Göngudagurinn

Á morgun fara allir nemendur og starfsmenn skólans í gönguferð. Farið verður í fjórar mismunandi ferðir í nágrenni skólans, allt eftir aldri, þroska og áhuga nemenda. 

  • 1.-4. bekkur áforma að fara að Gásum og ganga um fjöruna á Gáseyri og leika sér. Með þeim fara Anna Rós, Jónína Sv og Sigga Hrefna. Muna að koma klædd eftir veðri og með aukaföt því mjög auðvelt er að blotna í þessari ferð.
Nemendur 5.-10. bekkjar gátu valið um fjórar mismunandi ferðir. Ein þeirra, ferðin að Krossastaðagili féll niður vegna dræmrar þátttöku. 
  • Hraunsvatn - þá ferð völdu 16 nemendur. Ekið er að Hrauni og gengin stikuð leið upp að Hraunsvatni og niður hjá Hálsi. Með þeim fara Hulda, Ragna og Helga kennaranemi. Hægt að taka með sér veiðistöng. Þeir sem eiga flugnanet geta tekið það með sér. Það þarf að vaða yfir útfall vatnsins svo gott er að hafa með sér skó eða þykka sokka til að vaða í. Þeir hörðustu geta líka vaðið berfættir. Sumir ná að stikla yfir. 
  • Hjólað í Baugasel - þá ferð völdu 9 nemendur. Ekið er að Bugi og hjólað að Baugaseli og aftur til baka. Með nemendum fara Berglind, Anna Rósa, Gulla og Unnar 
  • Gengið á Staðarhnjúk - þá ferð völdu 5 nemendur. Ekið er að Möðruvöllum og gengið á hnjúkinn. Með nemendum fara Sigga G. og Jónína Ga.
Þessi dagur telst langur dagur því skólabílar fara frá skólanum kl. 16:00. Áður en nemendur halda í gönguferðirnar fá þeir staðgóðan morgunmat í skólanum. Starfsfólk mötuneytis sér um að útbúa hlaðborð fyrir nemendur með smurðum tortillavefjum, brauðmeti, áleggi, kjúklingaleggjum, ávöxtum og drykkjum þar sem nemendur geta búið sér til nesti. Hægt er að velja á milli safa eða kókómjólkur. Nemendur þurfa samt að hafa með sér nestisbox og vatnsbrúsa að heiman. 
Þeir sem heldur vilja hafa með sér nesti að heiman geta gert það, sælgæti, snakk, gos og orkudrykkir eru ekki leyfð í gönguferðunum. 
 
Dagskrá göngudagsins er eftirfarandi: 
5.-10. bekkur   
Klukkan Hvað 
8:20-9:15 Morgunmatur og nestisgerð
9:30 Rútur fara frá skóla
14:30 Áformað að koma heim frá skóla
14:30-16:00 Hressing, heitur pottur og sund í Jónasarlaug
 
1.-4. bekkur   
Klukkan Hvað 
8:20-9:20 Með umsjónarkennara
9:20-10:00 Morgunmatur, nestisgerð og rúta fer frá skóla
14:00 Áformað að koma heim að skóla
14:00-16:00 Leikur, hressing, heitur pottur og sund í Jónasarlaug 
 
Allt bendir til þess að verðurspáin sé góð fyrir morgundaginn. Þá er bara að muna:
  • að búa sig eftir veðri og gönguleið
  • taka með sér bakpoka, nestisbox og vatnsbrúsa
  • sundföt svo hægt sé að láta gönguþreytuna líða úr sér í Jónasarlaug