Skólaslit Þelamerkurskóla 2021

Þelamerkurskóla var slitið þriðjudaginn 1. júní. Skólaslit 1. - 6. bekkjar fóru fram á sparkvelli skólans en skólaslit 7. - 10. bekkjar  í Hlíðarbæ seinna sama dag. Níu nemendur voru brautskráðir og verðandi nemendur 1. bekkjar voru boðnir velkomnir í skólann. Á fyrri skólaslitunum voru veitt þrenn verðlaun. Það voru verðlaun fyrir hönnun og smíðar, hannyrðir og svo sólskinsverðlaun skólans. 

Viðurkenningu fyrir hönnun og smíði á þessi skólaári hlaut nemandi sem er með mikla hæfni í hönnun og smíðum. Hún er alltaf áhugasöm, jákvæð, vandvirk, hugmyndarík og skapandi. Þessi nemandi er Lára Rún Keel Kristjánsdóttir nemandi í 6. bekk.

Viðurkenningu fyrir textílmennt í ár hlaut nemandi sem hefur tekið mjög miklum framförum á árinu, sýnt elju og dugnað í verki. Þessi verðlaun hlaut Ágúst Marinó Björnsson.

Að lokum voru sólskinsverðlaun skólans afhent. Sólskinsverðlaunin 2020-2021 hlaut nemandi sem er sérlega bóngóður, hjálpsamur, jákvæður og samvinnufús. Þessi nemandi heitir Jósef Orri Axelsson.

Á seinni skólaslitunum sem haldin voru í Hlíðarbæ voru veitt þrenn verðlaun. Fyrst voru það Jónasarverðlaunin sem Jónasarsetur, Menningarfélagið Hraun í Öxnadal veitir útskrifarnemendum viðurkenningu í minningu Jónasar Hallgrímssonar. Nemandinn sem hlaut Jónasarverðlaunin fyrir bestan námsárangur í 10. bekk leggur stund á nám sitt af metnaði og dugnaði. Nemandinn er sjálfstæður og skapandi í vinnu sinni og fer eigin leiðir við skil verkefna. Hún er sérlega drífandi og hvetjandi í hópavinnu, jákvæð og glaðlynd. Hún þarf að leggja hart að sér til að ná árangri og gerir það svo sannarlega. Þessi verðlaun hlaut Linda Björg Keel Kristjánsdóttir.

Ástundunarverðlaun skólans fær í ár nemandi sem sýnir frumkvæði og kemur sjálfur með hugmyndir að úrlausn verkefna. Hún skipuleggur eigið nám af metnaði og nýtir tíma sinn vel þrátt fyrir miklar íþróttaæfingar utan skólatíma. Ástundunarverðlaun Þelamerkurskóla fékk Juliane Liv Sörensen í 8. bekk.

Að lokum var íþróttamaður Þelamerkurskóla tilnefndur. Í ræðu skólastjóra kom, fram að skólinn okkar er ríkur af öflugu íþróttafólki en fyrir valinu í ár varð nemandi sem er einstaklega duglegur. Hún leggur sig ávallt fram í tímum, reynir að rífa upp stemninguna í hópnum og er alltaf tilbúin að hjálpa öðrum. Magnaður liðsfélagi, hvetur sitt lið áfram og sýnir ávallt mikið keppnisskap. Hún sýnir jákvæðni í hverjum tíma og gerir öll verkefni sem lögð eru fyrir af fullum krafti. Íþróttamaður Þelamerkurskóla 2020-2021 er Linda Björg Keel Kristjánsdóttir.

Þrír starfsmenn skólans voru kvaddir á skólaslitunum. Guðrún Arngrímsdóttir hefur verið hjá okkur í nokkra tíma á viku sl. ár og verið leiðandi í heilsueflandi skólastarfi ásamt Rögnu íþróttakennara. Hún snýr sér nú að heilsueflingu utan veggja skólans eins og henni einni er lagið og við þökkum henni fyrir gott samstarf. Susanne skólahjúkrunarfræðingurinn okkar til fimm ára hverfur einnig á önnur mið innan heilbrigðiskerfisins og við þökkum henni kærlega fyrir gott samstarf síðustu ár. Einnig lét af störfum vegna aldurs Unnar Eiríksson aðstoðarskólastjóri eftir 25 ára starf við skólann. Viljum við nota þetta tækifæri og þakka honum kærlega fyrir vel unnin störf við skólann á liðnum árum. 

Tveir nýir kennarar hefja störf við skólann í ágúst.  Í stöðu aðstoðarskólastjóra hefur verið ráðin Hrafnhildur Guðjónsdóttir og í stöðu kennara í hönnun og smíði og nýsköpun var ráðinn Sindri Lárusson. Við bjóðum þau bæði velkominn í hópinn okkar góða.

Viljum við nota þetta tækifæri og þakka nemendum okkar fyrir veturinn og vonum að þið eigið gott sumar í vændum. Hér má sjá myndir sem teknar voru á vorhátíð skólans og skólaslitunum.

Þelamerkurskóli verður settur mánudaginn 23. ágúst kl. 14.00.