Fréttir

Vegna forfalla er laus staða umsjónarkennara á yngsta stigi við Þelamerkurskóla

Við Þelamerkurskóla eru laus til umsóknar staða umsjónarkennara á yngsta stigi. Óskað er eftir að ráða fjölhæfan, sveigjanlegan, hlýjan og skapandi grunnskólakennara með mikla hæfni í samskiptum við börn. Umsjónarkennarinn vinnur í kennarateymi 1.-4. bekkjar. Í skólanum eru samtals 65 nemendur. Í Þelamerkurskóla er starfað með markvissum hætti í anda skóla fyrir alla og þannig lögð rík áhersla á að búa öllum nemendum aðstæður til náms við hæfi hvers og eins, nokkuð sem krefst sveigjanleika og skapandi hugsunar hjá öllu starfsfólki. Einkunnarorð skólans eru þroski, menntun og samkennd. Í skólanum er starfað eftir hugmyndafræði Jákvæðs aga og Byrjendalæsis. Skólinn er heilsueflandi skóli auk þess sem áhersla er lögð á rafræna kennsluhætti, útikennslu og skapandi starf. Helstu verkefni ● Annast almenna umsjónarkennslu í teymi með öðrum umsjónarkennara í 1.-4. bekk. ● Stuðla að velferð og framförum nemenda í góðu samstarfi við foreldra/forráðamenn og stoðþjónustu innan skólans sem utan. Menntunar- og hæfniskröfur ● Kennaramenntun og leyfi til að nota starfsheitið grunnskólakennari. ● Þekking á og reynsla af innleiðingu og notkun Byrjendalæsis. ● Reynsla af starfi með fjölbreyttum nemendahópi. ● Lipurð í samskiptum og sveigjanleiki í starfi. ● Áhugi á að ná fram því besta úr hverjum nemanda. ● Færni í samvinnu og teymisvinnu. ● Frumkvæði og sjálfstæð vinnubrögð. Við hvetjum konur jafnt sem karla til að sækja um störf við skólann. Umsóknarfrestur er t.o.m. 5. október 2020. Ferilskrá og umsókn í formi greinargerðar skal senda á netfang skólastjóra ragnheidurlilja@thelamork.is Upplýsingar um Þelamerkurskóla er að finna á heimasíðu skólans, https://www.thelamork.is/ Frekari upplýsingar veitir Ragnheiður Lilja Bjarnadóttir, skólastjóri, ragnheidurlilja@thelamork.is og í síma 460-1770/866-4085.
Lesa meira

Dagur íslenskrar náttúru - heimsókn 5.-8. bekkjar á Hóla í Öxnadal

Á degi íslenskrar náttúru, sem er 16. september ár hvert, vinna margir skólar að einhverjum verkefnum sem tengjast náttúrunni. Markmiðið er að auka meðvitund, áhuga og þekkingu á náttúrunni, nærumhverfinu og samspili manns og náttúru. Jafnframt er tilgangurinn að efla þekkingarleit og áhuga nemenda á náttúruskoðun og tengja það fjölbreyttri leið til rannsókna, sköpunar og miðlunar. Í haust fengu nemendur 5. - 8. bekkjar boð um að koma í heimsókn til hjónanna á Hólum Öxnadal, þeirra Sifjar og Óla og þótti tilvalið að fara í þá heimsókn á þessum degi.
Lesa meira

Norræna skólahlaupið - nokkrar myndir

Eins og vant er stóðu nemendur sig með stakri prýði í Norræna skólahlaupinu sem haldið var síðasta mánudag. Veðrið var milt og gott þennan fallega haustdag. Að loknu hlaupi gátu allir gátu farið í sund, heitan pott og sturtu í Jónasarlaug. Eftir hádegið var svo kennt samkvæmt stundaskrá. Hér eru nokkrar myndir frá hlaupinu.
Lesa meira

Veiðiferð í útivistarvali

Útivistarvalið fór í veiðiferð í Hörgá í blíðskaparveðri í dag og fékk þessa fínu leiðsögn frá Helga, Svönu og Munda. Veiðin gekk svona la la til að byrja með, einn steinn kom á land og svona en á lokametrunum veiddist ein bleikja og önnur slapp við bakkann. Þá hljóp kapp í mannskapinn og fáir í stuði til að hætta og náðum við heim akkúrat þegar rúturnar voru að gera sig klárar fyrir heimferð. Magnaður dagur í fallegu umhverfi, góðum félagsskap og frábæru veðri :)
Lesa meira

Útivistardagurinn - myndir

Þrátt fyrir þokuslæðing og vætu á köflum létu nemendur og starfsfólk engan bilbug á sér finna og áttu góðan útivistardag sl. miðvikudag. Fjórar ferðir voru á dagskrá og þótt tveir áfangastaðir hafi breyst vegna veðurs hélst fyrirkomulag ferðanna nokkuð svipað. Krakkarnir glímdu við miskrefjandi verkefni í t.d. göngu eða hjólreiðum, en allir stóðu sig frábærlega og voru ánægðir með sig að ferð lokinni. Sundlaugin yljaði þreyttum kroppum eftir atið og í mötuneytinu var boðið upp á skúffuköku og mjólk í kaffitímanum, áður en haldið var heim á leið.
Lesa meira

Útivistardagur haustannar miðvikudaginn 2. september

Áætlað er að vera með útivistardag haustannar miðvikudaginn 2. september. Dagurinn verður með svipuðu sniði og undanfarin ár, þ.e farið verður í með 1. – 4. bekk í þægilega gönguferð en 5. – 10. bekkur hefur val um þrjár leiðir. Þar sem enn á eftir að útfæra nokkur atriði betur verða nánari upplýsingar um útivistardaginn sendar til ykkar í tölvupósti næsta mánudag. Þetta er langur dagur svokallaður tvöfaldur skóladagur og því verður heimferð nemenda ekki fyrr en kl. 16.00. Eftir ferðirnar geta nemendur farið í sturtu og sund og því þurfa þau að muna eftir sundfötunum
Lesa meira

Skólasetning 2020

Þelamerkurskóli var settur í Mörkinni mánudaginn 24. ágúst. Veðrið var eins og best á var kosið sól og hiti. Hér eru nokkrar myndir sem teknar voru á skólasetningunni.
Lesa meira

Skólastefna Hörgársveitar

Samkvæmt ákvæðum í skólastefnu Hörgársveitar frá árinu 2016 fór fram endurskoðun á stefnunni sl. skólaár. Nú hefur ný og endurskoðuð skólastefna litið dagsins ljós og hana má finna á heimasíðu Hörgársveitar eða á þessari slóð hér. Eins má smella á Skólastefnuhnapp neðarlega til hægri á heimasíðu skólans.
Lesa meira

Skólaslit skólaársins 2019-2020

Þelamerkurskóla var slitið fimmtudaginn 4. júní. Skólaslit 1. - 6. bekkjar fóru fram á sparkvelli skólans en skólaslit 7. - 10. bekkjar í Hlíðarbæ seinna sama dag. Sjö nemendur 10. bekkjar voru brautskráðir og sex nemendur 1. bekkjar voru boðnir velkomnir í skólann. Á fyrri skólaslitunum voru veitt tvenn verðlaun. Það voru verðlaun fyrir hönnun og smíðar og sólskinsverðlaun skólans. Verðlaun í hönnun og smíðum komu í hlut Ylfu Sólar Agnarsdóttur sem er nemandi í 3. bekk. Verðlaunin hlaut Ylfa Sól fyrir framúrskarandi árangur í hönnun og smíðum og mikla verkhæfni miðað við aldur. Á fyrri skólaslitunun voru sólskinsverðlaunum Þelamerkurskóla einnig afhent en þau eru veitt nemendum sem leggja sig sérstaklega fram, skólastarfinu til hagsbóta. Sólskinsverðlaunin 2019-2020 hlýtur nemandi sem ávallt sýnir mikla jákvæðni og er einstaklega samvinnufús og hjálpsamur. Þessi viðurkenning kom í hlut Elínar Öldu Bragadóttur 6. bekk. Á seinni skólaslitunum sem haldin voru í Hlíðarbæ voru veitt fern verðlaun. Fyrst voru það Jónasarverðlaunin sem Jónasarsetur, Menningarfélagið Hraun í Öxnadal veitir útskrifarnemendum viðurkenningu í minningu Jónasar Hallgrímssonar. Í ár var mjög erfitt að gera upp á milli nemenda og gátu mjög margir fengið verðlaun fyrir námsárangur. Að lokum stóð valið á milli tveggja framúrskarandi nemenda sem ekki var hægt að gera upp á milli núna frekar en áður á skólagöngu þeirra. Þessir tveir nemendur eru alltaf tilbúnir til að taka þátt í þeim verkefnum sem fyrir þá eru lögð, gera það með bros á vör og skila oftast mjög góðu verki. Þetta eru þær Álfhildur Helga Ingólfsdóttir og Bjarney Viðja Vignisdóttir nemendur í 10. bekk. Viðurkenningu fyrir hannyrðir hlaut Auður Karen Auðbjörnsdóttir í 9. bekk. Auði hefur farið mikið fram í vetur og er hún mjög sjálfstæð í vinnu sinni. Hún er vandvirk, hugmyndarík og óhrædd við að prufa nýjar aðferðir. Ástundunarverðlaun skólans kom í hlut Ólafar Eyrúnar Bragadóttir í 10. bekk. Ólöf hefur sinnt náminu af mikilli prýði í vetur og hefur sýnt einstakan áhuga og þrautseigju. Að lokum var íþróttamaður Þelamerkurskóla tilnefndur. Í ræðu skólastjóra kom fram að skólinn er ríkur af öflugu íþróttafólki en fyrir valinu í ár varð nemandi sem er mikill íþróttamaður. Hann leggur sig fram í tímum, tilbúinn að hjálpa öðrum og er flottur liðsmaður. Hann er mikill keppnismaður og gefur sjaldan eftir. Íþróttamaður Þelamerkurskóla skólaárið 2019 - 2020 er Jónsteinn Helgi Þórsson nemandi í 10. bekk. Þrír kennarar voru kvaddir á skólaslitunum Ágústa Berglind Hauksdóttir, sem verið hefur í leyfi í vetur og óskaði eftir lausn frá starfi. Við þökkum henni fyrir vel unnin störf og skemmtilegan félagsskap til margra ára. Jónína Sverrisdóttir er búin að starfa í Þelamerkurskóla í 20 ár. Hún hefur nú ákveðið að komið sé að tímamótum og mun nú snúa til annarra starfa. Jónínu eru færðar hjartans þakkir fyrir frábær störf í þágu nemenda og skólans alls öll þessi ár. Sigurður F. Sigurðarson kom til okkar í haust í afleysingu og átti góðar stundir og vann flott og hugmyndaríkt starf með unglingadeildinni. Við þökkum Bibba kærlega fyrir hans framlag í vetur. Tveir nýir kennarar hefja störf við skólann í ágúst, en það eru þau Hjördís Stefánsdóttir, sem fer í teymi yngsta stigs og Helga Kolbeinsdóttir sem mun sjá um list- og verkgreinakennslu við skólann. Við bjóðum þær tvær velkomnar til starfa, en Helga er kominn inn í hópinn eftir að hafa verið hjá okkur í afleysingu í vetur. Þelamerkurskóli verður settur þann 24. ágúst 2020
Lesa meira

Vorferð skólans til Dalvíkur - myndir

Þriðjudaginn 2. júní var farið með alla nemendur skólans í vorferð til Dalvíkur. Við skoðuðum Byggðasafnið Hvol á Dalvík sem er lítið en fjölbreytt og skemmtilegt safn. Þar er meðal annars hægt að fræðast um líf og starf Jóhanns Svarfdælings sem var stærsti Íslendingur sem sögur fara af. Við fæðingu vó Jóhann 18 merkur og var hann þriðja barn foreldra sinna af níu systkinum. Jóhann var 2,34 metrar á hæð þegar hann mældist hæstur og vó þá 163 kg. Einnig fengu nemendur að prófa að fara í minigolf og klifra í klifurvegg. Í hádeginu var boðið upp á grillaða hamborgara sem runnu ljúft niður. Síðan brugðu nemendur sér í sund í Sundlaug Dalvíkur. Við fengum gott veður þennan dag og þegar veðrið er gott eru allir glaðir.
Lesa meira