Heimsmet í lestri og hreyfiátak Þelamerkurskóla í apríl

Nemendur og starfsfólk Þelamerkurskóla eru komin með stór og góð markmið fyrir aprílmánuð. Það er annars vegar að komast hringinn í kringum Ísland með hreyfingu og að setja heimsmet í lestri ásamt öðrum Íslendingum og stefna með því á að fá metið skráð í heimsmetabókina góðu!

Á þessari slóð hér sjáið þið hvernig við fikrum okkur hringinn í kringum landið, en starfsfólk er farið af stað og um hádegisbil í dag vorum við komin samtals 131,5 km áleiðis. Ofarlega á síðunni sjáið þið bláa stiku sem heitir Skráning á hreyfingu. Þar smellið þið til að skrá hreyfinguna ykkar og tvisvar sinnum á dag verður heildarvegalengd uppfærð auk þess sem það sést á Íslandskortinu vinstra megin hvert við erum komin hverju sinni.

Heimsmetið í lestri fer þannig fram að á síðunni Tími til að lesa skráið þið ykkur inn með því að búa til notandan á einfaldan hátt. Því næst er skráður inn mínútufjöldi í hvert sinn sem eitthvað er lesið eða hlustað er á hljóðbók. Þegar þetta er skrifað eru Íslendingar búnir að lesa í 414.074 mínútur, sem gera rúmlega níu mánuði samtals!

Við hvetjum alla til að taka þátt. Lestur eykur orðaforða, skilning, námsárangur, víðsýni og fleira og fleira. Hreyfing bætir líðan, andlega sem líkamlega.  Áfram við, áfram Þeló, áfram lestur og áfram hreyfing!