Fréttir

01.10.2020

Kajakferð í útivistarvali

Í gær fóru nemendur í útivistarvali á kajak á tjörninni á Hjalteyri og skemmtu sér konunglega. Siglt var bæði á eins manns kajak og tveggja manna og voru þeir í boði Jóns Þórs og Ingós/Siggu. Auk þess að njóta þess að róa um tjörnina fóru sumir í kappróður, týndu rusl meðfram bökkunum, stunduðu núvitund út á miðri tjörn og heilsuðu upp á svanapar á vatninu. Góð stund í alla staði :)
24.09.2020

Val eldri nemenda - Hjólabrettarampur

Í vali í haust hafa nokkrir drengir tekið að sér að smíða hjólabrettaramp fyrir skólann sem settur verður upp í námunni norðan við Laugaland. Eiríkur Helgason snjóbrettasnillingur frá Sílastöðum var okkur innan handar við hönnunina og hefur gefið okkur góð ráð. Rampurinn verður 3.80 metrar á breidd og um 5 - 6 metrar á lengd. Hann er settur saman úr fimm einingum. Verkið gengur vel og meðan veðrið helst gott heldur smíðin áfram. Vegna stærðar rampsins er ekki hægt að smíða hann inni. Hér eru nokkrar myndir sem teknar voru í valtíma í dag.
22.09.2020

Matjurtirnar, uppskeran og dugnaðarforkar

Fíni matjurtargarðurinn okkar sem útbúinn var sl. vor er sannarlega að skila af sér. Í dag fóru nemendur 3. og 4. bekkjar út að taka upp kartöflur og eftir að hafa unnið eins og berserkir þar til búið að var að fínkemba kartöflugarðinn, fengu allir að taka upp eina gulrót á mann auk þess sem við sóttum okkur rófur og hnúðkál til að gæða okkur á í ávaxtastundinni. 1. og 2. bekkur höfðu fyrr í mánuðinum farið út og tekið upp nokkur kíló af kartöflum fyrir Óla kokk auk þess sem fleiri nemendur hafa sótt í soðið með sínum kennurum.