Lestrarviðburðir, Gullhilla, sirkuslistir og árshátíðarundirbúningur

Nemendur í Þelamerkurskóla taka nú af fullum krafti þátt í lestrarátaki Ævars vísindamanns og áhuginn er áþreifanlegur. Áhuginn birtist einnig sterkt þegar blásið er til Allir lesa stundarinnar sem er regluleg hér í skólanum. Þá slær skólastjóri í lítið gong hljóðfæri og nemendur og starfsfólk dreifa sér um allan skólann með lesefni í hönd og í 20 mínútur er hver einasta manneskja innan skólans niðursokkin í lesefni að eigin vali. Krökkunum finnst gaman að fá að koma sér fyrir á stöðum sem þeir eru annars sjaldan á, s.s. kaffistofu starfsfólks, skrifstofu skólastjórnenda og uppí glugga eða bakvið yfirhafnir í forstofunni. Fyrir utan skrifstofu skólastjórnenda er sérhönnuð gullhilla sem hefur að geyma gull frá heimili skólastjórans, þ.e. fjölbreytt úrval lesefnis fyrir allan aldur auk þess sem viðlíka gulli hefur verið dreift víða um skólann. Mikil ásókn er í gullið og nemendur passa vel uppá það sem þeir fá lánað.

Á haustönn fengu nemendur í 1.-7. bekk einn tíma á viku í danskennslu og nú á vorönn fá þeir einn tíma á viku í sirkuslistum. Þar er um að ræða fjölbreyttar æfingar sem reyna á og efla styrk, samvinnu, einbeitingu, samhæfingu, athygli, jafnvægi, þrautseigju og sjálfstraust. Kennari er sirkuslistakonan Unnur María Máney Bergsveinsdóttir.

Árshátíðarundirbúningur er á fullu skriði og má heyra og sjá söngæfingar, leikmunagerð og gleði við handritsgerð víða um skólann.

Myndir