Heilsueflandi grunnskóli

Heilsueflandi grunnskóla er ætlað að styðja skóla í að vinna markvisst að heilsueflingu í starfi sínu. Í því felst að skapa skólaumhverfi sem stuðlar að andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu og vellíðan nemenda og starfsfólks í samvinnu við heimili og nærsamfélag. Skólar koma sér upp heildrænni og vel skipulagðri heilsustefnu þar sem horft er á allt skólasamfélagið í heild.

Haustið 2011 varð Þelamerkurskóli formlega þátttakandi í verkefni Lýðheilsustöðvar Heilsueflandi skóli. Þetta verkefni rímar vel við sérkenni og áherslur skólans um heilsu, hollustu og hreyfingu. 

Heilsueflingarteymi skólans stuðlar að viðburðum í hverjum mánuði í því skyni að efla heilbrigði og vellíðan nemenda og starfsfólks auk þess sem teymið vinnur ötullega með matráði og mötuneytisteymi nemenda að því að bæta enn frekar hollustu í mötuneyti skólans. 

Árið 2020 lagði tók skólinn upp daglega hreyfingu allra nemenda og starfsfólks með tilkomu Mílunnar, sem lesa má um hér og sem jafnframt er fjallað um undir flipanum Geðrækt, enda geðrækt liður í Heilsueflandi grunnskóla..

Í heilsueflandi grunnskóla er sérstök áhersla lögð á eftirfarandi átta þætti skólastarfsins: Nemendur, mataræði/tannheilsa, heimili, geðrækt, nærsamfélag, hreyfing/öryggi, lífsstíll og starfsfólk.

Markviss vinna við að setja heildræna stefnu fyrir heilsueflandi skólastarf í Þelamerkurskóla er þegar hafin og verður hægt að fylgjast með framvindu verkefnisins á heimasíðu skólans undir merkinu heilsueflandi grunnskóli. Byggt verður ofan á þann grunn sem þegar er til staðar í skólanum en markmið, stefna og starf skólans  fellur að mörgu leyti vel að markmiðum og áherslum heilsueflandi skóla.

 

Hér má sjá lýsingu á verkefninu frá Landlæknisembættinu.