Í vikunni heimsótti Samfélagslöggan nemendur skólans með fræðslu um mikilvæg öryggis- og samfélagsmál. Lögreglufulltrúar hittu nemendur í 5.-7. bekk á miðvikudag og nemendur í 8.-10. bekk á fimmtudag. Heimsóknirnar eru liður í forvarnarstarfi skólans og mikilvægur þáttur í að fræða nemendur um ábyrgð og afleiðingar ákvarðana sinna. Samfélagslöggurnar mættu líka á foreldrafund hjá kynningarfundi 7.-10. bekkinga.
Á fundunum var fjallað t.d. um notkun rafhlaupahjóla sem hafa orðið sífellt algengari meðal unglinga. Lögreglufulltrúar fóru yfir helstu öryggisreglur, svo sem skyldu til að nota hjálm, aldurstakmarkanir og þær reglur sem gilda um akstur rafhlaupahjóla á gangstéttum og götum.
Hegningarlögin voru kynnt fyrir nemendum á aldursmiðaðan hátt þar sem farið var yfir sakhæfisaldur og hvaða reglur gilda um einstaklinga undir 18 ára aldri. Einnig var rætt um alvarleika vopnaburðar og afleiðingar hans. Nemendur fengu fræðslu um hvernig slíkt athæfi er tekið alvarlega í lögum og hvaða afleiðingar það getur haft, jafnvel fyrir börn og unglinga á skólaaldri. Einnig var fjallað um netöryggi og komið inn á samfélagsmiðla.
Nemendur sýndu þessum málefnum mikinn áhuga og spurðu margra góðra spurninga. Hér má sjá myndir frá heimsókninni´.