Fréttir

03.04.2020

Heimsmet í lestri og hreyfiátak Þelamerkurskóla í apríl

Nemendur og starfsfólk Þelamerkurskóla eru komin með stór og góð markmið fyrir aprílmánuð. Það er annars vegar að komast hringinn í kringum Ísland með hreyfingu og að setja heimsmet í lestri ásamt öðrum Íslendingum og stefna með því á að fá metið skráð í heimsmetabókina góðu!
18.03.2020

Fjölbreytt skólastarf í breyttu skipulagi

Hér í Þelamerkurskóla er hrein unun að fylgjast með nemendum og starfsfólki takast á við breyttar aðstæður af miklu æðruleysi, jákvæðni og ró. Starfsfólk fer á kostum við að láta allt ganga upp með umhyggju fyrir nemendum að leiðarljósi og á stórt hrós skilið fyrir sitt framlag nú sem endranær. Einnig er augljóst að foreldrar hafa undirbúið börnin sín vel undir breyttar aðstæður, út frá þeim upplýsingum sem komu frá skólanum. Stórt hrós til ykkar kæru foreldrar. Skapandi hugsun nær nú flugi sem aldrei fyrr og nemendur segjast vera ánægðir með skipulagið. Það er auðvitað erfitt fyrir suma sem eiga vini í öðrum hópum að fá ekki að hitta þá innan veggja skólans, en þeim býðst þá ritunarverkefni sem felast í að senda tölvupóst til vinanna í næstu stofu, eða skrifa bréf/teikna mynd sem sett er í plastvasa sem þurrkað er af með sótthreinsitusku. Lausnirnar eru alls staðar!
18.03.2020

Skíðaskóli 1. - 4. bekkjar

Í marsmánuði var áætlað að fara með 1. - 4. bekk skólans í fjögur skipti í skíðaskólann í Hlíðarfjalli. Að þessu sinni náðist að fara bara einu sinni með hópinn upp í fjall. Fyrri vikuna var það vegna veðurs en seinni vikuna vegna samkomubanns vegna Covid 19 veirunnar. Einnig þurftum við að fresta útivistardeginum sem vera átti miðvikudaginn 18. mars. Markmið skíðaskólans er að gera yngri nemendur skólans sjálfbjarga á skíðum þannig að þau geti á útivistardegi skólans rennt sér óhikað og örugg niður skíðabrekkurnar í Hlíðarfjalli og verið nokkuð sjálfbjarga í lyftunum. Skíðaskólinn er frábært framtak enda fékk skólinn Foreldraverðlaun Heimilis og skóla 2017 fyrir það verkefni. Birgitta á Möðruvöllum mætti með myndavélina sína þennan eina dag sem farið var í fjallið og var hún svo almennileg að gefa okkur allar myndirnar sem hún tók. Við þökkum henni kærlega fyrir það. Hér má sjá nokkrar af þeim myndum sem Birgitta tók.