Sagt frá Þelamerkurskóla í tímariti hollenska skólastjórafélagsins

Mynd sem tekin var á útikennslusvæði De Wijnberg í haust.
Mynd sem tekin var á útikennslusvæði De Wijnberg í haust.

Á vordögum hafði blaðamaður hjá tímariti hollenska skólastjórafélagsins samband við Ingileif skólastjóra og vildi fá viðtal við hana um kveikju, tilurð og lærdóm námsferðar sem hún, Sigga iðjuþjálfi og Unnar aðstoðarskólastjóri höfðu farið í til Hollands sl. haust. Blaðamaðurinn hafði þá þegar rætt við skólastjórana í skólunum tveimur sem þau höfðu heimsótt í námsferðinni. 

Hugmyndin að námsferðinni varð til þegar Ingileif fór á ráðstefnu Evrópskra skólastjórnenda í október 2016 en þá heimsótti hún annan skólanna tveggja sem hún, Sigga og Unnar heimsóttu sl. haust. Henni fannst að hægt væri að læra að því hvernig námið í þeim skóla var skipulagt. Sérstaklega fyrir börn sem fá mikla námsaðlögun.

Í hollensku greininni kemur fram að skólastjórunum í skólunum sem heimsóttir voru í haust fannst þeir líka hafa lært af gestunum frá Þelamerkurskóla. Skólastjórarnir fengu fræðslu um útikennsluna í Þelamerkurskóla, var sagt frá því hvernig Sigga iðjuþjálfi skipuleggur starf sitt og einnig hvernig íslenska skólakerfið er byggt upp. Þeim fannst það lærdómsríkt af því að í Hollandi er meira um sérskóla en á Íslandi. Þeim fannst líka áhugavert að fá sjónarhorn gestanna á þeirra starf. 

Námsferðin til Hollands hefur svo í framhaldinu orðið að Sprotasjóðsverkefninu Gerum gott betra sem verður unnið á næsta skólaári í samstarfi við Dalvíkurskóla og Naustaskóla á Akureyri. Áformað er að því verkefni ljúki með málþingi þar sem aðalfyrirlesari málþingsins kemur frá öðrum skólanna sem var heimsóttur sl. haust. 

Hollenska greinin endar á því að hvetja félaga í hollenska skólastjórafélaginu til þess að fara á næstu ráðstefnu samtaka evrópskra skólastjórnenda því það sé aldrei að vita hvaða hugmyndir fæðist á slíkum samkomum og hvaða ávinning skólarnir og nemendur geti svo í framhaldinu haft af þeim. 

Hollensku greinina er hægt að skoða hérna

Heimasíðu námsferðarinnar sem líka er skýrsla hennar er hægt að skoða hérna

Í Skólaþráðum, tímarits Samtaka um skólaþróun birtist svo líka grein um námsferðina og úrvinnslu hennar.