Hefðir og venjur

Skólasetning:  Að öllu jöfnu fer skólasetningin fram á útiskólasvæði skólans. Nemendur, foreldrar og starfsmenn safnast saman í Mörkinni og skólaárið er formlega sett. Síðan ganga nemendur inn í skóla með umsjórnarkennara sínum þar sem þeir fá stundaskrá og aðrar upplýsingar um starf vetrarins. Skólasetning skólaársins 2017 - 2018 verða þriðjudaginn 22. ágúst kl. 16.00. 

Sláturdagur: Á hverju ári búa nemendur til slátur með matráði og umsjónarkennurum sínum. Slátrið er síðan á borðum í matsalnum yfir veturinn. 

SAM-skólasamstarf: Þelamerkurskóli er í skólasamstarfi sem nefnt er SAM-skólarnir. SAM-skólarnir eru auk Þelamerkurskóla, Valsárskóli, Grenivíkurskóli og Stórutjarnarskóli. Samstarf þetta hefur einkum falist í hinum svokölluðu SAM-skólaböllum, en það eru dansleikir fyrir nemendur 7. – 10. bekkjar í viðkomandi skólum. Einnig hafa verið haldnir sameiginlegir íþróttadagar fyrir eldri nemendur. Þar hefur nemendum skólanna verið blandað í lið til keppni, í stað þess að skólarnir keppi hver við annan. Tilgangur þessa er sá að efla með nemendum samkennd og kunningsskap, í stað þess að ala á sundurlyndi og samkeppni. Dagskrá SAM-skólasamstarfsins má sjá á skóladagatali skólaársins 2017 - 2018 sem er á heimasíðu skólans.

Auk þess hafa kennarar skólanna fundað nokkuð reglulega þar sem þeir hafa miðlað reynslu og þekkingu hver til annars og hefur það m.a. orðið til þess að tengja skólana nánar saman. Í upphafi skólaárs standa skólarnir fyrir sameiginlegu námskeiði fyrir starfsfólk

Símanúmer SAM-skólanna eru: Grenivíkurskóli s-414 5413 , Stórutjarnarskóli s-464 3220 / 464 3221, Valsárskóli s-464 5510.

Ferð í skólabúðirnar á Reykjum: Þelamerkurskóli er einn þeirra skóla sem nýtir sér Skólabúðirnar að Reykjum í Hrútafirði. Annað hvert ár fara nemendur 6. og 7. bekkjar í skólabúðirnar ásamt umsjónarkennara. Skipting kostnaðar milli heimila og skóla er samkvæmt áliti Menntamálaráðuneytisins frá 14. október 2010, en þar kemur fram að ekki er hægt að krefja foreldra um annan kostnað en uppihald á vettvangsferðum á skólatíma. Nemendur safna sér fyrir ferðinni með því að sjá um kaffisölu á 13. brennu Ungmennafélagsins Smárans. 

Dagur íslenskrar tungu: Dagur íslenskrar tungu er haldinn hátíðlegur í skólanum til á fæðingardegi okkar ástsæla skálds frá Hrauni í Öxnadal Jónasar Hallgrímssonar.  Undanfarin ár hafa nemendur undirbúið sýningu sem sett er upp Jónasarlaug, hér á Laugalandi.  Í ár er stefnt að því að bjóða uppá tónlistardagskrá á sal skólans með þátttöku hljómsveitar skólans, nemenda sem eru að læra á hljóðfæri og Skólakórsins. Ár hvert hefst undirbúningur fyrir Stóru upplestrarkeppnina á degi íslenskrar tungu.

Jólamarkaður: Jólamarkaður ÞMS verður föstudaginn 25. nóvember. Á markaðnum selja nemendur jólavörur sem þeir hafa gert í skólanum. Hagnaður af sölu verður notaður til þess að styrkja ýmis konar hjálparstarf í heiminum.

Laufabrauðsdagurinn:  Á þessum degi búa nemendur til laufabrauð sem borðað er á litlu-jólunum og þorrablótinu. Þessi dagur er skólavinadagur. Að þessu sinni er laufabrauðsdagurinn fimmtudaginn 14. desember.

Jólaljósadagurinn: Jólaljósadagurinn er haldinn í desember þegar vel viðrar. Þá er farið með útikerti upp í Álfaborg sem eru klettar í skógræktinni fyrir ofan skólann. Lagt er af stað kl. 8.30 og þegar nemendur koma til baka er boðið upp á kakó og kringlu. Jólaljósadagurinn er skólavinadagur.

Litlu jólin: Síðasta kennsludag fyrir jól heldur hver bekkur sín stofujól. Eftir kirkjuferð og stofujól er borðaður hátíðarmatur í borðsalnum og síðan dansað kringum jólatré. Dagskrá þessa dags er með föstu sniði. Kirkjuferðin og jólaballið er með skólavinum. Litlu jólin verða miðvikudaginn 20. desember.

Upplestrarhátíð skólans: Það er venja að hefjaundirbúning fyrir Stóru upplestrarkeppninni á Degi íslenskrar tungu. Þelamerkurskóli heldur lestrarhátíð til þess að velja fulltrúa skólans í stóru lestrarkeppninni. Þar lesa nemendur tvisvar sinnum upp fyrir áheyrendur. Fyrst samfelldan texta og síðan ljóð að eigin vali. Boðið er upp á tónlistaratriði.  Í dómnefnd eru fulltrúar frá kennurum skólans, fulltrúar frá leikfélagi Hörgdæla og fulltrúi frá foreldrafélgi skólans.

Sprengidagur:  Á sprengidaginn er öskudagsball í skólanum fyrir alla nemendur skólans. Ballið hefst klukkan 13:15 og stendur til kl. 14:45. Eftir ballið er nemendum ekið heim í skólabílum. Við sláum köttinn úr tunnunni og tunnukóngur/drottning verður krýnd/ur með viðhöfn.  Það verður söngvakeppni öskudagsliða, marsering, diskótek og fleira skemmtilegt.  Allir sem mæta í búningum fá verðlaun. Til að gera meira úr þessum skemmtilega degi mæta allir í búningum í skólann um morguninn en ómáluð í framan. Þeir nemendur sem þurfa andlitsmálingu fá aðstoð við það fyrir öskudagsballið Sjálfan öskudaginn er starfsdagur hjá kennurum.

Góugleði í Þelamerkurskóla: Þorrablót 1. – 6. bekkjar byrjar strax að loknum löngu frímínútum, kl.11:00. Umsjón og skipulagning þess er að mestu í höndum 6. bekkjar. Á meðan þorramaturinn rennur ljúflega niður standa nemendur fyrir hinum ýmsu skemmtiatriðum, má þar nefna spurningakeppni, brandara, gátur og tónlistaratriði. Um kvöldið er síðan Góugleði 7. - 10. bekkjar.

Árshátíðin: Skólaárið 2017-2018  verður árshátíðinn haldin í Íþróttahúsinu á Þelamörk fimmtudaginn 1. febrúar 2018. Lögð er áhersla á þátttöku allra nemenda.

Útivistardagar: Útivistardagar er tvisvar á skólaárinu. Fyrir áramót er farið á skauta og eftir áramót er farið á skíði. Veðrið er látið ráða hvenær skíðadagurinn er haldinn en skautadagurinn er yfirleitt í byrjun nóvember.

Síðasti kennsludagur: Í stað hefðbundins hádegisverðar er grillað. Hluti dagskrárinnar verður í sundlauginni, svo börnin þurfa að koma með sundföt með sér og einnig skjólgóðan fatnað. Síðasti kennsludagur er fimmtudaginn 31. maí.

Skólaslit: Skólaslit skólans eru haldin í Hlíðarbæ. Skólaslit skólaársins 2017 - 2018 verða föstudaginn 1. júní. Það er ekki skólaakstur á skólaslitin.