Skólaslit Þelamerkurskóla 2022

Þelamerkurskóla var slitið í 58. skipti föstudaginn 3. júní. Skólaslit 1.-6. bekkjar fóru fram í lok vorhátíðar um hádegisbil og skólaslit 7.-10. bekkinga voru í Hlíðarbæ síðla dags. Verðandi nemendur í 1. bekk eru 10 talsins og voru þau boðin velkomin af 10. bekkingum sem færðu þeim birkiplöntu og Þelóbuff sem gjöf við upphaf grunnskólagöngunnar.

Farið var yfir færni og framfarir nemenda á skólaárinu, þar sem margvíslegir sigrar voru unnir. Nemendur sýndu heilt yfir góðar framfarir í námi, þroska, samskiptum, félagsfærni og eljusemi. Útinám blómstraði sem fyrr og þemavinna réð ríkjum í flestum námshópum. Sköpunarkraftur nemenda við skólann er einstakur og þau verða sífellt öflugri í að sjá og nýta sína fjölbreyttu og ríkulegu hæfileika.

Mjög margir nemendur við skólann búa yfir miklum tónlistarhæfileikum og að venju fengum við sýnishorn af þeim hæfileikum á skólaslitunum. Þau Jónatan Smári í 10. bekk, Elín Bára, Elísa og Liv Sólrún í 10. bekk og þær Lára Rún, Anna Lovísa og Helena Arna í 7. og 8. bekk fluttu okkur stórkostleg atriði á sinn einstaka hátt, með söng, píanóspili, bassaleik og samspili á trompet, gítar og píanó. 

Á skólaslitum voru að venju veittar nokkrar viðurkenningar. 

  • Viðurkenningu fyrir list- og verkgreinar á þessum skólaári hlýtur nemandi sem sýnt hefur mikinn metnað í vinnu sinni. Viðkomandi nemandi býr yfir framúrskarandi hæfni í öllu sem snýr að list- og verkgreinum, og sýnir verkfærni framar sínum aldri. Hún er vinnusöm, skapandi, jákvæð og einstaklega hjálpsöm. Hún hefur verið óhrædd við að prófa sig áfram í nýjum aðferðum og læra af mistökum. Þessi nemandi er Efemía Birna Björnsdóttir í 6. bekk.
  • Jónasarverðlaun: Jónasarverðlaunin í ár hlýtur Jónatan Smári Guðmundsson. Jónatan stendur ávallt skil á sínu, er metnaðarfullur og fljótur að tileinka sér nýja færni í námi. Jónatan er skapandi í allri vinnu, drífandi í hópvinnu og sýnir frumkvæði. Hann er þar að auki bóngóður og hjálpsamur við hvers kyns verkefni. Jónatan sýnir framúrskarandi hæfni í íslensku og náttúrugreinum og auk þess afburðarhæfni í stærðfræði og stundaði í vetur fjarnám í stærðfræði við Menntaskólann á Tröllaskaga með frábærum árangri. Jafnframt hefur hann verið potturinn og pannan í myndbandaverkefnum og sýnir mikla hæfileika á því sviði sem og í píanóleik, sem hann hefur æft samviskusamlega í mörg ár.
  • Í ár verður veitt sérstök viðurkenning fyrir framúrskarandi árangur í ensku, en þær Jóhanna Margrét og Elín Bára hafa síðustu tvö ár lagt stund á fjarnám í ensku við Menntaskólann á Tröllaskaga og luku hvor um sig þremur áföngum með góðum árangri. Jóhanna Margrét og Elín Bára sinntu fjarnáminu af eljusemi og áhuga. Þær sýndu frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum og eru vel að viðurkenningunni komnar.
  • Íþróttamaður Þelamerkurskóla.  Skólinn er ríkur af öflugu íþróttafólki en fyrir valinu í ár varð nemandi sem er mikil íþróttakona. Hún leggur sig alltaf fram í þeim verkefnum sem eru á dagskrá og gerir alltaf sitt besta. Er jákvæð, áhugasöm og metnaðarfull fyrir því sem hún er að gera. Utan skóla er hún dugleg að æfa sína íþrótt og sýnir alltaf áhuga á að bæta sig. Hún toppaði þetta skólaár síðan með því að ná þriðja besta tíma frá upphafi Skólahreystis á Íslandi, þegar hún hékk á slánni í hreystigreipinu í 13.15 mínútur. Hún rústaði þar með hreystigreipinu, ásamt því að ná 2. sæti í armbeygjum í okkar riðli. Hún er því vel að þessari viðurkenningu komin. Íþróttamaður Þelamerkurskóla þetta árið er Ester Katrín Brynjarsdóttir.
  • Sólskinsverðlaun  Sólskinsverðlaun Þelamerkurskóla eru veitt á hverju ári til nemanda sem gefur frá sér jákvæða strauma og hefur góð áhrif á aðra, bæði unga sem aldna. Nemandinn sem fær sólskinsverðlaunin í ár er hjálpsamur, bóngóður, jákvæður og brosmildur. Hann er góður félagi í hóp og hefur vaxið mikið sem einstaklingur og nýtir sér það til að virkja hæfileika sína. Hann hefur afar góða nærveru og það verður gaman að fylgjast með honum út í lífið. Sólskinsverðlaunin í ár fær Kristján Skjóldal Haraldsson.
  • Úr eldhúsi skólans koma svo að lokum sérstök verðlaun í ár. Á nýliðnu skólaári hefur starfsfólk eldhúss notið starfskrafta ungrar stúlku í 8. bekk og vilja þau veita henni sérstaka viðurkenningu fyrir einstakan dugnað og samviskusemi. Viðurkenninguna fær Guðbjörg Elín Gunnarsdóttir, en hún hefur sinnt verkefnum sínum í eldhúsinu sérlega vel, með bros á vör og gengur beint í verkin. Hún sýnir frumkvæði, er þægileg í umgengni og alltaf glöð og kurteis.

Starfsfólk sem lét af störfum í ár eru þau Sindri Snær stuðningsfulltrúi, Gíom tonmenntakennari og Óli kokkur. Þeim eru þökkuð vel unnin störf í þágu skólans. 

Hér má sjá myndir frá skólaslitunum.

Þelamerkurskóli verður settur á ný mánudaginn 22. ágúst kl 14 í Mörkinni.