Forsetakosningar Þeló 2024

Sandra Björk stóð uppi sem sigurvegari
Sandra Björk stóð uppi sem sigurvegari

Forsetakosningar fóru fram í Þelamerkurskóla miðvikudaginn 29. maí. 

Verkefnið var samþætt og hluti af íslensku, samfélagsgreinum, lykilhæfni, náttúrufræði, ensku og listgreinum. Nemendum í 9. og 10. bekk var skipt upp í fimm kosningateymi og valdi hvert teymi sinn forsetaframbjóðanda. Teymin þurftu að undirbúa kosningarherferðina sína m.a. með því að afla meðmæla, ákveða málefni framboðsins, búa til slagorð, hanna merki, skapa ímynd frambjóðandans, gera framboðsmyndband, hanna auglýsingar, undirbúa ræður fyrir öll í kosningateyminu, svara undirbúnum spurningum fyrir kappræður og margt fleira. 

Kosningarnar fóru fram á Torginu og mættu nemendur í 4.-8. bekk ásamt starfsfólki skólans og hlýddu á ræður og myndbönd hvers framboðs. Að því loknu var gengið til kosninga. Svo fór að Sandra Björk Hreinsdóttir, nemandi í 10. bekk, bar sigur úr býtum með 36% atkvæða. Við óskum henni hjartanlega til hamingju með forsetatitilinn og þökkum á sama tíma meðframbjóðendum fyrir góða samkeppni.

Nemendur stóðu sig frábærlega en greinilegt var að þau undirbjuggu sig vel en flutningur allra var mjög góður. Verkefnið þjálfaði ekki einungis framsögn, ræðumennsku og gagnrýna hugsun heldur var mikil áhersla lögð á skapandi vinnubrögð og að nemendur kynntu sér samfélagsleg og alþjóðleg málefni. 

Þetta var fyrirmyndar verkefni sem krafðist mikils af nemendum sem sýndu mörg hver framúrskarandi árangur. Til hamingju með vel unnið verk! Hérna eru myndir frá viðburðinum.