Stoðþjónusta

Stoðþjónusta innan skólans

Innan Þelamerkurskóla er öflugt stoðþjónustuteymi sem samanstendur af skólastjóra, iðjuþjálfa og sérkennara. Í skólanum er litið svo á að ef starfsmannahópurinn á að vera undir það búinn að bjóða nemendum sínum upp á fjölbreytt og sveigjanlegt námsumhverfi, þurfi starfsmannahópurinn jafnframt að vera fjölbreyttur. Iðjuþjálfi skólans gegnir veigamiklu hlutverki ásamt sérkennara við að mæta ólíkum þörfum nemenda, hvort sem um ræðir sálfélagslegum þörfum eða námslegum. Iðjuþjálfi og sérkennari gegna auk þess því hlutverki að vera ráðgefandi fyrir kennara og foreldra. Í annarri viku hvers mánaðar eru svokallaðir stoðteymisfundir, en þá funda fulltrúar stoðteymis með hverju umsjónarkennarateymi fyrir sig í þeim tilgangi að ræða þarfir og forsendur nemenda, umgjörð náms, námsaðlögun og þörf fyrir stuðning. Foreldrar eru hvattir til að hafa samband við umsjónarkennara eða fulltrúa stoðteymis ef þeir hafa áhyggjur eða vilja ræða þætti varðandi þarfir, þroska eða líðan barna sinna.

Nemendavernd

Þelamerkurskóli leggur mikla áherslu á að öllum nemendum líði vel í skólanum sem og utan hans. Vegna þessa gerir starfsfólk skólans sitt besta við að vera vakandi yfir velferð þeirra. Vanlíðan getur birst í óæskilegri hegðun, s.s. fjarvistum, ofbeldi, vanrækslu í námi, einelti o.s.frv. Nemendaverndarráð starfar samkvæmt reglugerð um nemendaverndarráð í grunnskólum. Í því sitja skólastjóri, sérkennari, iðjuþjálfi, hjúkrunarfræðingur og fulltrúi skólaþjónustu. Ráðið fundar á sex vikna fresti. Umsjónarkennarar vísa málum til nemendaverndarráðs.

Hlutverk nemendaverndarráðs er að samræma sérfræðiþjónustu við nemendur, þ.e. námsráðgjöf, iðjuþjálfun, sálfræðiráðgjöf, skólahjúkrun og aðra stoðþjónustu. Nemendaverndarráð fjallar um sérstök úrræði fyrir einstaka nemendur eða nemendahópa og metur hvaða viðbótarupplýsinga er þörf. Ráðið tekur ákvörðun um aðgerðir og framkvæmd þeirra. 

Hlutverk umsjónarkennara er að fylgjast með námi, þroska og líðan nemenda sinna, aðstoða þá eftir föngum og gefa þeim góð ráð í persónulegum málum. Hann er í samstarfi við foreldra, iðjuþjálfa og sérkennara og vísar til nemendaverndarráðs þeim málum sem undir það falla. 

Hlutverk nemenda er að stunda nám sitt af kostgæfni og sýna alúð í vinnu og samskiptum. 

Hlutverk foreldra er að gæta hagsmuna barna sinna, vera ábyrgir fyrir framkomu, skólasókn og heimavinnu barna sina og vakandi yfir líðan þeirra, námsgengi og félagslegri stöðu

Sérfræðiþjónusta utan skólans

Skólinn er jafnframt í samstarfi við  skólaþjónustu Akureyrarbæjar sem sinnir sérfræðiþjónustu er varðar einstaka nemendur og er þá fyrst og fremst um að ræða sálfræðiþjónustu og sérkennsluráðgjöf auk greininga. Að sama skapi er skólinn í samvinnu við Barnavernd Eyjafjarðar.