Dagur íslenskrar náttúru - heimsókn 5.-8. bekkjar á Hóla í Öxnadal

Á degi íslenskrar náttúru, sem er 16. september ár hvert, vinna margir skólar að einhverjum verkefnum sem tengjast náttúrunni. Markmiðið er að auka meðvitund, áhuga og þekkingu á náttúrunni, nærumhverfinu og samspili manns og náttúru. Jafnframt er tilgangurinn að efla þekkingarleit og áhuga nemenda á náttúruskoðun og tengja það fjölbreyttri leið til rannsókna, sköpunar og miðlunar. 

Í  haust fengu nemendur 5. - 8. bekkjar boð um að koma í heimsókn til hjónanna á Hólum Öxnadal, þeirra Sifjar og Óla og þótti tilvalið að fara í þá heimsókn á þessum degi. Svæðið þar í kring er rómað fyrir fegurð og stórbrotna náttúru.  Allir nemendur skráðu hjá sér allt sem þeim datt í hug tengt náttúrunni á meðan heimsókninni stóð. Jafnframt skráðu þau hjá sér svör við spurningum sem tengjast náttúrunni, áhrifum mannsins á náttúruna, hvað náttúran gerir fyrir okkur öll. Hópurinn hefur það verkefni eftir heimsóknina, að semja sögu þar sem þau flétta inn orðin og/eða fyrirbærin sem þau sáu, heyrðu eða skynjuðu í heimsókninni. Veðrið var mjög gott, umhverfið yndislegt og við fengum góða leiðsögn um svæðið frá Sif. Við lærðum m.a. um hvernig landið á svæðinu mótaðist fyrir um 8 milljón árum síðan og hvernig allir hólarnir á svæðinu urðu til. Við löbbuðum að háum fossi sem liggur í gili Þverár. Svo gengum við upp á Hádegishóla og fengum frábært útsýni yfir svæðið. Ekki skemmdu haustlitirnir og öll berin fyrir. Brekkurnar voru bláar og svartar af bláberjum og krækiberjum. Nemendur og kennarar tíndu nokkuð að berjum í fötu og fullt af berjum í munn og maga. Allir fóru berjabláir og glaðir heim í skóla eftir ferðina, fullir af fróðleik og berjum. 

Á morgun ætla nemendur að ljúka við sögurnar sínar og verður spennandi að fá að lesa hvernig söguþráðurinn tengist einhverju af upplifun þeirra frá heimsókninni á Hóla. Nemendur og kennarar þakka Sif og Óla kærlega fyrir hlýjar og góðar móttökur á Hólum. 

Myndir úr ferðinni er að finna hér