Hefðir og venjur í Þelamerkurskóla

Skólasetning:  Öllu jöfnu fer skólasetning Þelamerkurskóla fram á útiskólasvæði skólans í Mörk, norðan við Laugaland. Nemendur, foreldrar og starfsmenn safnast saman í Mörkinni og skólaárið er formlega sett. Að því loknu ganga nemendur inn í skóla með umsjónarkennara sínum þar sem þeir fá stundaskrá og aðrar upplýsingar um starf skólaársins. 

Útivistardagar: Lengri útivistadagar eru tvisvar á skólaárinu. Skömmu eftir skólabyrjun er göngu- og hjóladagur þar sem nemendur 1.-4. bekkjar fara í útivist við þeirra hæfi og nemendur 5.-10. bekkjar hafa val um mismunandi ferðir, s.s. hjólaferð, fjallgöngu og gönguferð. Eftir áramótin er útivistadagur í Hlíðarfjalli þar sem allir fara á skíði, stórir sem smáir. Auk þess er farið á skauta í Skautahöllinni fyrir jólin.

ALLIR LESA: Einu sinni í mánuði slær skólastjóri í Gong og hringir þar með inn ALLIR LESA stund skólans. Nemendur þekkja hljóðið og út úr skólastofunum rölta þeir með lesefni í hönd og finna sér sinn uppáhalds stað í skólanum til að sökkva sér niður í lesefni að eigin vali í 20 mínútur. Nánast öll svæði skólans eru í boði. Á hverju svæði í skólanum er fullorðin lestrarfyrirmynd í augsýn nemenda. Tilgangur sameiginlegrar lestrarstundar allra nemenda og alls starfsfólks er að tryggja nemendum lestrarfyrirmyndir og auka áhuga nemenda á lestri. Gestir sem kunna að heimsækja skólann í miðri lestrarstund finna sér lesefni og koma sér fyrir eins og allir aðrir.

Ólympíuhlaup ÍSÍ og Unicef hreyfing:  Á hverju hausti skipuleggur heilsueflingarteymi skólans skólahlaup í tengingu við ýmist Ólympíuhlaup ÍSÍ eða Unicef hreyfinguna. Nemendur hlaupa þá sem vindurinn allt frá 2,5 km upp í 10 km eða meira. Töluverður viðbúnaður er í kringum hlaupið og lögð er áhersla á að nýta góð svæði í sveitarfélaginu fyrir viðburðinn.

Sláturdagur: Á hverju hausti búa nemendur miðstigs til slátur með matráði og umsjónarkennurum sínum. Slátrið er síðan á borðum í matsalnum yfir veturinn. 

SAM-skólasamstarf: Þelamerkurskóli er í skólasamstarfi sem nefnt er SAM-skólarnir. SAM-skólarnir eru auk Þelamerkurskóla, Valsárskóli, Grenivíkurskóli og Stórutjarnarskóli. Samstarf skólanna hefur það markmið helst að stuðla að kynnum nemenda milli minni skóla á svæðinu og með því víkka tengslanet þeirra fyrir áframhaldandi samskipti þegar í framhaldsskóla er komið. Lagt er upp með fjóra sameiginlega skóladaga yfir skólaárið, tvo fyrir miðstig og tvo fyrir unglingastig. Dagarnir geta ýmist falið í sér stöðvavinnu og fjölbreytt hópastarf, íþróttakeppnir eða samvinnuverkefni af öðru tagi. Tilgangur daganna er ávallt sá að efla með nemendum samkennd og kunningsskap, í stað þess að ala á sundurlyndi og samkeppni.

Dagskrá SAM-skólasamstarfsins má sjá á skóladagatali hvers skólaárs á heimasíðu skólanna.  Í upphafi hvers skólaárs standa skólarnir fyrir sameiginlegum starfsþróunardegi fyrir starfsfólk. 

Símanúmer SAM-skólanna eru: Grenivíkurskóli s-414 5413 , Stórutjarnarskóli s-464 3220 / 464 3221, Valsárskóli s-464 5510.

Ferð í skólabúðirnar á Reykjum: Þelamerkurskóli er einn þeirra skóla sem nýtir sér Skólabúðirnar að Reykjum í Hrútafirði. Annað hvert ár fara nemendur 6. og 7. bekkjar í skólabúðirnar ásamt umsjónarkennara. Skipting kostnaðar milli heimila og skóla er samkvæmt áliti Menntamálaráðuneytisins frá 14. október 2010, en þar kemur fram að ekki er hægt að krefja foreldra um annan kostnað en uppihald á vettvangsferðum á skólatíma. Nemendur safna sér fyrir ferðinni með því að sjá um kaffisölu á þrettándabrennu Ungmennafélagsins Smárans auk þess sem þeir nýta aðra fjáröflunarmöguleika.

Dagur íslenskrar tungu: Dagur íslenskrar tungu er haldinn hátíðlegur í skólanum til á fæðingardegi okkar ástsæla skálds frá Hrauni í Öxnadal Jónasar Hallgrímssonar.  Ár hvert hefst undirbúningur fyrir Stóru upplestrarkeppnina á degi íslenskrar tungu. Dagur íslenskrar tungu er laugardaginn 16. nóvember.

Þemavika: Í nóvember er hefð fyrir því að blanda öllum námshópum saman í sameiginlegri þemaviku þar sem allur dagurinn er undir í starfi með ákveðið þema á fjölbreyttum stöðvum þar sem reynir á fjölbreytta hæfni og sköpun nemenda. Þemavikunni lýkur með hátíðardagskrá þar sem foreldrum og sveitungum er sérstaklega boðið í heimsókn.

Jól í skókassa: 
Þelamerkurskóli hefur að frumkvæði nemenda skólans í tvö ár tekið þátt í verkefninu ,,Jól í skókassa”  sem er að frumkvæði KFUM og KFUK. Þetta verkefni felst í því að fá börn jafnt sem fullorðna til að setja nokkrar gjafir í skókassa. Kassanum er síðan útdeilt til þurfandi barna í Úkraínu. Markmiðið með verkefninu er að gleðja þurfandi börn í anda jólanna. Það hefur sannarlega tekist síðastliðin ár og hafa þau sem standa að verkefninu fylgt því eftir og tekið þátt í dreifingu gjafanna í Úkraínu. Þar hafa þau upplifað mikla gleði barnanna með gjafirnar. Mikilvægt er að fara vel eftir leiðbeiningum varðandi hvað má fara í kassana og hvernig ganga eigi frá þeim.

Allar upplýsingar um slíkt ásamt prentefni til merkinga er að finna á heimasíðu verkefnisins kfum.is/skokassar.

Oft safnast töluvert af óskilafatnaði á göngum skólans. Skólaliðar leggja sig fram um að koma óskilafatnaði  í réttar hendur.  Óskilafatnaður sem áður var gefinn til Rauða krossins eftir hafa verið í skólanum í eitt ár og enginn vitjað hans er núna notaður í verkefnið jól í skókassa.

Jólaljósadagurinn: Jólaljósadagurinn er haldinn í desember þegar vel viðrar. Þá er farið með útikerti upp í skógræktina fyrir ofan skólann. Lagt er af stað kl. 8.30 og þegar nemendur koma til baka er boðið upp á kakó og kringlu. Jólaljósadagurinn er skólavinadagur.

Jólatré sótt í Laugalandsskóg: Í byrjun desember ár hvert fara nemendur 1. bekkjar og 8. bekkjar ásamt kennurum að sækja jólatré fyrir skólann. 

Laufabrauðsdagurinn:  Á vel völdum degi í desember búa nemendur til laufabrauð sem borðað er á litlu-jólunum og þorrablótinu. Þessi dagur er skólavinadagur. 

Litlu jólin: Síðasta kennsludag fyrir jól eru litlu-jólin haldin hátíðleg í skólanum. Nemendur mæta á venjulegum tíma í skólann og eiga notalega stund innan skóla sem utan með samveru, söng, hátíðarmat og jólaballi. Heimferð á litlu jóla degi er kl. 13.00.

Dagskrá þessa dags er með föstu sniði og hér má sjá dagskrá síðustu litlu-jóla.

Óski foreldrar eftir því að börn þeirra sæki ekki kirkju á litlu jólunum eru  hvattir til þess að hafa samband við skólann og fundnar vera leiðir til að mæta þeirri ósk. Kirkjuferðin og jólaballið er með skólavinum. 

Upplestrarhátíð skólans: Það er venja að hefja undirbúning fyrir Stóru upplestrarkeppninni á Degi íslenskrar tungu. Þelamerkurskóli heldur lestrarhátíð til þess að velja fulltrúa skólans í stóru lestrarkeppninni. Þar lesa nemendur tvisvar sinnum upp fyrir áheyrendur. Fyrst samfelldan texta og síðan ljóð að eigin vali. Boðið er upp á tónlistaratriði.  Skólastjórnendar fá til sín utanaðkomandi aðila í dómnefnd, s.s. fulltrúa frá leikfélagi Hörgdæla, skólafólk og rithöfunda.

Sprengidagur:  Á sprengidaginn er öskudagsball í skólanum fyrir alla nemendur skólans. Ballið hefst klukkan 13:00 og stendur til kl. 14:20. Eftir ballið er nemendum ekið heim í skólabílum. Við sláum köttinn úr tunnunni og tunnukóngur/drottning verður krýnd/ur með viðhöfn.  Það er söngvakeppni öskudagsliða, marsering, diskótek og fleira skemmtilegt. Til að gera meira úr þessum skemmtilega degi mæta allir í búningum í skólann um morguninn en ómáluð í framan. Þeir nemendur sem þurfa andlitsmálingu fá aðstoð við það fyrir öskudagsballið.  Sjálfan öskudaginn er starfsdagur eða vetrarleyfi hjá kennurum.

Þorrablót 1. - 6. bekkjar: Þorrablót 1. - 6. bekkjar er haldið ár hvert. Umsjón og skipulagning þess er að mestu í höndum 6. bekkjar. Á meðan þorramaturinn rennur ljúflega niður standa nemendur fyrir hinum ýmsu skemmtiatriðum, má þar nefna spurningakeppni, brandara, gátur og tónlistaratriði. Nemendur 6. bekkjar útbúa sjálfir sviðasultu og annað góðgæti sem boðið er upp á á þorrablótinu.

Góugleði 9. bekkjar: Skemmtidagskrá í boði nemenda í 9. bekk þar sem nemendum 7. -10. bekkjar, foreldrum 9. -10. bekkinga, bílstjórum og mökum þeirra auk starfsfólki skólans og mökum þeirra er boðið í mat og skemmtun. Vorgleðin stendur frá kl. 20.00 - 22.00.

Árshátíðin: Árshátíð skólans er haldin í Íþróttahúsinu á Þelamörk i byrjun febrúar ár hvert. Miðað er við að skemmtiatriði taki einn og hálfan klukkutíma. Eftir sýningu er boðið upp á súpu og kökur uppi í skóla. Hefð hefur verið fyrir því undanfarin ár að 7. - 10. bekkur fái að gista í skólanum nóttina eftir sýningu. Á föstudeginum eftir sýninguna er tiltekt hjá starfsfólki skólans og nemendum 7. - 10. bekkjar en yngri  nemendur eru í fríi þann dag. Lögð er áhersla á þátttöku allra nemenda.

Skíðaskóli 1. - 4. bekkjar: Þelamerkurskóli hefur undanfarin ár boðið upp á skíðakennslu fyrir nemendur í 1. til 4. bekk. Í skíðakennslunni leigir skólinn skíðabúnað fyrir þá nemendur sem ekki eiga hann og einnig greiðir hann fyrir skíðakennara Skíðaskóla Hlíðarfjalls.  Nemendum er skipt í 3-4 hópa eftir getustigi þeirra á skíðum. 

Skipulag skíðaskóladaganna er á þessa leið:

  • Nemendur borða hádegismat kl. 11:00
  • Rútan leggur af stað frá skólanum kl. 11:30
  • Skíðakennslan hefst í síðasta lagi kl. 12:15 og stendur til kl. 13:45. Þá fá nemendur hressingu og rútan heldur svo af stað aftur í skólann kl. 14:00

Sem fyrr mun þetta ekki geta gengið upp nema með aðstoð foreldra. Hún felst í því að taka á móti börnunum þegar þau koma upp í Hlíðarfjall og aðstoða þau við að klæða sig í búnaðinn fyrir kennslu og úr honum að kenslunni lokinni. Þessi aðstoð auðveldar okkur að koma öllum tímanlega í kennsluna og þannig nýtist tíminn í fjallinu nemendum vel. Á seinni útivistardegi skólaársins fara allir í Hlíðarfjall, nemendur og starfsfólk. 

Skólaferðalag 9.-10. bekkjar: Annað hvert ár fara nemendur skólans í vikulangt skólaferðalag með kennurum sínum. Hef er fyrir fjölbreyttu og skemmtilegu ferðalagi þar sem stoppað er yfir nótt á tveimur landshlutum.

Kveðjukvöld 10. bekkjar: Síðustu vikuna fyrir skólalok býður Foreldrafélagið 10. bekk, foreldrum þeirra og kennurum í matarveislu í skólanum. Skólastjórnendur skólans sjá um skemmtidagskrána og ferðasjóður 9. og 10. bekkjar sér um að útvega foreldra sem sjá um matinn fyrir okkur þetta kvöld. Dagskráin stendur frá kl. 20.00 - 22.00.

Vorhátíð: Á síðasta skóladegi skólaársins er vorhátíð skólans. Nemendur mæta í skólann á venjulegum tíma og eftir morgunmat hefst vorhátíðin á sameiginlegri dagskrá í íþróttamiðstöðinni. Í kjölfar sameiginlegrar dagskrá gefst nemendum val um að fara í sund eða njóta skemmtilegra leikja á skólalóðinni. Í stað hefðbundins hádegisverðar er grillað. Vorhátíðardegi lýkur kl 13.00.

Skólaslit 1.-6. bekkinga fara fram á vorhátíðinni.

Skólaslit 7.-10. bekkinga: Skólaslit eldri nemenda skólans eru haldin í Hlíðarbæ kl 16.00 síðasta skóladaginn ár hvert. Það er ekki skólaakstur á skólaslitin.