Grunnskólamót á Laugum 7.-10. bekkur

Nemendur í 7.-10. bekk fóru á grunnskólamót á Laugum föstudaginn 6. október. Þetta er árlegur viðburður sem skólinn hefur farið á núna í nokkur ár og er alltaf einstaklega skemmtilegur. Í ár fóru 25 nemendur ásamt Rögnu og Helgu, bæði til að keppa í hinum ýmsu íþróttagreinum og til að styðja samnemendur sína. Fyrst á dagskrá var þrautabraut þar sem við vorum með lið í bæði 7.-8. bekk og 9.-10. bekk, tveir strákar og tvær stelpur. Bæði liðin lentu í 2. bæti og stóðu sig gríðarlega vel í hinum ýmsu þrautum. Næst var farið í Dodgeball, það var kynjaskipt og vorum við með eitt lið hjá stelpum og eitt lið hjá strákum. Því miður komust liðin ekki upp úr riðlinum sínum og í undanúrslit en sýndu engu að síður flotta takta. Þá tók við körfuboltakeppnin, þar tefldum við fram tveimur strákaliðum og einu stelpuliði. Strákarnir komust í undanúrslit eftir að hafa unnið alla sýna leiki í riðlinum en því miður tapaðist hann með naumindum. Stelpurnar gerðu sér lítið fyrir og unnu alla sína leiki og stóðu því uppi sem sigurvegarar. Einnig tókum við þátt í útsláttarkeppni í borðtennis. Mótið endaði síðan á blakkeppni, þar voru tveir saman í liði og þar vorum við með þrjú lið. Úrslitin eru aukaatriði en þau skemmtu sér vel.

Á meðan á keppni stóð fóru nemendur í 9.-10. bekk í skólakynningu hjá Framhaldsskólanum á Laugum þar sem aðallega var talað um félagslíf skólans og námsbrautirnar kynntar.

Hluti nemenda skelltir sér síðan í sund og eftir keppni var farið í mat. Við tók síðan kvöldskemmtun þar sem nemendur gátu farið í karaokí og dansað þar til rúturnar fóru heim.