Tengsl og samvinna

Engin stofnun getur haldið starfsemi sinni án samvinnu og tengsla við stofnanir, fyrirtæki eða frjáls félagasamtök í nágrenninu. Sem fámennur skóli og eini grunnskóli þeirra sveitarfélaga sem reka Þelamerkurskóla má líta svo á að hann þjóni fleiri hlutverkum en fjölmennum grunnskólum í þéttbýlinu er ætlað. Má þar nefna kirkjustarf innan veggja skólans og rekstur og aðkoma að félagsstarfi nemenda ásamt því að vera menningar- og samkomustaður þeirra samfélaga sem hann þjónar. Öllu þessu getur Þelamerkurskóli ekki sinnt án náins samstarfs við þá sem geta liðsinnt honum við þessi störf.