Afreksfréttir og fjöldi mynda af skólastarfi á vormánuðum

Það hefur verið mikið um að vera í skólalífinu í Þelamerkurskóla síðustu vikur, bæði innan skóla sem utan. Hér koma fréttir af hinum ýmsu afrekum nemenda okkar, stórum sem smáum. Myndaalbúmin fylgja að sjálfsögðu með. 

Um miðjan maí bárust okkur þær fréttir frá Barnabókasetri og verkefnastjórn Siljunnar, myndbandasamkeppni grunnskóla á landinu, að við hefðum SIGRAÐ í myndbandasamkeppni 8.-10. bekkinga á landinu. Og ekki nóg með að við hefðum sigrað, heldur hlutum við líka 2. sætið í keppninni. Stórkostlegur árangur hjá nemendum 9.-10. bekkjar!  Myndböndin eiga að fjalla um söguþráð nýrrar íslenskrar barnabókar.

Fyrsta sætið hlutu strákarnir í 9.-10. bekk með myndbandið Skuggar, úr bók Ævars Þórs Benediktssonar Fleiri hryllilega stuttar hrollvekjur. Umsögn dómnefndar um myndbandið var eftirfarandi: Sannkallað skuggaspil, rammað inn með frásögn sögumanns þar sem tæknibrellur vekja ugg í brjósti. Skemmtileg leikstjórn, vel mótaðir karakterar, lesturinn virkilega góður og myndbandið allt vel heppnað og krípí.

Í öðru sæti lentu stelpurnar í 9.-10. bekk með myndbandið Viltu vera vinur minn? úr samnefndri bók eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttir. Umsögn dómnefndar um þeirra myndband er þessi: Skemmtilegt og einlægt myndband þar sem tekst að koma fallegum boðskap bókarinnar til skila. Áhugaverð leikstjórn og gott val á tónlist (í stað þess að nota samtal) sem býr til dramatískar senur um einmanaleika, uppgötvun og leik. Búningarnir eru flottir og leikmunir nýtast vel til að túlka söguna, ekki síst túlípanar sem standa upp úr snjó!

Sigurmyndband Siljunnar, Skuggar

Annað sæti Siljunnar, Viltu vera vinur minn?

Stóra upplestrarkeppni 7. bekkinga í skólum á Eyjafjarðarsvæðinu fór fram í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík þann 27. apríl sl. Þar lásu fyrir hönd Þelamerkurskóla þær Lára Rún og Kaja Líf og stóðu þær sig báðar afar vel. Jósef Orri var svo í starholunum sem varamaður. Hér eru myndir frá upplestrarhátíðinni á Dalvík sem og upplestrarhátíðinni innan skólans sem haldin var 19. apríl.

Sunnudaginn 1. maí mættu galvaskir foreldrar og nemendur á Þórsvöllinn á Akureyri til að taka þátt í 1. maí hlaupinu góða. Markmiðið var að sjálfsögðu að verja titilinn sem skólinn með bestu þátttökuna. Þökk sé frábærum foreldrum og kraftmiklum nemendum, sem létu nístingskulda ekki stoppa sig, sigruðum við aftur í hópi minni skóla og nemendur fengu afhendan stóran og flottan bikar. Hér eru myndir af hlaupurunum okkar.

Þann 2. maí fór miðstigið okkar til Grenivíkur og átti þar góðan dag með jafnöldrum úr samskólunum. Krakkarnir unnu saman þvert á skóla í alls kyns skemmtilegum verkefnum. 

4. maí var svo komið að Skólahreysti en Þelamerkurskóli átti flott lið sem samanstóð af þeim Ester Katrínu, Jónatani, Söndru Björk og Stefáni Karli. Anna Lovísa og Daníel voru varamenn. Krakkarnir stóðu sig allir frábærlega og Þelamerkurskóli lenti í 4. sæti meðal skóla af Norðurlandi eystra. Ester Katrín gerði sér lítið fyrir og sigraði hreystigreip með glæsibrag, þegar hún hékk á slánni í 13,15 mínútur. Tími Esterar er sá besti á árinu og sá þriðji besti frá upphafi Skólahreystis. Stórkostlegur árangur.  Myndir frá Skólahreysti.

5. maí var í fyrsta sinn haldin hæfileikakeppni grunnskóla á Norðurlandi sem ber heitið Fiðringur. Þelamerkurskóli átti þar hóp nemenda sem höfðu nýtt mánuðina á undan til að hann sitt eigið atriði til að flytja á stóra sviðinu í Hofi, í beinni útsendingu í sjónvarpinu. Hópurinn samdi atriði sem bar heitið Fagurfræði og fjallaði um fegurð út frá mismunandi sjónarhornum og hvernig fegurð er afstætt hugtak. Öll erum við ólík og einstök og höfum ólíkar skoðanir á því hvað er fallegt. Túlkun krakkanna og frammistaða á sviðinu var stórkostleg og vorum við afar stolt af þessum hæfileikaríku krökkum. Hópinn skipuðu þau Jóhanna Margrét, Liv Sólrún, Elín Bára, Elísa, Tinna Dögg, Lilja Lind, Alex Jón, Anna Lovísa, Ester Katrín, Úlfur Sær og Valgerður Telma. Myndir frá Fiðringi.

6. maí kom Geðlestin í heimsókn til okkar með fræðslu um líðan og andlega heilsu fyrir 7.-10. bekk. Að fræðslu lokinni var nemendum í 1.-6. bekk boðið í partýið og Emmsjé Gauti mætti á svæðið og tók lagið með krökkunum. Það var líf og fjör í rappinu, dansað og sungið uppi á borðum og allir fóru óvenju peppaðir í morgunmat að partýi loknu. Myndir úr rapppartýi.

Að lokum er hér að finna ýmsar myndir frá skólastarfi apríl og maí mánaðar