Jóladagar

Í þessari frétt setjum við saman myndasöfn frá hinum ýmsu jólatengdu dögum þar sem margra ára gamlar hefðir skapa fegurð, gleði og öðruvísi samverustundir sem eru góð tilbreyting frá annars fjölbreyttu skólastarfi. Með því að smella á yfirheiti hverrar umfjöllunar opnast myndasafn frá viðkomandi viðburði.

Jól í skókassa: Nú má gera ráð fyrir að börn í Úkraínu séu um það bil að fá afhentar jólagjafir frá nemendum Þelamerkurskóla, en nemendur úr skólanum fengu þá hugmynd fyrir nokkrum árum að við myndum öll sameinast um að útbúa Jól í skókassa fyrir börn sem annars ekki fá gjafir. Góð hugmynd sem orðin er að hefð.

Jólaljósadagurinn: Snemma í desember höfum við sl. 20 ár byrjað daginn á að fara upp í hlíðina við skóginn á móti skólanum, þar sem hver nemandi skólans kveikir á sínu friðarkerti til að lýsa upp skammdegið og njóta fegurðar og friðar. Falleg hefð og uppáhaldsdagur margra.

Laufabrauðsskurður og jólastöðvar, skautar og jólabíó:  Síðustu dagana fyrir jólafrí var að venju notaleg stemming. Einn dagur fór í að skera út laufabrauð og skemmta sér svo á fjölbreyttum og skemmtilegum stöðvum, s.s. við forritun og tækni, jólaföndur, piparkökuskreytingar, slökun, perl, íþróttir og sund. Annar dagur var nýttur í jólaskautaferð, gönguferð á Akureyri og jólabíó. Í ár komum við nemendum skemmtilega á óvart með því að hafa jólabíóið „alvöru“ bíóferð í bíóhús á Akureyri. Krakkarnir fögnuðu gríðarlega þegar þeim var tilkynnt það rétt áður en bíóið hófst.

Litlu jólin: Litlu jólin okkar voru nokkuð hefðbundin með heimsókn í Möðruvallakirkju þar sem nemendur fluttu tónlist og tal af stakri snilld, stofujólum með kennara og svo hátíðarmat í matsalnum. Allir voru prúðbúnir og virtust njóta dagsins vel.