Leiðarljós og einkunnarorð

Þelamerkurskóli vill með starfi sínu efla þroska, menntun og samkennd nemenda.

Leiðarljós og einkunnarorð

Námi og öðru starfi skólans er ætlað að stuðla að alhliða þroska nemendanna út frá forsendum og hæfileikum hvers og eins nemanda. Skólastarfið miðast við að stuðla jafnt að tilfinningalegum og félagslegum þroska sem vitsmunalegum. Leiðarljós skólans er að á skólagöngu sinni í Þelamerkurskóla öðlist nemendur jákvæða sjálfsmynd og verði kunnáttusamir námsmenn fyrir lífið.

Í skólanum viljum við að nemendur okkar öðlist alhliða menntun þar sem hæfileikar hvers og eins fá notið sín. Starf skólans skal miðast við að námið sem hann býður uppá sé með því besta sem býðst. Innra mat á starfsháttum skólans og líðan þeirra sem þar starfa, er nýtt til að tryggja að gæði starfsins og einnig til að þeir sem að starfinu koma geti lært af fyrra starfi og fundið nýjar og árangursríkar leiðir til að bæta bæði nám og kennslu skólans.

Markmið námsins þurfa að vera nemendum skýr. Það á að vera leið til að auðvelda þeim að taka  ábyrgð á eigin námi. Starfshættir skólans miðast við að nemendur séu virkir þátttakendur í skipulagningu eigin náms og að þeir geti einnig fylgst með eigin námsframvindu. Starfshættir taka mið af að ábyrgð nemenda aukist með auknum aldri þeirra og þroska.

Starfið miðast við að í skólanum ríki samkennd og vinátta meðal þeirra sem þar starfa, bæði barna og fullorðinna. Það er markmið Þelamerkurskóla að öllum nemendum líði þar vel og að þeir finni til öryggis í skólanum. Til þess að svo geti orðið þurfa samskipti allra sem að starfinu koma að einkennast af gagnkvæmri virðingu og jafnræði. Þelamerkurskóli leggur metnað sinn í þess konar samskipti einkenni starf hans í hvívetna.