Dagur íslenskrar náttúru er í dag og þá er nú gott að vera í miðju kafi í köngulóarverkefni. Nemendur í þriðja og fjórða bekk hafa verið að vinna með köngulær og önnur dýr af svipaðri stærð. Í útiskóla síðasta fimmtudag tóku þau upp skordýragildrur sem settar höfðu verið vikunni áður. Það var mikil spenna og áhugasamur nemandi sem nálgaðist kennarann á mánudagsmorgni til að kanna hvort kennarinn hefði farið um helgina og athugað í gildrurnar. Áður en við tókum úr gildrunum skoðuðum við fingraförin okkar í lítilli víðsjá sem við eigum. Hægt er að klemma hana á snjalltæki sem gerir það að verkum að þegar við sjáum eitthvað áhugavert þá getum við tekið mynd. Nemendur settu fingur og neglur undir víðsjána til að skoða stækkunina sem er veruleg og skein forvitnin af þeim. Eftir það fórum við hring og hver hópur fór og kynnti hvað þau höfðu gert með gildrurnar og sýndu samnemendum hvað var í þeirra gildru. Skordýrum var síðan safnað saman til frekari skoðunar inni í skólastofu. Nemendur eru almennt mjög áhugasöm um náttúruna og dýrin sem í henni lifa. Meðfylgjandi eru myndir og myndbönd af þessum frábæra hóp.