Fréttir af umhverfisnefnd

Verkefni umhverfisnefndar eru mörg og fjölbreytt. Nemendur hafa sinnt hænunum, moltu skólans, unnið verkefni og sótt landshlutafund grænfánans. Fundir yfir skólaárið voru fyrsta hvern fimmtudag í hverjum mánuði og náðum við nokkuð að halda settu markmiði.

Nefndin er skipuð nemendum úr hverjum árgangi sem síðan skiptist í hópa innan nefndarinnar.

Landshlutafundur grænfánans var haldinn að Stóru-Tjörnum þann 22. apríl. Anna Rós, Ólöf, Helena og Lára fóru sem fulltrúar skólans. Við tókum þátt í fræðslu og leikjum. Við fengum að heyra hvað skólarnir hér fyrir norðan eru að gera. Þetta var mjög skemmtilegur dagur og góður vettvangur til að hittast og læra hvert af öðru.

Hænurnar eru níu talsins og eru ansi vel haldnar eftir skólaárið enda búa þær vel að því að fá afganga úr mötuneyti skólans. Svala og Helga í mötuneytinu safna öllu þeirra uppáhaldi og síðan koma nemendur og sækja fötu til þeirra og gefa hænunum, ná í eggin, þrífa þau og safna saman. Eggin eru síðan notuð í heimilisfræði. Óli húsvörður sér svo um að ekki vanti varpköggla enda viljum við fá vel af eggjum. 

Moltan hefur verið athvarf hinna íslensku hagamúsa, en þar una þær sér vel feitar og sællegar. Ör stækkun skólans hefur komið okkur til þess að hugsa um hvort þörf sé fyrir að fá lífræna tunnu sem myndi létta á moltunni og við myndum þá velja aðeins úr hvað færi þangað. Markmiðið er að mýsnar verði sjálfstæðari og fari lengra í burtu. Við nýtum moltuna í uppgræðslu á námunni og hlökkum til að fara sjá hana gróa og verða fagurgræna og fína. Umhverfisnefnd sendi sveitastjórn beiðni um tunnu og tóku þeir vel í það. Það er mikilvægt í þessu starfi hvað allir taka jákvæðan þátt og sýna samstöðu í verki.

Framundan er umhverfisdagurinn þann 17. maí. Þar stefnum við að því að setja niður kartöflur og grænmeti, vinna að uppgræðslu í námunni, glæða umhverfissáttmálann lífi í gluggum skólans og hreyfa okkur í leikjum á lóðinni. 

Við minnum á nýja heimasíðu graenfaninn.is/ Eins hvetjum við ykkur að fylgja Grænfánanum á facebook þar eru þær eru duglegar að deila frá því sem er að gerast í verkefninu https://www.facebook.com/graenfaninn

 

Nefndin óskar öllum gleðilegs sumars og vonar að allir sýni umhverfinu sínu þá virðingu að ganga vel um og flokka.

Meðfylgjandi eru myndir af vorverkum í hænsnakofanum.