Dagur íslenskrar tungu

Í dag 16. nóvember er afmælisdagur Jónasar Hallgrímssonar og Dagur íslenskrar tungu. Slíkum degi ber að fagna með því að vinna sérstaklega með okkar ástkæra ylhýra tungumál.  Jónas samdi ekki einungis sögur og kvæði, heldur var hann sérlega ötull nýyrðasmiður.

Í tilefni dagsins unnu nemendur fjölbreytt verkefni sem ýmist prýða veggi skólans eða sundlaugina okkar góðu, Jónasarlaug, sem einmitt dregur nafn sitt af skáldinu frá Hrauni í Öxnadal. Við hvetjum ykkur til að fara í sund og njóta þeirra glæsilegu verkefna sem þar er að finna. Nemendur í 1.-4. bekk myndskreyttu ljóð eftir Jónas og nemendur 5.-8. bekkjar unnu með nýyrði Jónasar.

Nemendur í 9. og 10. bekk hafa verið að vinna með hýryrði í tengslum við verkefni í samfélagsgreinum og tóku þau þátt í nýyrðasamkeppni Samtakanna ´78 sem nú er haldin í þriðja sinn. Í dag kynntu þau jafnframt bækur sem þau hafa verið að lesa og á veggjum skólans hanga kynningar á bókum sem þau mæla sérstaklega með. 

Í matsal skólans eru að rísa bókahillur sem nemendur búa til úr pappír og fylla af bókakjölum sem merktir eru þeirri bók sem hvert og eitt þeirra er að lesa um þessar mundir. 

Okkar mánaðarlegi viðburður Öll lesa var einnig í dag auk þess sem boðið var upp á þjóðlegar lummur með ávöxtunum um miðjan morgun. Lummurnar runnu ljúflega niður og glöddu bæði nemendur og starfsfólk.

Hér má sjá myndir frá deginum.