Grænfáninn

Viðurkenning á grænni grein

Þelamerkurskóli - á grænni grein.

Smellið á fyrirsögnina til að sjá yfirlit yfir umhverfismál í skólanum.  

Skólar á grænni grein (Eco-Schools) er alþjóðlegt verkefni sem menntar milljónir nemenda í 67 löndum víðsvegar um heim í sjálfbærni og umhverfisvernd. Verkefnið byggir á lýðræðismenntun og getu til aðgerða. 

Þelamerkurskóli hefur flaggað grænfánanum í þrjú skipti (2010, 2013, 2017) en verkefnið hófst formlega hér í skólanum haustið 2009. Til þess að öðlast þátttökurétt í grænfánaverkefninu þurfti skólinn að stíga skrefin sjö sem sett hafa verið fram á landsvísu. 

Árið 2013 tók Þelamerkurskóli þátt í ráðstefnunni Byggjum á grænum grunni í Hörpu og voru fulltrúar skólans þar með tvö erindi.

Í umhverfisnefnd skólans sitja 10 fulltrúar nemenda (einn úr hverjum árgangi), 3 starfsmenn skólans og eitt foreldri. Hlutverk umhverfisnefndar er m.a. að vinna að umhverfismennt í skólanum á fjölbreyttan hátt, fylgja þeim markmiðum sem sett hafa verið og virkja nemendur og starfsfólk til þátttöku. 

Að hausti hittist umhverfisnefndin og fer yfir grænfánamarkmið komandi skólaárs, sum eru langtímamarkmið og önnur skammtímamarkmið sem sett eru í byrjun vetrar. Reynt er að funda með allri nefndinni a.m.k einu sinni á önn en fulltrúar nemenda og verkefnisstjóri funda oftar. 

Þau verkefni sem umhverfisnefndin sinnir eru m.a. árlegu verkefnin og skipta nemendur og starfsmenn sér niður á hvert viðfangsefni og sinna þeim yfir veturinn. Einnig fara fulltrúar nemenda árlega í vettvangsferð er tengist endurheimt votlendis  en það er verkefni sem skólinn hefur tekið þátt í síðan 2017. Það ár fékk skólinn góða kynningu og fræðsludag frá aðilum frá Landvernd og Landgræðslunni þar sem fjallað var um endurheimt votlendis á skýran og skilmerkilegan hátt. Hér má sjá fyrirlestur sem nemendur unnu um votlendisverkefnið og kynntu fyrir samnemendum og starfsmönnum. Einnig þýddu nemendur af elsta stigi glærusýninguna yfir á ensku og kynntu fyrir gestum frá Háskólanum á Akureyri.

Endurheimt votlendis er eitt af langtímaverkefnum grænfánans í Þelamerkurskóla og það sama á við um Vistheimt með skólum en skólinn hóf þátttöku í því verkefni árið 2018. Verkefnið er stórt og mikið því skólinn réðst í það verkefni að græða upp gamla malarnámu í nágrenni skólans í samvinnu við sveitarfélagið og Norðurorku. Settir verða upp tilraunareitir í námunni sem nemendur og kennarar á miðstigi munu sjá um, auk þess sem nemendur og starfsfólk skólans munu vinna að uppbyggingu útivistarsvæðis. Hér má sjá fyrirlestur um þessi tvö verkefni, sem fluttur var á námskeiðinu Vistheimt með skólum haustið 2020. 

Á skólaárinu 2018-2019 bauðst skólanum að taka þátt í alþjóðlegu Erasmusverkefni um lífbreytileika (Hob´s Adventure) og lýkur því verkefni formlega á vorönn 2021. Stefnt er að því að yngsta stig skólans vinni áfram í verkefnum tengdum lífbreytileika og nýti sér handbók verkefnisins í þeirri vinnu. 

Verkefnisstjóri grænfánans í Þelamerkurskóla er Sigríður Guðmundsdóttir

 

 Heimasíða Grænfánans