svokölluðum krakkakosningum sem umboðsmaður barna og KrakkaRÚV standa fyrir. Nemendur hafa m.a. kynnt sér störf Alþingis og þau framboð sem eru til alþingiskosninganna nú á laugardaginn. Síðan var efnt til kjörfundar. Þar var kjörstjórn sem sá um að merkja við alla þá sem komu á kjörstað til að kjósa, afhenda þeim kjörseðla, útskýra reglur varðandi kosningarnar og beina þeim í kjörklefa. Kjörsókn var með besta móti eða tæp 95 %. Kjörstjórn sá síðan um að yfirfara atkvæðin og telja skiptingu þeirra. Allt gekk þetta ljómandi vel og nemendur skemmtu sér vel. Niðurstaða kosninganna verður send umboðsmanni barna sem tekur við öllum atkvæðum úr krakkakosningum sem fara fram í mörgum skólum á landinu. Í kosningasjónvarpi RÚV á laugardagskvöldið kemur verða niðurstöður úr krakkakosningum kynntar. Það verður spennandi að sjá hvernig atkvæði barna á Íslandi fara í þessum kosningum í samanburði við síðan niðurstöður sjálfra alþingiskosninganna.
Lesa meira

Veiðiferð 9. - 10. bekkjar

Nemendur 9. og 10. bekkjar skelltu sér í veiðiferð í Hörgá á þriðjudaginn sl. Veðrið var alls konar og höfðu fiskarnir lítinn áhuga á önglunum. Þrátt fyrir enga veiði skemmtu allir sér konunglega og þökkum við aðstoðarfólkinu okkar, Helga, Svönu og Guðmundi, kærlega fyrir veitta aðstoð við að græja stangir og peppa okkur áfram í veiðinni.
Lesa meira

Útiskóli; stafavinna úr greinum og könglum, kartöfluuppskera og berjatínsla

Nemendur stunda nám mikið til úti við á góðviðrisdögum. Á meðfylgjandi myndum má meðal annars sjá 1.-2. bekkinga í stafavinnu í Mörkinni. Sjálfbærnimenntun á sér meðal annars stað í matjurtargarðinum sem nemendur bjuggu til í miðjum heimsfaraldri og eins lengi og uppskeran endist, sækja nemendur kartöflur út í kartöflugarð þá daga sem boðið er upp á kartöflur með hádegismatnum. Á myndahlekkjunum hér fyrir neðan má sjá skógar- og berjatínsluferð hjá 5.-6. bekkingum.
Lesa meira

5.-6. bekkur fóru í sjóferð á Húna

Á miðvikudaginn var fóru 5.-6. bekkur í árlega sjóferð með Húna. Frábært framtak í boði Hollvinasamtaka Húna. Nemendur fræðast um bátinn sjálfan, lífríki sjávar, veiða fisk, skoða fiskinn í bak og fyrir að innan sem að utan og fá að smakka hann þegar búið er að grilla um borð. Auk þess fá krakkarnir góða siglingu í fallegu umhverfi. Allir skemmtu sér konunglega og komu margs vísari heim.
Lesa meira

Útivistardagur 7. sept.

Á þriðjudaginn var hinn árlegi haust-útivistardagur hjá okkur hér í Þelamerkurskóla. Nemendur 1.-4. bekkjar gengu upp að Hraunsvatni ásamt fjölda nemenda úr 5.-10. bekk sem völdu þá ferð. Eldri nemendurnir gátu jafnframt valið að fara í útreiðartúr, fjallgöngu og hjólaferð. Það var því fjölbreytt og skemmtileg útivist í boði þennan dag og allir stóðu krakkarnir sig frábærlega í sinni ferð. Í lok hverrar ferðar voru grillaðar pylsur sem runnu vel ofan í alla. Er komið var heim í skóla eftir hádegi, beið okkar leiksýning Lalla töframanns, á vegum verkefnisins List fyrir alla. Frábær dagur í alla staði þótt þokuslæðingur hefði alveg mátt halda sig annars staðar en í Hörgársveit þennan dag.
Lesa meira

Flott verkefni úr 9. og 10. bekk

Undanfarna daga hafa nemendur í 9. og 10. bekk unnið verkefni um hnattræna hlýnun og loftslagsbreytingar. Hver nemandi valdi sér viðfangsefni og til dæmis var fjallað um bráðnun jökla, áhrif á gróðurfar, flóð og fellibylji. Í vikunni fluttu fyrstu þrír nemendurnir kynningu á sínu verkefni; Juliane, Elísa og Lilja sögðu frá skógareldum sem varað hafa í Kaliforníu frá því um mitt sumar. Sýndu þær plakat með myndum og texta sem sýndi m.a. að yfir 800.000 hektarar hafa brunnið. Einnig bökuðu þær köku sem sýndi staðsetningu eldanna í smjörkremi á landakorti af fylkinu. Verkefnið kom ljómandi vel út hjá þeim og skemmtilegt að sjá fjölbreyttar útfærslur verkefna.
Lesa meira

Allir lesa á Alþjóðadegi læsis

Að sjálfsögðu var blásið til hins mánaðarlega viðburðar Allir lesa í Þelamerkurskóla í dag, á Alþjóðadegi læsis. Nemendur fagna ávallt þegar slegið er í Allir lesa - gong og dreifa sér með lesefnið sitt um allan skólann. Ávallt er vinsælt að setjast á kaffistofu starfsfólks eða skrifstofu stjórnenda. Hin ýmsu skot með sófum og kósý stólum eru einnig vel nýtt auk þess sem sumum finnst gott að sitja í stiganum eða jafnvel liggja flatir á göngum skólans og njóta lestrarins þannig.
Lesa meira

Norræna skólahlaupið - myndir

Það var mikill kraftur í nemendum sl. föstudag þegar þeir hlupu og gengu í skólahlaupinu okkar. Allir fóru lágmark 2,5 km. Flestir fóru 5 km og stór hópur fór 10 km. Margir vildu ekki hætta og lengdu í sínum leiðum. Það var frábært veður og umhverfið á Skottinu faðmaði alla þessa hraustu og frábæru krakka sem þar fóru um. Starfsfólk var ýmist með í að hlaupa og ganga, eða var tilbúið með vatn, ávexti og pepp á stoppistöðvum hér og þar.
Lesa meira

Norræna skólahlaupið á morgun, föstudag 3. sept.

Á morgun, föstudag, munum við nýta góða veðrið og halda hið árlega Norræna skólahlaup. Skóladagurinn fylgir stundatöflu til klukkan 10 og þá búum við okkur til brottfarar. Hlaupið (eða gengið) verður frá Hlíðarbæ og áleiðis Skottið. Þrjár vegalengdir eru í boði; 2,5 km - 5 km og 10 km. Starfsfólk fylgir hverjum hópi auk þess sem starfsfólk tekur á móti hraustmennunum á drykkjarstöðvum hér og þar. Við minnum alla á að tryggja góða strigaskó til að hlaupa eða ganga í og léttan, þægilegan klæðnað.
Lesa meira