Fréttir

Myndir frá vorferð að Hólavatni

Það er óhætt að segja að vorferðin okkar að Hólavatni hafi heppnast eins vel og mögulegt var. Allir nutu þess að busla, sigla, synda og leika sér í 21 stigs hita í náttúrufegurðinni að Hólavatni. Eftir grillaða hamborgara a´la Óli héldum við svo í sundlaug Akureyrar þar sem nemendur skemmtu sér ekki síður vel í sólinni. Er heim í skóla var komið fengu svo allir frostpinna áður en skólabílarnir fóru af stað. Stórkostlegur dagur frá upphafi til enda og nemendur voru eflaust margir þreyttir en sælir það sem eftir lifði dags!
Lesa meira

Vorferð með 1. - 8. bekk að Hólavatni 27. maí 2021

Smellið á fréttina til að sjá dagskrá vorferðarinnar að Hólavatni.
Lesa meira

Vorferð - vordagar - skólaslit

Á morgun, miðvikudag, klára nemendur frágang í skólastofunum og ljúka hinum ýmsu skylduverkum í skólanum. Á fimmtudaginn kemur förum við öll saman í vorferð, að undanskildum nemendum 9. og 10. bekkjar sem eru í sínu skólaferðalagi. Leiðin í ár liggur að Hólavatni þar sem við leikum okkur í skemmtilegu umhverfi og fáum grillaða hamborgara sem Óli og Helga töfra fram af sinni einskæru snilld. Á Hólavatni eru bátar sem hægt er að prófa. Allir sem vilja fara á bátana fá björgunarvesti og fullorðna fólkið er nemendum til halds og trausts. Mjög mikilvægt er að allir komi með auka handklæði og auka föt því líklegt er að einhver blotni. Nemendur fara í morgunmat í skólanum kl 8.30 og brottför frá skóla er strax að morgunmat loknum, eða um kl 8.50. Eftir hamborgaraátið, eða rétt fyrir kl 12 verður ekið að sundlaug Akureyrar þar sem allir fara í sund og sleikja sólina úr heitu pottunum eða skemmta sér í rennibrautunum. MUNA EFTIR SUNDFÖTUM! Heimferð í skólann er ca 14.15. Þá fá allir óvæntan glaðning á skólalóðinni áður en haldið er heim á leið.
Lesa meira

Sjóferð með Húna - Frétt frá 5. - 6. bekk

Við fórum um borð í Húna og Steini Pé bauð okkur velkomin. Hann fór yfir öryggisreglurnar um borð, sýndi okkur björgunarvestin og benti okkur á björgunarbátinn. Hreiðar, sem er í Háskólanum, sagði okkur ýmislegt um sjávarlífið. Hann sagði okkur líka af heimsmeisturunum fjórum, kúskel, kríu, hákarli og steypireyð. Á meðan sigldi Húni með okkur lengra en út fyrir Gilsbakka og við stoppuðum á móti Hvammi. Þar fórum við að reyna að veiða og Áróra veiddi einn þorsk en við hin ekki neitt. Magnús, hann er líka úr Háskólanum, sýndi okkur innyfli í fiskum, bæði í þorski og ýsu. Okkur þótti það flestum gaman og þegar við vorum búin að skoða þau, þá hentum við innyflunum út i sjóinn handa fuglunum. Svo héldum við áfram að veiða og þá veiddi Jósef einn þorsk en við hin ekkert. Við sáum hvali blása þeir og komu uppúr sjónum. Addi krækti í risafisk og við vorum öll að hjálpast að að reyna að ná fiskinum inn, alveg þangað til sjómennirnir föttuðu að við vorum föst í botninum. Þá slitu þeir línuna. Svo grilluðu þeir fiskinn handa okkur og við höfum ekki smakkað nýrri og betri fisk. Við skoðuðum stýrishúsið og svo fórum við aftur heim í skóla, borðuðum grjónagraut og fórum í helgarfrí. Þetta var frábær og skemmtileg ferð.
Lesa meira

Vistheimt - uppgræðsla í námunni norðan við skólann

Í dag var komið að mikilvægum áfanga í vistheimarverkefninu okkar en það hefur verið í undirbúningi í um það bil þrjú ár. Rannveig Magnúsdóttir verkefnisstjóri vistheimtar hjá Landvernd kom til okkar og byrjaði á að fræða nemendur um lífbreytileika, hringrás næringarefna í vistkerfum og fleira. Síðan fóru nemendur í 5. - 8. bekk út í námu og settu niður tilraunareiti. Markmið verkefnisins er að kanna hvernig gengur að endurheimta gróður á gróðursnauðu landi með því að setja mismunandi tegundir af lífrænum áburði í fyrirfram afmarkaða reiti, auk þess eru viðmiðunarreitir án áburðar í tilrauninni. Áburðartegundirnar eru: molta, kúamykja, sauðtað, hrossatað, hænsnaskítur og svínaskítur.
Lesa meira

Mílan - frá sjónarhorni 8. bekkinga

Það sem við erum að gera í mílunni er að ganga, hlaupa eða skokka eina mílu. Ein míla er 1,6 km. Síðastliðið vor var búinn til hringur sem er 400 metrar, þannig að til þess að fara eina mílu þarf maður að fara 4 hringi. En núna í vetur hefur verið mikill klaki á mílunni, þá gerði miðstig aðra leið ofan á snjónum, þá göngum við frá skólanum út að húsi Norðurorku sem stendur norðan við Laugaland og til baka. Þrír hringir eru ein míla. Síðastliðið haust voru kennarar og nemendur mjög duglegir að ganga míluna en þegar það dró nær vetri hættum við að nenna jafnoft að fara út að ganga míluna vegna veðurs, myrkurs og færið var stundum erfitt. Markmið með mílunni er að vakna betur á morgnana og líka bara bæta vellíðan. Mér finnst það vera hressandi að ganga míluna á morgnana, en það getur líka verið svolítið kalt.
Lesa meira

Tónlistarval í heimsókn á Minjasafnið á Akureyri

Síðasta miðvikudag fórum við í tónlistarvali á Minjasafnið á Akureyri og sáum sýninguna Tónlistarbærinn Akureyri. Þar tók hann Haraldur Þór Egilsson á móti okkur og sýndi okkur safnið. Hann sýndi okkur t.d. fyrstu hljóðfærin sem voru keypt til Akureyrar, blásturshljóðfæri og orgel. Hann talaði líka um vinsælt tónlistarfólk eins og t.d. Jóhönnu óperusöngkonu, Helena Eyjólfs, 200.000 naglbíta og ungu strákana í hljómsveitinni Bravó sem hituðu upp fyrir Kinks á tónleikum í Reykjavík 1965. Okkur fannst þetta bara mjög áhugavert og skemmtilegt. Við fengum að læra um allskonar hljóðfæri og tæki til að spila tónlist sem við höfum enga hugmynd um að voru til. Linkur á myndir https://photos.app.goo.gl/Cz9M7VEpahp75PuC6
Lesa meira

Skólahreysti í kvöld!

Lið Þelamerkurskóla í Skólahreysti þetta árið er skipað þeim Hákoni Val Sigurðssyni, Lilju Lind Torfadóttur, Lindu Björg Kristjánsdóttir og Jónatani Smára Guðmundssyni. Varamenn og liðinu til halds og traust eru þau Hlynur Atli Haraldsson og Margrét Ásta Hreinsdóttir. Keppnin fer fram í Íþróttahöllinni á Akureyri í dag, 4.maí, kl 20:00-21:00. Hún verður sýnd í beinni útsetningu á RÚV og því hvetjum við alla til að setjast fyrir framan sjónvarpið í kvöld og senda góða baráttustrauma til krakkanna. Þau eru búin að æfa vel og eru klár í þetta skemmtilega og krefjandi verkefni og ætla að gefa allt sitt í þetta.
Lesa meira

Skauta- og safnadagur

Miðvikudaginn 28. apríl verður farið nemendur skólans á skauta í Skautahöllinni á Akureyri og safnaferð á söfn í nágrenninu svo sem flugsafnið og iðnaðarsafnið. Nemendur mæta á venjulegum tíma í skólann og morgunmatur hefst kl. 8.30. Eftir morgunmat eða kl. 9.00 verður lagt af stað frá skólanum. Vegna fjöldatakmarkana er nemendum skipt í tvo hópa. Meðan annar hópurinn er á skautum fer hinn hópurinn í safnaferð. Hópur 1 er 1. - 6. bekkur og hópur 2 er 7. - 10. bekkur. Kl. 9.30 - 10.45 - hópur 1 á skautum og hópur 2 á söfnum Kl. 10.45 - 12.00 - hópur 2 á skautum og hópur 1 á söfnum Heimferð er frá Skautahöllinni kl. 12.05. Eftir hádegismat verður hefðbundin kennsla fram að heimferð. Athugið: Það er kalt inni í Skautahöllinni og því er gott að muna eftir að vera í hlýjum fötum. Ætlast er til að allir nemendur verði með hjálma og eru þeir innifaldir í skautaleigunni.
Lesa meira

Núvitund í náttúrunni - ferð á Fálkafell

Nemendur í valgreininni Allt sem er gott skelltu sér í göngu upp á Fálkafell miðvikudaginn 14.apríl sl. með Guðrúnu kennara. Þema tímans var útivist og núvitund en undanfarið hafa nemendur verið að læra um núvitund (mindfulness) og fleiri leiðir sem auka vellíðan og hamingju. Veðrið var ágætt, heldur mikill vindur, en krakkarnir létu það ekki á sig fá heldur gengu vaskir upp á fellið. Þegar upp var komið var farið í að sjóða vatn á prímus og búa til ljúffengar bollasúpur sem gott var að gæða sér á eftir gönguna. Anda og njóta var innlegg kennara meðan sötrað var á súpunum og áður en haldið var niður stóð hópurinn í nokkrar mínútur og naut augnabliksins. Fyrst með vindinn í fangið til að sækja sér kraft og svo var horft yfir fjörðinn og andað djúpt nokkrum sinnum áður en valhoppað var niður Fálkafellið. Ekki var annað að sjá en að allir hafi notið ferðarinnar frá upphafi til enda.
Lesa meira