Heilsa, réttindi og raddir barna

Niðurstöður barnaþingsins voru settar fram á listrænan hátt
Niðurstöður barnaþingsins voru settar fram á listrænan hátt

Heilsa, réttindi og raddir barna

Velheppnaðri þemaviku lauk í dag með opnu húsi þar sem fjöldi fólks lagði leið sína í skólann til að skoða afrakstur þemavikunnar. 

Verkefnavinnan var fjölbreytt en þemavikan hafði yfirskriftina ,,Heilsa, réttindi og raddir barna." Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna og grunnþættir menntunar voru hafðir að leiðarljósi í allri verkefnavinnu. Nemendur unnu verkefni í aldursblönduðum hópum, við vorum með vinabekkjadag og haldið var barnaþing. Á þriðjudeginum fóru vinabekkir meðal annars saman í íþróttir hjá Rögnu þar sem nemendur reyndu á sig í samvinnuleikjum. Eldri nemendur skólans skoðuðu meðal annars fréttir og fundu dæmi þess hvar verið er að brjóta réttindi barna. Yngri bekkir unnu með ævintýri og skoðuðu hvernig þau myndu breytast ef réttindi barna væru virt í þeim. Meðal fleiri verka má nefna að búnir voru til mannréttindaóróar, hugtakaský, ljósmyndabingó og nemendur tóku  viðtöl bæði við samnemendur og starfsfólk skólans.

Á barnaþingi fengu raddir barna að heyrast, nemendur ræddu ákveðnar spurningar í hópum og svo var haldið þing þar sem hópar greindu frá niðurstöðum. Markmið með barnaþinginu er að leyfa börnunum að fá tækifæri til að láta raddir sínar heyrast, að það sé hlustað á þau, einnig að læra lýðræðisleg vinnubrögð svo sem að allar skoðanir eiga rétt á sér og við berum virðingu fyrir öðrum nemendum.

Auk réttinda og radda þá var heilsa líka viðfangsefni þemavikunnar. Nemendur veltu fyrir sér hvað felst í líkamlegri og andlegri heilsu, sykurinnihald nokkurra vara var sett fram á skemmtilegan hátt einnig var unnið með hvernig við sjálf berum ábyrgð á okkar eigin heilsu. Hugtakið félagsleg heilsa kom líka fram og leiðir ræddar hvernig við hlúum að henni. 

Afrakstur þemavikunnar var til sýnis í dag og gaman að sjá hve mörg sáu sér fært að koma og skoða afrakstur verkefnanna en myndir frá vikunni má sjá í albúmunum.

Hérna eru hlekkir á nokkur albúm sem tengjast þemavikunni:

-Opna húsið 14. nóvember

-Myndir af afurðum þemavikunnar

-Myndir frá barnaþinginu 13. nóvember

-Myndir frá vinabekkjadeginum