Samkennsla árganga

 

Þelamerkurskóli telst til fámennra skóla en í þeim skólum hefur skipulagi kennslu verið þannig háttað að árgöngum er kennt saman í hópum sökum fámennis í hverjum árgangi. Margir fjölmennir skólar hafa lika valið samkennslu árganga sem leið til koma betur en áður til móts við þarfir hvers nemanda.

 Samkennsla árganga

Í Þelamerkurskóla er samkennsla árganga komin til vegna fámennis og nýta starfsmenn kosti skipulagsins einnig til að laga námið að þörfum nemendanna. Litið er svo á að með samkennslunni losni kennarar úr viðjum hefðbundinnar bekkjarkennslu þar sem lengi hefur viðgengist að allir nemendur árgangsins þurfi að vera á sama stað á sama tíma í námi sínu.

 

Við skipulag kennslu er haft í huga að flest börn eru á hverjum tíma mislangt komin á mismunandi sviðum þroskans. Til dæmis getur barn verið komið lengra í málþroska en skemmra í félagslegri færni en bekkjarfélagarnir. Slíkur þroskamunur er auðveldari viðfangs í aldursblönduðum hópum en aldursbundnum. Í samkennsluhópum skapast aðstæður þar sem hægt er að viðurkenna fjölbreytta hegðun og börn sem eru af einhverjum ástæðum skemmra komin á einhverju sviði þroskans en flestir jafnaldrarnir getur átt mun auðveldara uppdráttar innan um sér yngri samnemendur og það getur styrkt námsáhuga þess og sjálfsmynd.

Veturinn 2018-2019 verða námshópar skólans þrír og hver þeirra verður með tvo kennara. Hver námshópur á sína heimastofu og í skipulagi stundaskrár og námsins frá degi til dags hafa kennarar þann möguleika að skipta námshópunum þremur í minni hópa ásamt því að skipta með sér verkum þannig að hvor umsjónarkennari sjái um afmarkað efni með minni hópunum. Við þessar minni hópaskiptingar bætast svo bæði sérkennari og iðjuþjálfi skólans. Með þessu fyrirkomulagi telja starfsmenn skólans að sem best sé komið til móts við þarfir allra nemenda.