Næsta vika

Auk þess sem talið er upp hér fyrir neðan er sitthvað á dagskrá í hverjum námshópi fyrir sig sem foreldrar geta lesið um í föstudagspósti frá kennurum.

Mánudagur 16. des. - Jólaljósadagurinn. Í fyrsta tíma á mánudag förum við öll saman í hlíðina fyrir ofan skólann og kveikjum á u.þ.b. 80 friðarkertum. Vonandi náum við góðum myndum af viðburðinum. 

Þriðjudagur 17. des. - Jólahúfu og jólapeysudagur. 

Miðvikudagur 18. des. - Jólahúfu og jólapeysudagur sem og laufabrauðs- og smiðjudagur. Víða um skólann verða í boði alls kyns smiðjur/stöðvar þar sem nemendur geta slakað á yfir fjölbreyttum verkefnum. Þeir geta meðal annars forritað og prófað nýjasta tæknidótið okkar, föndrað, smíðað, farið í nudd og slökun, spilað, perlað og - skorið út laufabrauð. Eftir hádegi þennan dag förum við öll niður í íþróttamiðstöð og nemendur hafa val um að fara í sund eða leika sér í alls kyns verkefnum sem verða í boði í íþróttasalnum.

Fimmtudagur 19. des. - Skautaferð og jólabíó. Eftir morgunmat, sem verður snemma þennan dag, förum við í Skautahöllina og rennum okkur á skautum í góða stund. Gott nesti verður með í för auk þess sem einhver spil verða gripin með fyrir þá sem þurfa pásur frá svellinu. Eftir skauta örkum við saman inn í miðbæ þar sem við syngjum og dönsum í kringum jólatréð á ráðhústorginu. Eftir hádegi þennan dag er hefðbundið jólabíó og popp a´la Óli og Unnar.

Föstudagur 20. des. - Liltu jólin. Dagurinn hefst á tónleikum hjá gítarnemendum skólans auk þess sem Marimba krakkarnir láta ljós sitt skína. Eftir morgunmat og jólasögur höldum við í Möðruvallakirkju eins og venja er. Því næst eru stofujól, hátíðarmatur við dekkað borð og að lokum jólaball.