Í dag var fyrirhugað að halda Norræna skólahlaupið sem í ár er tileinkað Unicef-hreyfingunni. Að undanförnu hafa þeir sem eru viðkvæmir í öndunarfærum fundið fyrir óþægindum vegna loftmengunar af völdum eldgossins í Holuhrauni.
Á vef Veðurstofu Íslands er viðvörun þar sem sagt er að búast megi við gasmengun á Norðurlandi frá Ströndum til Eyjafjarðar. Á vef Umhverfisstofnunar eru upplýsingar um loftgæði víða á landinu. Mælir sem staðsettur er í Naustafjöru á Akureyri sýnir að enn eru loftgæði góð og að ekki sé ástæða til að draga úr útiveru né áreynslu utandyra. Á vef Umhverfisstofnunar er líka að finna ráðleggingar um viðbrögð við gasmengun frá eldgosum. Þar kemur fram að þegar loftgæðin eru eins og mælirinn í Naustafjöru sýnir hafi þau yfirleitt engin áhrif á heilsufar en að einstaklingar með undirliggjandi sjúkdóma geti fundið fyrir áhrifum.
Í samtölum við starfsmenn Veðurstofu, Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra í morgun kom fram að óhætt er að fara eftir þeim upplýsingum sem koma fram á mælinum í Naustafjöru og ráðleggingum Umhverfisstofnunar. En allur er varinn góður, til að stofna heilsu nemenda okkar ekki í neina hættu frestum við hlaupinu sem var áformað í dag þar til loftgæðin verða okkur hagstæðari.
Fyrir þá sem vilja fylgjast með loftgæðunum og mögulegum viðbrögðum við gasmenguninni þá eru reglulega settar inn uppýsingar og svör við spurningum landsmanna á Facebook-síðu Umhverfisstofnunar.
|
Laugalandi | 604 Akureyri Sími á skrifstofu: 460-1770 Netfang: thelamork@thelamork.is Kt: 510101-3830 Skrifstofa skólans er opin: Mán-fim: kl. 07:45 - 16:00 Fös: kl. 07:45-15:00 |
Skólastjóri: 460-1770 Frístund: 460-1771 |