Fréttir

Starfsdagur á mánudaginn kemur, 16. mars

Í ljósi ákvörðunar yfirvalda um samkomubann og takmarkanir á skólahaldi í leik- og grunnskólum hefur Samband íslenskra sveitarfélaga beint þeim tilmælum til sveitarfélaga að hafa starfsdag í leik- og grunnskólum á mánudaginn til að hægt sé að leggjast yfir skipulag á skólastarfi út frá þeim takmörkunum sem settar hafa verið. Í Hörgársveit hefur verið ákveðið að á mánudaginn kemur, 16. mars, verði starfsdagur í Þelamerkurskóla allan daginn og Heilsuleikskólinn Álfasteinn opni kl 11.30. Allir eru beðnir um að fylgjast vel með upplýsingum frá skólunum og sveitarfélaginu sem kunna að birtast um helgina og á mánudaginn.
Lesa meira

Stóra upplestrarkeppnin 2020

Fimmtudaginn 5. mars var Stóra upplestrarkeppnin haldin í Menntaskólanum á Akureyri. Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk er árlegt samvinnuverkefni allra grunnskóla á landinu og Radda, samtaka um vandaðan upplestur. Í verkefninu fá allir nemendur í 7. bekk markvissa þjálfun í upplestri og framkomu. Fulltrúar Þelamerkurskóla í ár voru Juliane Lif Sörensen og Stefán Karl Ingvarsson nemendur í 7. bekk. Þau stóðu sig mjög vel og við erum virkilega stolt af þeim. Þátttökuskólar að þessu sinni voru Dalvíkurskóli, Grunnskólinn Fjallabyggð, Hrafnagilsskóli, Grenivíkurskóli og Þelamerkurskóli.
Lesa meira

Góugleði 9. bekkjar

Fimmtudaginn 5. mars bauð 9. bekkur til skemmtunar og matarveislu í skólanum. Nemendum í 7.-10. bekk, foreldrum nemenda í 9. og 10. bekk, starfsfólki og mökum þeirra var boðið. Þetta var notaleg og skemmtileg stund og eins og alltaf skemmti fólk sér vel og naut þess að borða veislumatinn sem Óli kokkur eldaði fyrir okkur. 9. bekkingar buðu upp á leiki og skemmtiatriði og starsfólk skólans söng vísur um nemendur, þeim til mikillar ánægju! Takk fyrir okkur 9. bekkingar.
Lesa meira

Skólahreysti á Akureyri miðvikudaginn 4. mars

Keppni í Skólahreysti fór fram á Akureyri miðvikudaginn 4. mars. Skólahreysti er liðakeppni milli grunnskóla landsins. Hvert lið samanstendur af tveimur strákum og tveimur stelpum. Keppt er í eftirfarandi keppnisgreinum: Upphífingum (strákar) Armbeygjum (stelpur) Dýfum (strákar) Hreystigreip (stelpur) Hraðaþraut (strákar og stelpur) Keppendur frá Þelamerkurskóla voru eftirtaldir: Dagur Karl Stefánsson 8. bekk, Jónsteinn Helgi Þórsson 10. bekk , Áslaug Lóa Stefánsdóttir 8. bekk og Linda Björg K. Kristjánsdóttir 9. bekk . Varamenn voru Hákon Valur Sigurðsson 9. bekk og Elín Bára Wilkingson Jónsdóttir 8. bekk. Nemendur okkar stóðu sig mjög vel og voru skólanum til sóma og er þá bæði átt við keppendur og græna stuðningsliðið okkar.
Lesa meira

Öskudagsskemmtun í skólanum

Öskudagurinn var haldinn hátíðlegur í skólanum daginn fyrir öskudag eins og undanfarin ár. Nemendur og starfsfólk klæddust grímubúningum og grínuðu og glensuðu. Kötturinn var slegið úr tunnunni og þetta árið var það Ísak Óli sem var tunnukóngur skólans. Síðan hófst söngvakeppni öskudagsliða þar sem Fjarkarnir unnu eftir harða keppni. Í sönghópnum voru Valgerður, Anna Lovísa og Ester nemendur 6. bekkjar. Eftir söngvakeppnina var síðan dansað og sprellað fram að heimferð.
Lesa meira

Framhaldsskólaheimsóknir 9. og 10. bekkinga - frétt frá nemendum

Frétt frá nemendum um heimsóknir í framhaldsskóla á svæðinu Þann 13. febrúar, fórum við í heimsókn í Menntaskólann á Tröllaskaga. Þar fórum við í kynningu hjá Ingu sem er kennari þar. Okkur fannst mjög áhugavert hversu mikið þau nota tæknina. Því t.d. ef þú missir af skóladegi þá geturðu fundið allt námið á netinu. Annað sem má ekki gleyma er að krakkarnir þurfa aðeins að mæta fjórum sinnum í viku í skólann en það er frí á föstudögum. Það var ekki rætt mikið um félagslífið í þessum skóla en það er ábyggilega ágæt fyrir þá sem eru í skólanum en svo er fullt af krökkum sem eru í fjarnámi. Þann 19. febrúar, fórum við í kynningar hjá Verkmenntaskólanum og Menntaskólanum á Akureyri. Í VMA kíktum við á allar brautirnar sem þau hafa upp á að bjóða. Valið var mjög fjölbreytt þar og nánast hver sem er gæti fundið eitthvað við sitt hæfi. Félagslífið var ekki tekið til umræðu vegna tímaskorts en miðað við það sem við sáum á kynningunum þá voru krakkarnir mjög hressir og flestir þekktu hvern annan. Næst fórum við í MA. Þar kynntumst við nýrri braut sem á að koma næstu önn. Þessi braut heitir sviðslistabraut, hún hljómaði mjög spennandi. En hinsvegar kynntumst við líka hinum brautunum sem eru félagsfræði, náttúrufræði og mál og menningarbraut. Þær hljómuðu líka mjög vel. Margir krakkar sögðu að þeir hefðu farið í MA vegna góðs félagslífs. Þeir eru í líka í bekkjum og þá hitta þau sömu krakkana á hverjum degi og það endar með vináttu. Bjarney og Álfhildur Þessar myndir birti VMA á heimasíðu sinni
Lesa meira

Undankeppni Stóru upplestrarhátíðinnar í Þelamerkurskóla

Í morgun var undankeppni Stóru upplestrarhátíðinnar haldin í skólanum en það er 7. bekkur sem tekur þátt í þeirri keppni. Markmið hátíðarinnar er að vekja athygli og áhuga í skólum á upplestri og vönduðum framburði. Hátíðin hefst ár hvert á degi íslenskrar tungu 16. nóvember og lýkur með lokahátíð sem að þessu sinni verður í Menntaskólanum á Akureyri fimmtudaginn 5. mars Fjórir nemendur í 7. bekk tóku þátt í upplestrarhátíðinni og stóðu þau sig öll vel. Valdir voru tveir fulltrúar skólans til að taka þátt í lokakeppninni. Þeir eru Stefán Karl Ingvarsson og Juliane Liv Sörensen. Við óskum þeim til hamingju með árangurinn og góðs gengis. Dómarar keppninnar í skólanum voru: Sesselja Ingólfsdóttir, Helga Hauksdóttir og Margrét Sverrisdóttir. Við þökkum þeim kærlega fyrir hjálpina.
Lesa meira

Pizzusala í skólanum á Öskudaginn

Á öskudaginn (nk. miðvikudagur) kl. 12.00 munu nemendur í 8. og 9. bekk vera með pizzusölu í matsal skólans fyrir unga fólkið sem búið er að syngja og safna sælgæti. Fullorðnir mega að sjálfsögðu líka kaupa sér pizzu. Verð kr. 1.500 á mann. Allur ágóði sölunnar rennur í ferðasjóð nemenda. Vinsamlegast skráið ykkur á netfanginu bibbi@thelamork.is
Lesa meira

Þorrablót 1. - 6. bekkjar

Þorri er nafnið á fjórða mánuði vetrar að gömlu íslensku misseratali. Hann hefst á föstudegi á bilinu 19.–26. janúar og lýkur á laugardegi áður en góa tekur við. Sá laugardagur er nefndur þorraþræll. Nú á dögum könnumst við við þetta heiti úr hugtökum eins og þorramatur og þorrablót. Þorri var líka talinn erfiðasti vetrarmánuðurinn og því er stundum talað um að þreyja þorrann en það þýðir eiginlega að harka hann af sér . Hið árlega þorrablót 1. - 6. bekkjar var haldið í matsal skólans í dag. Eins og hefð er fyrir var skipulag dagsins í höndum 6. bekkjar. Krakkarnir höfðu ekki einungis undirbúið skemmtiatriði og söngva, heldur höfðu þeir líka búið sjálfir til sviðasultuna og slátrið. Allir nutu þess að borða þorramat og syngja þorrasöngva undir dyggri stjórn Gilla. Skemmtunin tókst mjög vel og við þökkum 6. bekkingum fyrir skipulagið.
Lesa meira

Öskudagsgleði í ÞMS þriðjudaginn 25. febrúar

Eins og hefð er fyrir verður öskudagsgleði Þelamerkurskóla á sprengidaginn sem er þriðjudaginn 25. febrúar. Nemendur geta komið strax um morguninn í búningum sínum og máluð, en fram að hádegi er kennt samkvæmt stundaskrá. Hádegismatur verður frá kl. 12.00 – 12.30 og frá 12.30 – 13.00 undirbúa nemendur sig fyrir öskudagsballið. Þeir sem þurfa aðstoð við málun fá hana í stofu 6. Öskudagsskemmtunin hefst á sal kl. 13.00. Dagskrá hennar er: Kötturinn sleginn úr tunnunni Tunnukóngur/drottning krýnd/ur með viðhöfn Söngvakeppni öskudagsliða Öskudagsball Úrslit úr söngvakeppninni Marsering undir stjórn elsta námshópsins Skólavinir marsera saman Á öskudagsskemmtuninni væri gaman ef allir að gætu verið í búningum. Foreldrar eru auðvitað velkomnir á skemmtunina. Rútur fara heim á venjulegum tíma eða kl. 14.25. ATH: Það verður vetrarleyfi í skólanum 26. - 28. febrúar Eins og við öll vitum þá er tíminn fyrir öskudag er oftast hlaðinn tilhlökkun hjá börnunum. En hjá sumum er hann líka hlaðinn ákveðinni spennu sem myndast við skipan í öskudagslið. Við viljum biðja foreldra um að aðstoða börn sín við að setja saman liðin með því að ráðfæra sig hver við annan svo að allir sem þess óska komist glaðir í öskudagslið.
Lesa meira