Það var vaskur hópur nemenda, starfsfólks og aðstandenda sem héldu af stað í leiðangur og var förinni heitið upp að Hraunsvatni. Rúturnar keyrðu okkur að Hrauni í Öxnadal og voru kennarar óþreyttir við að ausa úr viskubrunni sínum yfir nemendur um Jónas Hallgrímsson og jurtaheitum. Foreldrar voru engu skárri og heyrðust til að mynda sögur af bráðnun jökla og hvernig drangarnir urðu til. Á sama tíma gleyptu börnin í sig bústin ber og voru orðin berjablá í framan við heimkomu. Við gæddum okkur á aðalbláberjum, aðalberjum, krækiberjum og hrútaberjum. Öll voru þau guðdómlegt viðbit á langri göngu þar sem lækurinn skoppaði niður brekkuna og hlátur barnanna ómaði milli fjallshlíðanna. Skemmtilegur dagur í alla staði og þreytt börn sem komu heim eftir eftirminnilegan dag sem endaði í leik og sundi. Við í þriðja og fjórða bekk fylgdum síðan ferðinni eftir með orðaforðavinnu tengda orðum úr náttúrunni í Öxnadal. Við rifjuðum upp allt sem við sáum, komum við eða heyrðum og var gaman að heyra hversu fjölbreyttur orðaforði þeirra er. Meðfylgjandi eru myndir úr þessari góðu ferð og verkefni nemenda.