Dagarnir fyrir jólaleyfi

Úr skautaferð jólasveinanna.
Úr skautaferð jólasveinanna.

Í gær, þriðjudaginn 13. desember, fóru nemendur og starfsmenn upp að Álfaborginni og tendruðu þar jólaljós skólans. Síðan var jólasöngur á sal undir stjórn Eiríks Stephensen. Söngvana sem við höfum sungið með honum er hægt að skoða á þessum glærum. Síðan tók við kennsla samkvæmt stundaskrá. Hér eru myndir frá þessum degi.

Í dag, miðvikudaginn 14. desember, fóru nemendur og starfsmenn í Skautahöllina á Akureyri á jólaskautadiskó og eftir hádegið var hægt að velja á milli fimm bíómynda að horfa á. Boðið var uppá popp og sódavatn á meðan á bíósýningunni stóð. Sjá frétt með nánari dagskrá.  Hér eru myndir frá skautadeginum.

Á morgun, fimmtudaginn 15. desember, er laufabrauðsdagurinn. Laufabrauðsdagurinn er einn af skólavinadögum skólans. Þá fara skólavinir á milli stöðva í skólanum og skera laufabrauð, spila, fara í Zumba og jóga. Eftir hádegið fara allir í sund í Jónasarlaug. Hérna er skipulag dagsins og hérna eru hópaskiptingar dagsins. Hér eru nokkrar myndir frá þessum degi.

Föstudaginn 16. desember er "opinn dagur" í skólanum. Þá verða allar stofur skólans opnar, engin stundaskrá og nemendur geta valið hvað þeir vilja gera. Margt verður í boði eins og til dæmis hárgreiðsla, tæknistöð, piparkökumálun, vísindastofa að ógleymdu jólaföndri, jólaperli, spilum og yndislestri. Hérna er hægt að skoða dagskrá dagsins. 

Mánudaginn 19. desember er hefðbundinn smiðjudagur skólans. Þá verður hver kennslustund ein klukkustund og í hverri þierra boðið uppá margs konar smiðjur, leiklist, flot og sund, smíðar, slökun og nudd ásamt leikjum og kannski snjókarlagerð. Hérna er yfirlit yfir smiðjurnar sem verða í boði.

Þriðjudaginn 20. desember eru svo litlu jólin. Þau eru með hefðbundnu sniði. Við byrjum á morgunmat síðan er kirkjuferð, svo stofujól fram að hátíðarmatnum og litlu jólunum lýkur með jólaballi. Heimferð nemenda þennan dag er kl. 13:00. Hérna er dagskrá litlu jólanna með tímasetningum. Allir eru velkomnir í kirkjuferðina með okkur og einnig á jólaballið.