Fréttir

Skólahald fellur niður í dag, fimmtudag 12. des.

Því miður fellur skólahald niður í dag, fimmtudag 12. des. Enn er ófært á flestum vegum sveitarinnar og því næðum við aðeins litlum hluta nemenda í skólann. Það mun taka allan daginn að klára að moka vegina auk þess sem farið er að snjóa aftur. Vonandi ná krakkarnir að njóta þess að lesa eitthvað skemmtilegt eða glugga í skólabækurnar og vinna verkefni sem kunna að bíða eftir þeim á Google Classroom. Við erum þó hér í skólanum og tökum fagnandi á móti öllum sem hingað koma.
Lesa meira

Fimmtudagur - Ófærð raskar skólahaldi

Þar sem hægt gengur að moka snjó af vegum er ljóst að skólarútur komast ekki leiðar sinnar. Einnig er enn ófært að skólanum sjálfum. Skólahaldi verður því frestað um sinn og við sendum út nýjar upplýsingar kl 10.
Lesa meira

Meira um veður og færð

Þar til annað kemur í ljós er gert ráð fyrir eðlilegu skólahaldi á morgun, fimmtudag, en það veltur þó á því hvernig gengur að ryðja burt þessum þunga snjó af vegum og heimreiðum. Við verðum með puttann á púlsinum og biðjum alla aðstandendur að fylgjast vel með tilkynningum í fyrramálið, ýmist í tölvupósti, útvarpi eða á heimasíðu og facebook síðu skólans. Verði einhver röskun á skólastarfinu verður jafnframt sent út sms, eins og venjulega þegar það gerist. Við vonum innilega að veðrið hafi ekki valdið neinum skaða og hugsum til þeirra sem glíma við rafmagnsleysi. Vonandi leysist úr því sem fyrst.
Lesa meira

Skólahald fellur niður á morgun, miðvikudag 11. des.

Veðurstofa hefur nú gefið út rauða viðvörun fyrir allt Norðurland og ljóst að veðurguðirnir ætla að taka sér góðan tíma í að blása úr sér. Allt skólahald fellur því einnig niður á morgun, miðvikudag 11. des. Við vonum að ekkert tjón verði af völdum veðurofsans og hvetjum alla til að búa til notalegar gæðastundir með börnunum. Þetta veður kallar að sjálfsögðu á til dæmis bóklestur og spil !
Lesa meira

Skólahald fellur niður á morgun, þriðjudag 10. des.

Skólahaldi í Þelamerkurskóla verður aflýst á morgun, þriðjudag 10. desember vegna mjög slæmrar veðurspár. Appelsínugul viðvörun tekur gildi kl 8 í fyrramálið og samkvæmt veðurstofunni er ekkert ferðaveður meðan á viðvöruninni stendur. Upplýsingar varðandi skólahald á miðvikudag berast annað kvöld.
Lesa meira

Börnin bjarga - Kennsla í endurlífgun hjá 6. og 7. bekk

Í síðustu viku fengu 6. - 7. bekkur skólans kennslu í endurlífgun. Susanne skólahjúkrunarfræðingur sá um kennsluna ásamt öðrum hjúkrunarfræðingi. Í bréfi sem skólain fékk stendur m.a. að undanfarið ár hafi verið í undirbúningi að innleiða verkefnið „Börnin bjarga“ í heilsuvernd skólabarna. Verkefnið gengur út á að kenna nemendum í 6. – 10. bekk markvisst og árlega endurlífgun. Kennslan er í formi fyrirlesturs og verklegrar kennslu með einföldum endurlífgunardúkkum. Þetta verkefni er hluti af átakinu Kids save lives, sem Endurlífgunarráð Evrópu (ERC) og Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO), settu af stað í þeim tilgangi að hvetja allar þjóðir heims til þess að innleiða endurlífgunarkennslu meðal grunnskólanema. Rannsóknir sýna að slík kennsla eykur fjölda þátttakenda í endurlífgun umtalsvert og bætir lífslíkur í kjölfar hjartastopps utan spítala svo um munar.
Lesa meira

Allir lesa - alltaf jafn yndisleg stund

Einu sinni í hverjum mánuði hringir skólastjóri inn í Allir lesa stund og í dag var Allir lesa stund desembermánaðar. Nemendur og starfsfólk dreifðu sér sem fyrr um allan skóla og það er alltaf jafn vinsælt að koma sér fyrir t.d. á kaffistofu starfsfólks eða skrifstofu skólastjórnenda og sökkva sér niður í lesefni að eigin vali í 20 mínútur. Á öllum svæðum hafa nemendur fyrir augunum fullorðna lestrarfyrirmynd. Sumir völdu að láta lesa fyrir sig meðan aðrir lásu einir í ró eða tveir saman. Dýrmæt stund sem hefur jákvæð áhrif á læsi allra. Þess má geta að lestraráhugi hefur samkvæmt mælingu aukist á milli ára hjá nemendum skólans.
Lesa meira

Nonni og Manni - samantekt, myndbönd og myndasafn

Nemendur og starfsfólk Þelamerkurskóla ákváðu að fara af krafti í þemavinnu um þá Nonna og Manna. Vinnan hófst með stuttri kynningu á þeim bræðrum og á sex vikna tímabili horfðu allir nemendur og starfsfólk saman á einn sjónvarpsþátt á viku um kappana og þeirra ævintýri. Þættirnir sex, sem nutu mikilla vinsælda fyrir mörgum árum síðan, féllu gríðarlega vel í kramið hjá nemendum og mátti sjá einbeitingu og áhuga skína úr hverju andlitið við áhorfið. Samhliða áhorfi á þættina söfnuðu nemendur orðum og hugtökum sem þeir leituðu skýringa á og bjuggu til myndverk og söguvegi út frá söguþræði einstakra þátta.
Lesa meira

Afmælisdagur skólans

Í dag 5. desember á Þelamerkurskóli afmæli. Hann er 56 ára. Í tilefni dagsins fengu allir lambalæri í matinn og ís í eftirrétt. Afmælissöngurinn var að sjálfsögðu sunginn við matarborðið. Auk þess var kynnt fyrir nemendum hugmyndasamkeppni um merkingu á skólanum. Nemendur, einir eða í hópi, rissa upp hugmynd að því hvernig þeir myndu vilja sjá skólann merktan að utan og skilafrestur hugmynda er í janúar. Við hlökkum til að sjá hvað krökkunum dettur skemmtilegt í hug.
Lesa meira

Gjöf frá Kvenfélagi Hörgdæla

Kvenfélag Hörgdæla hefur í gegnum tíðina sýnt Þelamerkurskóla mikinn velvilja. Nú hefur skólanum borist höfðingleg gjöf í formi peningaupphæða til hönnunar og smíðakennslu, myndmenntar og handmenntar. Kennarar þessara greina munu nýta gjöfina til að kaupa stærri tæki og tól sem án efa koma til með að hafa jákvæð áhrif á nám nemenda. Skólinn þakkar kvenfélaginu innilega fyrir gjöfina sem og almenna velvild.
Lesa meira