Fréttir

Val hjá 7. - 10. bekk - smíði á moltukassa fyrir skólann

Sorp er vandamál sem hefur farið vaxandi á undanförnum áratugum. Fyrir liggja áætlanir um að minnka ýmiskonar úrgang um helming á næstu 15 árum m.a. með því að flokka sorp og með því að endurvinna og jarðvinna það. Samkvæmt upplýsingum frá Sorpu er heildarheimilisúrgangur um 300 – 350 kg. á mann. Þar af eru um 100 kg. af lífrænum úrgangi. Afurðin sem fæst með jarðgerð hefur hlotið nafnið molta. Í Þelamerkurskóla hefur verið unnið í moltugerð í nokkur ár og hefur sú framleiðsla gengið vel. Í vor hafa nemendur skólans verið í ýmsu fjölbreyttu vali fjórum sinnum í viku. Eitt valið hjá nemendum 7. - 10. bekkjar hefur verið að smíða nýjan þriggja hólfa moltukassa fyrir skólann en gömlu kassarnir voru orðnir frekar lélegir og löngu kominn tími á að endurnýja þá. Verkefnið hefur gengið vel og smiðirnir sem komu að þessu verkefni hafa verið sérstaklega áhugasamir og duglegir. Vonumst við til þess að klára kassann í næstu viku.
Lesa meira

Yngsta stig í alþjóðlegu verkefni um lífbreytileika og vistkerfi

Kennarar og nemendur á yngsta stigi skólans hafa verið að vinna að alþjóðlegu Erasmus verkefni í samstarfi við Landvernd um lífbreytileika og vistkerfi. Sl. haust fóru þær stöllur Anna Rós og Jónína til Slóveníu ásamt fulltrúa Landverndar og fjórum öðrum kennurum frá Íslandi. Ferðin var mjög fræðandi og var meginverkefnið að vinna saman að bók sem telur fjöldann allan af náttúrufræðiverkefnum fyrir ung börn. Bókin verður rafræn og endurgjaldslaus og á ótal tungumálum þannig að sem flestir ættu að geta notið hennar, hvar sem er í heiminum. Verkefnin í bókinni voru rýnd þannig að þau ættu að vera framkvæmanleg á sem flestum stöðum.
Lesa meira

Endurnýting- valtímar á vorönn

Í valtíma 5. - 10. bekkjar á mánudaginn bjuggu nemendur skólans til endurvinnslubíl þar sem hjólabúnaður bílsins eru tvær tómar gosdósir. Í næstu viku gerir annar hópur sama verkefni. Seinna í maí verður síðan kappaksturkeppni niðri í íþróttahúsi þar sem bílarnir keppna um hver verði fyrstur til þess að fara yfir íþróttasalinn. Nemendur sýndu þessu verkefni mikinn áhuga og ýmsar hugmyndir komu fram um það hvernig hægt væri að gera bílana hraðskreiðari til þess að eiga möguleika á að vinna keppnina.
Lesa meira

Stafróf á hlaupum

5. og 6. bekkingar drifu sig út í góða veðrið í dag og unnu náttúrutengt íslenskuverkefni. Nemendum var skipt í hópa og var svo úthlutað nokkrum bókstöfum. Hver hópur átti að finna eitthvert náttúrufyrirbrigði sem byrjar á sama staf og hópnum var úthlutað. Því næst myndaði hópurinn bókstafina úr náttúrufyrirbrigðunum. Hér má sjá myndir af kátum krökkum með verkefnin sín https://photos.app.goo.gl/2sYCqYd2p5jpGcid7
Lesa meira

Bréf frá umboðsmanni barna

Í samstarfi við KrakkaRÚV vinnur umboðsmaður barna að nýju verkefni undir heitinu „Áhrif kórónuveirunnar á líf barna“. Tilgangur þess er að safna saman frásögnum barna um líðan þeirra og reynslu af þeim breytingum sem kórónufaraldurinn hefur haft á daglegt líf svo sem skólagöngu barna, þátttöku í tómstundum og aðstæður þeirra heima fyrir. Þannig sköpum við mikilvæga samtímaheimild um leiðir barna til að takast á við samfélags áhrif heimsfaraldurs og áður óþekktar aðstæður.
Lesa meira

Laus staða umsjónarkennara á yngsta stigi við Þelamerkurskóla

Við Þelamerkurskóla eru laus til umsóknar staða umsjónarkennara á yngsta stigi. Óskað er eftir að ráða fjölhæfan, sveigjanlegan og skapandi grunnskólakennara með mikla hæfni í samskiptum við börn. Umsjónarkennarinn vinnur í kennarateymi 1.-4. bekkjar. Í skólanum eru samtals 65 nemendur. Í Þelamerkurskóla er starfað með markvissum hætti í anda skóla fyrir alla og þannig lögð rík áhersla á að búa öllum nemendum aðstæður til náms við hæfi hvers og eins, nokkuð sem krefst sveigjanleika og skapandi hugsunar hjá öllu starfsfólki. Einkunnarorð skólans eru þroski, menntun og samkennd. Í skólanum er starfað eftir hugmyndafræði Jákvæðs aga og Byrjendalæsis. Skólinn er heilsueflandi skóli auk þess sem áhersla er lögð á rafræna kennsluhætti, útikennslu og skapandi starf. Helstu verkefni ● Annast almenna umsjónarkennslu í teymi með öðrum umsjónarkennara í 1.-4. bekk. ● Stuðla að velferð nemenda í góðu samstarfi við foreldra/forráðamenn og stoðþjónustu innan skólans sem utan. Menntunar- og hæfniskröfur ● Kennaramenntun og leyfi til að nota starfsheitið grunnskólakennari. ● Þekking á og reynsla af innleiðingu og notkun Byrjendalæsis. ● Reynsla af starfi með fjölbreyttum nemendahópi er kostur. ● Lipurð í samskiptum og sveigjanleiki í starfi. ● Áhugi á að ná fram því besta úr hverjum nemanda. ● Færni í samvinnu og teymisvinnu. ● Frumkvæði og sjálfstæð vinnubrögð. Við hvetjum konur jafnt sem karla til að sækja um störf við skólann. Ráðið er í stöðuna frá 1. ágúst 2020. Umsóknarfrestur er t.o.m. 3. maí 2020. Ferilskrá og umsókn skal senda á netfang skólastjóra ragnheidurlilja@thelamork.is Upplýsingar um Þelamerkurskóla er að finna á heimasíðu skólans, https://www.thelamork.is/ Frekari upplýsingar veitir Ragnheiður Lilja Bjarnadóttir, skólastjóri, ragnheidurlilja@thelamork.is og í síma 460-1770/866-4085.
Lesa meira

Gleðilega páska!

Þelamerkurskóli óskar starfsfólki, nemendum og fjölskyldum þeirra gleðilegra páska. Þar sem stærri páskaviðburðir þurfa að víkja í þetta sinn, vonum við að litlu hlutirnir skapi gleði og ánægju sem aldrei fyrr.
Lesa meira

Heimsmet í lestri og hreyfiátak Þelamerkurskóla í apríl

Nemendur og starfsfólk Þelamerkurskóla eru komin með stór og góð markmið fyrir aprílmánuð. Það er annars vegar að komast hringinn í kringum Ísland með hreyfingu og að setja heimsmet í lestri ásamt öðrum Íslendingum og stefna með því á að fá metið skráð í heimsmetabókina góðu!
Lesa meira

Fjölbreytt skólastarf í breyttu skipulagi

Hér í Þelamerkurskóla er hrein unun að fylgjast með nemendum og starfsfólki takast á við breyttar aðstæður af miklu æðruleysi, jákvæðni og ró. Starfsfólk fer á kostum við að láta allt ganga upp með umhyggju fyrir nemendum að leiðarljósi og á stórt hrós skilið fyrir sitt framlag nú sem endranær. Einnig er augljóst að foreldrar hafa undirbúið börnin sín vel undir breyttar aðstæður, út frá þeim upplýsingum sem komu frá skólanum. Stórt hrós til ykkar kæru foreldrar. Skapandi hugsun nær nú flugi sem aldrei fyrr og nemendur segjast vera ánægðir með skipulagið. Það er auðvitað erfitt fyrir suma sem eiga vini í öðrum hópum að fá ekki að hitta þá innan veggja skólans, en þeim býðst þá ritunarverkefni sem felast í að senda tölvupóst til vinanna í næstu stofu, eða skrifa bréf/teikna mynd sem sett er í plastvasa sem þurrkað er af með sótthreinsitusku. Lausnirnar eru alls staðar!
Lesa meira

Skíðaskóli 1. - 4. bekkjar

Í marsmánuði var áætlað að fara með 1. - 4. bekk skólans í fjögur skipti í skíðaskólann í Hlíðarfjalli. Að þessu sinni náðist að fara bara einu sinni með hópinn upp í fjall. Fyrri vikuna var það vegna veðurs en seinni vikuna vegna samkomubanns vegna Covid 19 veirunnar. Einnig þurftum við að fresta útivistardeginum sem vera átti miðvikudaginn 18. mars. Markmið skíðaskólans er að gera yngri nemendur skólans sjálfbjarga á skíðum þannig að þau geti á útivistardegi skólans rennt sér óhikað og örugg niður skíðabrekkurnar í Hlíðarfjalli og verið nokkuð sjálfbjarga í lyftunum. Skíðaskólinn er frábært framtak enda fékk skólinn Foreldraverðlaun Heimilis og skóla 2017 fyrir það verkefni. Birgitta á Möðruvöllum mætti með myndavélina sína þennan eina dag sem farið var í fjallið og var hún svo almennileg að gefa okkur allar myndirnar sem hún tók. Við þökkum henni kærlega fyrir það. Hér má sjá nokkrar af þeim myndum sem Birgitta tók.
Lesa meira