Föstudaginn 19. september tók Þelamerkurskóli þátt í árlegu Ólympíuhlaupi ÍSÍ. Með þátttöku er leitast við að hvetja nemendur grunnskólanna á landinu til þess að hreyfa sig reglulega og stuðla þannig að betri heilsu og líðan. Líkt og síðustu tvö ár þá var hlaupið í Hálsaskógi en þar höfum við komið okkur upp góðum hlaupaleiðum og getum boðið nemendum upp á tvær vegalengdir, annars vegar um 2,5 km hring og hins vegar um 5 km hring. Líkt og síðustu ár þá voru nemendur virkilega dugleg að taka þátt og flestir til í að leggja sitt að mörkum til að safna kílómetrum fyrir skólann. Í ár hlupu 85 nemendur og samtals urðu kílómetrarnir 460, sem er virkilega vel gert.
Það var frekar kalt á okkur en veðrið var virkilega fallegt og þegar maður heldur sér á hreyfingu þá er hrollurinn fljótur að fara. Hluti starfsmanna höfðu komið sér fyrir í skóginum, svokallaðir pepparar og vísuðu nemendum veginn og hvöttu nemendur áfram með tónlist og dansi. Aðrir starfsmenn skiptu með sér öðrum verkefnum, s.s. að skrá vegalengdir, nestisstjórar sáu um að vatn og ávextir voru í boði og aðrir gengu eða hlupu með nemendum. Það ríkti því mikil gleði í skóginum þennan fallega morgun.
Myndir frá deginum má sjá hér.