Fréttir

23.11.2020

Bráðum koma blessuð jólin

Eins og hefð er fyrir í lok nóvember voru jólatré skólans sótt upp í skógræktina fyrir ofan skólann. Þetta er hlutverk 1. og 2. bekkinga sem sækja litla tréð sem dansað er í kringum á litlu jólunum og síðan 8. bekkinga sem sækja stóra jólatréð sem sett er upp á skólalóðinni. Oft hefur þetta verið töluverð erfiðisvinna vegna snjóalaga en ekki að þessu sinni því jörð var nánast auð. Hér eru myndir sem teknar voru þegar 1. og 2. bekkur náði í sitt tré og hér myndir þegar 8. bekkingar sóttu stóra tréð.
20.11.2020

Jól í skókassa

Líkt og í fyrra tók Þelamerkurskóli þátt í verkefninu Jól í skókassa. Jól í skókassa er verkefni á vegum KFUM&KFUK sem gengur út á að fá fólk til að útbúa jólagjöf handa barni í Úkraínu, en þar glíma margir við sára fátækt, alltof mörg börn búa á munaðarleysingjaheimilum og búa þar við döpur kjör. Að þessu sinni skiluðu nemendur skólans 34 kössum í verkefnið. Foreldrar voru mjög hjálpsamir við að afla aðfanga til verkefnisins og nemendurnir pökkuðu inn kössunum og röðuðu í þá. Með þátttöku í verkefninu viljum við undirstrika hversu mikilvægt og gaman það er að hjálpa öðrum og hve samkennd skiptir miklu máli. Það er mikilvægt að geta sett sig í spor annarra og glatt aðra. Hér eru myndir frá vinnu nemenda.
20.11.2020

Sláturdagur í skólanum

Það er vart til þjóðlegri matur en lifrapylsa og blóðmör og mörg heimili taka slátur á haustin. Eins og allir vita þá er slátur bæði hollur og góður matur og því nauðsynlegt fyrir alla að læra hvernig maður býr til þennan þjóðlega mat. Þrátt fyr­ir að yf­ir­leitt sé það eldri kyn­slóðin sem kann yfirleitt til verka í slát­ur­gerðinni teljum við að nauðsynlegt að yngri kynslóðin læri hand­tök­in við sláturgerðina. Það er löng hefð fyrir því í Þelamerkurskóla að nemendur miðstigs búi til lifrapylsu og blóðmör með umsjónarkennurum sínum. Sláturdagurinn fór fram þann þriðjudaginn þann 27. október. Eins og alltaf stóðu krakkarnir sig með miklum sóma og verkið vannst bæði hratt og vel. Slátrið verður síðan á borðum í mötuneytinu í vetur. Hér eru nokkrar myndir sem teknar voru á sláturdaginn.