Sveigjanleiki er dýrmæt dyggð í skólastarfi og þegar veðurguðirnir eru ekki með okkur í liði á vordögum sem byggja mikið á útileik, er gott að vera með starfsfólk sem breytir skipulagi daganna eins og hendi sé veifað. Þannig færðust bæði Þelamerkurleikar og vorhátíð inn í skóla og urðu fyrir vikið ögn öðruvísi en upphaflega var gert ráð fyrir. Það kom þó ekki að sök og við áttum góða daga.
Á vorhátíðinni var að venju farið í hinn sívinsæla blindrabolta þar sem nemendur unnu starfsfólkið með einu stigi. Starfsfólkið lét hinsvegar til sín taka í reiptogi þar sem þau rústuðu nemendaliðinu. Í þrautaboðhlaupinu fóru lið nemenda, foreldra og starfsfólks á kostum við mikinn fögnuð viðstaddra. Vorhátíðin endað að venju með pylsugrilli þar sem stjórn foreldrafélagsins stóð vaktina.
Skólaslit 1.-6. bekkjar fór fram á Torginu okkar þar sem orðatiltækið Þröngt mega sáttir sitja, átti vel við. 10. bekkingar buðu verðandi fyrstu bekkinga velkomna í skólann og færðu þeim birkiplöntu og buff merkt Þelamerkurskóla. Nemendur voru svo kvaddir inn í sumarfríið og að sjálfsögðu minnt á að vera dugleg að lesa eitthvað skemmtilegt í sumar, auk þess að leika sér úti.
Skólaslit 7.-10. bekkinga fóru svo fram við hátíðlega athöfn í Hlíðarbæ síðar um daginn þar sem 10. bekkur var útskrifaður með viðhöfn og aðrir nemendur kvaddir inn í sumarið. Þau Úlfur Sær, Arnsteinn Ýmir, Anna Lovísa og Lára Rún fluttu stórkostleg tónlistaratriði og Sandra Björk flutti kveðju frá útskriftarnemum.
Hér má sjá myndir frá þessum viðburðum:
|
Laugalandi | 604 Akureyri Sími á skrifstofu: 460-1770 Netfang: thelamork@thelamork.is Kt: 510101-3830 Skrifstofa skólans er opin: Mán-fim: kl. 07:45 - 16:00 Fös: kl. 07:45-15:00 |
Skólastjóri: 460-1770 Frístund: 460-1771 |