Vasaljósaútistöðvabíópoppdagurinn!

Fimmtudaginn 17. desember áttum við skemmtilegan dag með löngu nafni! Nemendur fóru á milli stöðva ýmist á útisvæðum eða í íþróttahúsi og þeir sem vildu fóru í sund og yljuðu sér innan um fallegu jólaljósin sem prýða sundlaugina okkar. Úti í Mörk voru það vasaljós, höfuðljós og glitstangir sem lýstu upp myrkrið og í eldstæðinu okkar logaði eldurinn sem hitaði upp vatnið í heita kakóið. Nemendur grilluðu sykurpúða og gæddu sér á piparkökum með kakóinu. Hangikjötið hennar Huldu hékk á sínum stað og stemmingin var einstök. Á skólalóðinni stjórnaði Ragna íþróttakennari jólaratleik þar sem nemendur leituðu vísbendinga og bjuggu til orð og í íþróttahúsinu spiluðu nemendur bandý og kubb undir dyggri stjórn Siggu og Guðrúnar. Eftir hádegismat var boðið upp á úrval af jólabíómyndum og að sjálfsögðu fengu allir popp frá yfirpoppurum skólans, Unnari og Óla. Notalegur og skemmtilegur dagur.

Myndir frá deginum með langa nafnið!