Fréttir

24.02.2020

Undankeppni Stóru upplestrarhátíðinnar í Þelamerkurskóla

Í morgun var undankeppni Stóru upplestrarhátíðinnar haldin í skólanum en það er 7. bekkur sem tekur þátt í þeirri keppni. Markmið hátíðarinnar er að vekja athygli og áhuga í skólum á upplestri og vönduðum framburði. Hátíðin hefst ár hvert á degi íslenskrar tungu 16. nóvember og lýkur með lokahátíð sem að þessu sinni verður í Menntaskólanum á Akureyri fimmtudaginn 5. mars Fjórir nemendur í 7. bekk tóku þátt í upplestrarhátíðinni og stóðu þau sig öll vel. Valdir voru tveir fulltrúar skólans til að taka þátt í lokakeppninni. Þeir eru Stefán Karl Ingvarsson og Juliane Liv Sörensen. Við óskum þeim til hamingju með árangurinn og góðs gengis. Dómarar keppninnar í skólanum voru: Sesselja Ingólfsdóttir, Helga Hauksdóttir og Margrét Sverrisdóttir. Við þökkum þeim kærlega fyrir hjálpina.
24.02.2020

Pizzusala í skólanum á Öskudaginn

Á öskudaginn (nk. miðvikudagur) kl. 12.00 munu nemendur í 8. og 9. bekk vera með pizzusölu í matsal skólans fyrir unga fólkið sem búið er að syngja og safna sælgæti. Fullorðnir mega að sjálfsögðu líka kaupa sér pizzu. Verð kr. 1.500 á mann. Allur ágóði sölunnar rennur í ferðasjóð nemenda. Vinsamlegast skráið ykkur á netfanginu bibbi@thelamork.is
21.02.2020

Þorrablót 1. - 6. bekkjar

Þorri er nafnið á fjórða mánuði vetrar að gömlu íslensku misseratali. Hann hefst á föstudegi á bilinu 19.–26. janúar og lýkur á laugardegi áður en góa tekur við. Sá laugardagur er nefndur þorraþræll. Nú á dögum könnumst við við þetta heiti úr hugtökum eins og þorramatur og þorrablót. Þorri var líka talinn erfiðasti vetrarmánuðurinn og því er stundum talað um að þreyja þorrann en það þýðir eiginlega að harka hann af sér . Hið árlega þorrablót 1. - 6. bekkjar var haldið í matsal skólans í dag. Nemendur borðuðu þorramat og sungu þorrasöngva. Eins og hefð er fyrir var skipulag dagsins í höndum 6. bekkjar. Skemmtunin tókst mjög vel og allir nutu þess að borða þorramatinn. Hér má sjá nokkrar myndir frá skemmtuninni.