Fréttir

Allir lesa á Alþjóðadegi læsis

Að sjálfsögðu var blásið til hins mánaðarlega viðburðar Allir lesa í Þelamerkurskóla í dag, á Alþjóðadegi læsis. Nemendur fagna ávallt þegar slegið er í Allir lesa - gong og dreifa sér með lesefnið sitt um allan skólann. Ávallt er vinsælt að setjast á kaffistofu starfsfólks eða skrifstofu stjórnenda. Hin ýmsu skot með sófum og kósý stólum eru einnig vel nýtt auk þess sem sumum finnst gott að sitja í stiganum eða jafnvel liggja flatir á göngum skólans og njóta lestrarins þannig.
Lesa meira

Norræna skólahlaupið - myndir

Það var mikill kraftur í nemendum sl. föstudag þegar þeir hlupu og gengu í skólahlaupinu okkar. Allir fóru lágmark 2,5 km. Flestir fóru 5 km og stór hópur fór 10 km. Margir vildu ekki hætta og lengdu í sínum leiðum. Það var frábært veður og umhverfið á Skottinu faðmaði alla þessa hraustu og frábæru krakka sem þar fóru um. Starfsfólk var ýmist með í að hlaupa og ganga, eða var tilbúið með vatn, ávexti og pepp á stoppistöðvum hér og þar.
Lesa meira

Norræna skólahlaupið á morgun, föstudag 3. sept.

Á morgun, föstudag, munum við nýta góða veðrið og halda hið árlega Norræna skólahlaup. Skóladagurinn fylgir stundatöflu til klukkan 10 og þá búum við okkur til brottfarar. Hlaupið (eða gengið) verður frá Hlíðarbæ og áleiðis Skottið. Þrjár vegalengdir eru í boði; 2,5 km - 5 km og 10 km. Starfsfólk fylgir hverjum hópi auk þess sem starfsfólk tekur á móti hraustmennunum á drykkjarstöðvum hér og þar. Við minnum alla á að tryggja góða strigaskó til að hlaupa eða ganga í og léttan, þægilegan klæðnað.
Lesa meira

Skólaslit Þelamerkurskóla 2021

Þelamerkurskóla var slitið þriðjudaginn 1. júní. Skólaslit 1. - 6. bekkjar fóru fram á sparkvelli skólans en skólaslit 7. - 10. bekkjar í Hlíðarbæ seinna sama dag. Níu nemendur voru brautskráðir og verðandi nemendur 1. bekkjar voru boðnir velkomnir í skólann. Á fyrri skólaslitunum voru veitt þrenn verðlaun. Það voru verðlaun fyrir hönnun og smíðar, hannyrðir og svo sólskinsverðlaun skólans. Viðurkenningu fyrir hönnun og smíði á þessi skólaári hlaut nemandi sem er með mikla hæfni í hönnun og smíðum. Hún er alltaf áhugasöm, jákvæð, vandvirk, hugmyndarík og skapandi. Þessi nemandi er Lára Rún Keel Kristjánsdóttir nemandi í 6. bekk. Viðurkenningu fyrir textílmennt í ár hlaut nemandi sem hefur tekið mjög miklum framförum á árinu, sýnt elju og dugnað í verki. Þessi verðlaun hlaut Ágúst Marinó Björnsson. Að lokum voru sólskinsverðlaun skólans afhent. Sólskinsverðlaunin 2020-2021 hlaut nemandi sem er sérlega bóngóður, hjálpsamur, jákvæður og samvinnufús. Þessi nemandi heitir Jósef Orri Axelsson. Á seinni skólaslitunum sem haldin voru í Hlíðarbæ voru veitt þrenn verðlaun. Fyrst voru það Jónasarverðlaunin sem Jónasarsetur, Menningarfélagið Hraun í Öxnadal veitir útskrifarnemendum viðurkenningu í minningu Jónasar Hallgrímssonar. Nemandinn sem hlaut Jónasarverðlaunin fyrir bestan námsárangur í 10. bekk leggur stund á nám sitt af metnaði og dugnaði. Nemandinn er sjálfstæður og skapandi í vinnu sinni og fer eigin leiðir við skil verkefna. Hún er sérlega drífandi og hvetjandi í hópavinnu, jákvæð og glaðlynd. Hún þarf að leggja hart að sér til að ná árangri og gerir það svo sannarlega. Þessi verðlaun hlaut Linda Björg Keel Kristjánsdóttir. Ástundunarverðlaun skólans fær í ár nemandi sem sýnir frumkvæði og kemur sjálfur með hugmyndir að úrlausn verkefna. Hún skipuleggur eigið nám af metnaði og nýtir tíma sinn vel þrátt fyrir miklar íþróttaæfingar utan skólatíma. Fyrir metnaðarfullan nemanda er vandasamt að falla ekki í þá gryfju að gera of miklar kröfur til sín en þessi nemandi hefur tekið leiðsögn vel og sýnt miklar framfarir í að ná jafnvægi í kröfum og frammistöðu. Ástundunarverðlaun Þelamerkurskóla fékk Juliane Liv Sörensen í 8. bekk. Að lokum var íþróttamaður Þelamerkurskóla tilnefndur. Í ræðu skólastjóra kom, fram að skólinn okkar er ríkur af öflugu íþróttafólki en fyrir valinu í ár varð nemandi sem er einstaklega duglegur. Hún leggur sig ávallt fram í tímum, reynir að rífa upp stemninguna í hópnum og er alltaf tilbúin að hjálpa öðrum. Magnaður liðsfélagi, hvetur sitt lið áfram og sýnir ávallt mikið keppnisskap. Hún sýnir jákvæðni í hverjum tíma og gerir öll verkefni sem lögð eru fyrir af fullum krafti. Íþróttamaður Þelamerkurskóla 2020-2021 er Linda Björg Keel Kristjánsdóttir. Þrír starfsmenn skólans voru kvaddir á skólaslitunum. Guðrún Arngrímsdóttir hefur verið hjá okkur í nokkra tíma á viku sl. ár og verið leiðandi í heilsueflandi skólastarfi ásamt Rögnu íþróttakennara. Hún snýr sér nú að heilsueflingu utan veggja skólans eins og henni einni er lagið og við þökkum henni fyrir gott samstarf. Susanne skólahjúkrunarfræðingurinn okkar til fimm ára hverfur einnig á önnur mið innan heilbrigðiskerfisins og við þökkum henni kærlega fyrir gott samstarf síðustu ár. Einnig lét af störfum vegna aldurs Unnar Eiríksson aðstoðarskólastjóri eftir 25 ára starf við skólann. Viljum við nota þetta tækifæri og þakka honum kærlega fyrir vel unnin störf við skólann á liðnum árum. Tveir nýir kennarar hefja störf við skólann í ágúst. Í stöðu aðstoðarskólastjóra hefur verið ráðin Hrafnhildur Guðjónsdóttir og í stöðu kennara í hönnun og smíði og nýsköpun var ráðinn Sindri Lárusson. Við bjóðum þau bæði velkominn í hópinn okkar góða. Viljum við nota þetta tækifæri og þakka nemendum okkar fyrir veturinn og vonum að þið eigið gott sumar í vændum. Hér má sjá myndir sem teknar voru á skólaslitunum. Þelamerkurskóli verður settur mánudaginn 23. ágúst kl. 14.00.
Lesa meira

Myndir frá vorferð að Hólavatni

Það er óhætt að segja að vorferðin okkar að Hólavatni hafi heppnast eins vel og mögulegt var. Allir nutu þess að busla, sigla, synda og leika sér í 21 stigs hita í náttúrufegurðinni að Hólavatni. Eftir grillaða hamborgara a´la Óli héldum við svo í sundlaug Akureyrar þar sem nemendur skemmtu sér ekki síður vel í sólinni. Er heim í skóla var komið fengu svo allir frostpinna áður en skólabílarnir fóru af stað. Stórkostlegur dagur frá upphafi til enda og nemendur voru eflaust margir þreyttir en sælir það sem eftir lifði dags!
Lesa meira

Vorferð með 1. - 8. bekk að Hólavatni 27. maí 2021

Smellið á fréttina til að sjá dagskrá vorferðarinnar að Hólavatni.
Lesa meira

Vorferð - vordagar - skólaslit

Á morgun, miðvikudag, klára nemendur frágang í skólastofunum og ljúka hinum ýmsu skylduverkum í skólanum. Á fimmtudaginn kemur förum við öll saman í vorferð, að undanskildum nemendum 9. og 10. bekkjar sem eru í sínu skólaferðalagi. Leiðin í ár liggur að Hólavatni þar sem við leikum okkur í skemmtilegu umhverfi og fáum grillaða hamborgara sem Óli og Helga töfra fram af sinni einskæru snilld. Á Hólavatni eru bátar sem hægt er að prófa. Allir sem vilja fara á bátana fá björgunarvesti og fullorðna fólkið er nemendum til halds og trausts. Mjög mikilvægt er að allir komi með auka handklæði og auka föt því líklegt er að einhver blotni. Nemendur fara í morgunmat í skólanum kl 8.30 og brottför frá skóla er strax að morgunmat loknum, eða um kl 8.50. Eftir hamborgaraátið, eða rétt fyrir kl 12 verður ekið að sundlaug Akureyrar þar sem allir fara í sund og sleikja sólina úr heitu pottunum eða skemmta sér í rennibrautunum. MUNA EFTIR SUNDFÖTUM! Heimferð í skólann er ca 14.15. Þá fá allir óvæntan glaðning á skólalóðinni áður en haldið er heim á leið.
Lesa meira

Sjóferð með Húna - Frétt frá 5. - 6. bekk

Við fórum um borð í Húna og Steini Pé bauð okkur velkomin. Hann fór yfir öryggisreglurnar um borð, sýndi okkur björgunarvestin og benti okkur á björgunarbátinn. Hreiðar, sem er í Háskólanum, sagði okkur ýmislegt um sjávarlífið. Hann sagði okkur líka af heimsmeisturunum fjórum, kúskel, kríu, hákarli og steypireyð. Á meðan sigldi Húni með okkur lengra en út fyrir Gilsbakka og við stoppuðum á móti Hvammi. Þar fórum við að reyna að veiða og Áróra veiddi einn þorsk en við hin ekki neitt. Magnús, hann er líka úr Háskólanum, sýndi okkur innyfli í fiskum, bæði í þorski og ýsu. Okkur þótti það flestum gaman og þegar við vorum búin að skoða þau, þá hentum við innyflunum út i sjóinn handa fuglunum. Svo héldum við áfram að veiða og þá veiddi Jósef einn þorsk en við hin ekkert. Við sáum hvali blása þeir og komu uppúr sjónum. Addi krækti í risafisk og við vorum öll að hjálpast að að reyna að ná fiskinum inn, alveg þangað til sjómennirnir föttuðu að við vorum föst í botninum. Þá slitu þeir línuna. Svo grilluðu þeir fiskinn handa okkur og við höfum ekki smakkað nýrri og betri fisk. Við skoðuðum stýrishúsið og svo fórum við aftur heim í skóla, borðuðum grjónagraut og fórum í helgarfrí. Þetta var frábær og skemmtileg ferð.
Lesa meira

Vistheimt - uppgræðsla í námunni norðan við skólann

Í dag var komið að mikilvægum áfanga í vistheimarverkefninu okkar en það hefur verið í undirbúningi í um það bil þrjú ár. Rannveig Magnúsdóttir verkefnisstjóri vistheimtar hjá Landvernd kom til okkar og byrjaði á að fræða nemendur um lífbreytileika, hringrás næringarefna í vistkerfum og fleira. Síðan fóru nemendur í 5. - 8. bekk út í námu og settu niður tilraunareiti. Markmið verkefnisins er að kanna hvernig gengur að endurheimta gróður á gróðursnauðu landi með því að setja mismunandi tegundir af lífrænum áburði í fyrirfram afmarkaða reiti, auk þess eru viðmiðunarreitir án áburðar í tilrauninni. Áburðartegundirnar eru: molta, kúamykja, sauðtað, hrossatað, hænsnaskítur og svínaskítur.
Lesa meira

Mílan - frá sjónarhorni 8. bekkinga

Það sem við erum að gera í mílunni er að ganga, hlaupa eða skokka eina mílu. Ein míla er 1,6 km. Síðastliðið vor var búinn til hringur sem er 400 metrar, þannig að til þess að fara eina mílu þarf maður að fara 4 hringi. En núna í vetur hefur verið mikill klaki á mílunni, þá gerði miðstig aðra leið ofan á snjónum, þá göngum við frá skólanum út að húsi Norðurorku sem stendur norðan við Laugaland og til baka. Þrír hringir eru ein míla. Síðastliðið haust voru kennarar og nemendur mjög duglegir að ganga míluna en þegar það dró nær vetri hættum við að nenna jafnoft að fara út að ganga míluna vegna veðurs, myrkurs og færið var stundum erfitt. Markmið með mílunni er að vakna betur á morgnana og líka bara bæta vellíðan. Mér finnst það vera hressandi að ganga míluna á morgnana, en það getur líka verið svolítið kalt.
Lesa meira