Þorrablót 1. - 6. bekkjar

Þorri er nafnið á fjórða mánuði vetrar að gömlu íslensku misseratali. Hann hefst á föstudegi á bilinu 19.–26. janúar og lýkur á laugardegi áður en góa tekur við. Sá laugardagur er nefndur þorraþræll. Nú á dögum könnumst við við þetta heiti úr hugtökum eins og þorramatur og þorrablót. Þorri var líka talinn erfiðasti vetrarmánuðurinn og því er stundum talað um að þreyja þorrann en það þýðir eiginlega að harka hann af sér .

Hið árlega þorrablót 1. - 6. bekkjar var haldið í matsal skólans í dag. Eins og hefð er fyrir var skipulag dagsins í höndum 6. bekkjar. Krakkarnir höfðu ekki einungis undirbúið skemmtiatriði og söngva, heldur höfðu þeir líka búið sjálfir til sviðasultuna og slátrið. Allir nutu þess að borða þorramat og syngja þorrasöngva undir dyggri stjórn Gilla. Skemmtunin tókst mjög vel og við þökkum 6. bekkingum fyrir skipulagið.

Hér má sjá myndir og myndbönd frá skemmtuninni.