Nemendur 7.-8. bekk taka þátt í Alþingiskosningum á sinn hátt

Nemendur í 7. og 8. bekk hafa undanfarnar vikur verið að læra um Alþingi og lýðræði. Ákveðið var að taka þátt í svokölluðum krakkakosningum sem umboðsmaður barna og KrakkaRÚV standa fyrir. Nemendur hafa m.a. kynnt sér störf Alþingis og þau framboð sem eru til alþingiskosninganna nú á laugardaginn. Síðan var efnt til kjörfundar. Þar var kjörstjórn sem sá um að merkja við alla þá sem komu á kjörstað til að kjósa, afhenda þeim kjörseðla, útskýra reglur varðandi kosningarnar og beina þeim í kjörklefa. Kjörsókn var með besta móti eða tæp 95 %. Kjörstjórn sá síðan um að yfirfara atkvæðin og telja skiptingu þeirra. Allt gekk þetta ljómandi vel og nemendur skemmtu sér vel. Niðurstaða kosninganna verður send umboðsmanni barna sem tekur við öllum atkvæðum úr krakkakosningum sem fara fram í mörgum skólum á landinu. Í kosningasjónvarpi RÚV á laugardagskvöldið kemur verða niðurstöður úr krakkakosningum kynntar. Það verður spennandi að sjá hvernig atkvæði barna á Íslandi fara í þessum kosningum í samanburði við síðan niðurstöður sjálfra alþingiskosninganna.

Hér má sjá myndir frá þessari flottu vinnu