Útivistardagur í bongóblíðu

Veðurblíðan í lok ágúst var nýtt til að fara í fjölbreytta útivist með öllum nemendum skólans. Nemendur í 1.-4. bekk ásamt eldri nemendum sem þess óskuðu, fóru á Hjalteyri hvar byrjað var á hressilegum göngutúr í kringum tjörnina. Því næst var nestisstund og leikir. Fjaran tók síðan vel á móti krökkunum sem nutu þess að busla og vaða, moka og skapa skúlptúra. Að lokum fengu svo allir grillaðar pylsur og safa. Myndirnar tala sínu máli! Hópur nemenda úr 5.-10. bekk valdi að fara í hjólaferð og hjólaði hópurinn alla leið frá Melum og að Hlíðarbæ. Á Möðruvöllum var tekið matarhlé og kveikt upp í grillinu. Hópurinn stóð sig afar vel í krefjandi ferð, enda um 26 km leið að ræða. Geri aðrir betur! Nokkrir fjallagarpar gengu á Dunhagahnúk með íþróttakennurum skólans og fengu að sjálfsögðu frábært útsýni í blíðunni. Hörku duglegir krakkar. Að venju fengu svo vanir, sjálfstæðir knapar með eigin hest að fara í útreiðartúr með knöpum úr hópi starfsfólks. Þau skemmtu sér konunglega í góðri ferð hvar þau riðu frá Þrastarhóli og alla leið niður að sjó, sunnan við Ós, og svo heim aftur. Þar var að sjálfsögðu líka grillpartý. Þegar komið var heim í skóla var svo öllum boðið í sund. Frábær dagur í alla staði með mögnuðum krökkum.

Myndir úr öllum ferðum