Viðburðarík vika að baki í skólanum

Það er ávallt líf og fjör í skólanum okkar og sumar vikur er meira á dagskrá en aðrar. Síðasta vika var ein þeirra. Við fengum heimsókn frá Skáldum í skólum, þeim Sævari Þór Bragasyni og Evu Rún Þorgeirsdóttur en þau ræddu við miðstigið um hvernig bækur geta og hafa breytt heiminum, hvernig maður fær hugmyndir til að skrifa um og um hvað lestur getur gert mikið fyrir okkur öll. Sævar þekkja margir sem Stjörnu-Sævar og Eva Rún er umsjónarkona Stundarinnar okkar hjá Krakka Rúv. Vinaliðarnir okkar fóru á námskeið með vinaliðum annars skóla á svæðinu og lærðu þar nýja og skemmtilega leiki til að nýta í frímínútum. Á fimmtudaginn fór allur skólinn saman í að pakka jólum í skókassa fyrir börn í Úkraínu að frumkvæði tveggja nemenda á miðstigi. Frábært framtak sem skrifuð verður sér frétt um á vegum nemenda og þá koma jafnframt fleiri myndir frá þeim viðburði. Þann sama dag var hinn reglulegi Allir lesa viðburður sem alltaf er jafn skemmtilegur. Gestir frá Höfðaskóla á Skagaströnd, sem komu til að kynna sér gott starf í skólanum, höfðu ekkert val um að grípa bók og taka þátt í Allir lesa! Hér er að finna myndir frá þeim viðburði. 

Eftir hádegið á fimmtudag unnu unglingarnir okkar að smáréttagerð- og hlaðborð í Ég tíma hjá Siggu og Guðrúnu. Þar nýttu nemendur afurðir úr náttúrunni í kring í hina ýmsu rétti, eins og silung úr Hörgá í sushi, bláber í skyrtertu og sveppi í sveppasúpu. Einnig voru ýmsar jurtir úr nágrenninu (krækiberjalyng, blóðberg, rjúpnalauf, ljónslappi og gulmura) notaðar í nokkrar tegundir af jurtate. Nemendur skiptust í hópa við matreiðsluna, auk þess sem einn hópurinn útbjó veislusal í skólastofunni. Við nutum þess svo að borða herlegheitin við kertaljós og huggulegheit :-) Hér sjáið þið myndir frá hlaðborðinu þeirra. Á föstudaginn fórum við svo öll saman í skemmtilega vettvangsferð i Nonnahús, Minjasafnið, Minjasafnskirkjuna og í gamla bæinn í Laufási. Frábær ferð þar sem krakkarnir sáu ýmislegt sem þeir kannast við eftir áhorfið á Nonna og Manna þættina sem og aðra fyrri reynslu og þekkingu. Myndir frá þeirri ferð er að finna hér.