Hönnun og smíði í 1. og 2. bekk

Í hönnun og smíði hjá 1. og 2. bekk fengu nemendur það verkefni að búa til pennastatíf úr lerki sem fellt var fyrir nokkrum árum i Mörkinni. Í innlögn kennara fengu nemendur m.a. kynningu á íslenskum trjátegundum eins og birki, lerki og greni. Öllum trjátegundum má skipta í tvo aðalflokka þ.e barrtré og lauftré. Lauftré fella laufin á haustin en barrtrén eru sígræn. Lauftré gefa af sér við sem kallaður er harðviður en viður barrtrjáa er kallaður mjúkviður.  Einnig var nemendum sýndur þverskurður af tré og þeim sýnt hvernig finna má út aldur trjáa með því að telja árhringina í trénu.   Að innlögn lokinni fengu nemendur viðarbútinn sinn sem þau byrjuðu á að pússa. Síðan hófst vinnan við það að mæla og merkja fyrir staðsetningu á holunum sem bora átti í spýtuna. Síðan fengu nemendur nagla sem þeir notuðu til þess að merkja holurnar betur. Svo voru holurnar boraðar í súluborvél. Að því loknu var viðarolía borinn á lerkibútinn. Verkefnið heppnaðist vel og nemendur unnu vel í tímanum. Tveir eldri nemendur voru okkur til aðstoðar og hjálpuðu þeim nemendum sem voru ragir við það að bora sjálfir.

Hér eru nokkrar myndir úr tímanum.