Góður gestur

Eliza sagðist snortin af móttökunum
Eliza sagðist snortin af móttökunum

Eliza Reid foresetafrú kom að Þelamerkurskóla rétt rúmlega kl. 12:30 í dag og með henni var fólk frá Listahátíð, Flugfélagi Íslands og Verksmiðjunni á Hjalteyri. Nemendur skólans tóku á móti Elizu með fánaborg úr kanadíska og íslenska fánanum. Elizu og fylgdarliði var svo boðið til veislu í mötuneytissalnum. Óli kokkur, Silla, Helga og nokkrir nemendur úr elsta námshópnum höfðu gert salinn hátíðlegan og Óli var búinn að elda dýrinds lambasteik sem var borin fram með alls kyns meðlæti og tvenns konar sósu. 

Í upphafi veislunnar bauð Axel Grettisson, oddviti Hörgársveitar gesti velkomna og sagði frá sveitarfélaginu og staðháttum. Þvínæst kynnti Ingileif skólastjóri skólann og það helsta í starfsemi hans. Þegar gestir höfðu lokið við aðalréttinn komu nemendur 1.-3. bekkjar í samkvæmið og sungu lagið Bittu kengúruna og léku undir á margs konar hljóðfæri. Og auðvitað voru þeir klappaðir upp og sungu tvö aukalög.

Samkomunni lauk með upplestri 7. bekkinga sem um þessar mundir æfa sig fyrir Stóru upplestrarkeppnina. Nemendur lásu ljóð eftir Ólöfu Sigurðardóttur frá Hlöðum, Davíð Stefánsson frá Fagraskógi og Jónas Hallgrímsson frá Hrauni í Öxnadal. 

Áður en Eliza og fylgdarfólk fóru úr skólanum kíktu þau inn í skólastofurnar og köstuðu kveðju á nemendur. Síðan héldu þau á Hjalteyri þar sem Eliza afhenti Eyrarrósina en Verksmiðjan á Hjalteyri fékk hana í fyrra. 

Hérna er hægt að skoða myndir frá heimsókninni.