Fréttir

Mílan - frá sjónarhorni 8. bekkinga

Það sem við erum að gera í mílunni er að ganga, hlaupa eða skokka eina mílu. Ein míla er 1,6 km. Síðastliðið vor var búinn til hringur sem er 400 metrar, þannig að til þess að fara eina mílu þarf maður að fara 4 hringi. En núna í vetur hefur verið mikill klaki á mílunni, þá gerði miðstig aðra leið ofan á snjónum, þá göngum við frá skólanum út að húsi Norðurorku sem stendur norðan við Laugaland og til baka. Þrír hringir eru ein míla. Síðastliðið haust voru kennarar og nemendur mjög duglegir að ganga míluna en þegar það dró nær vetri hættum við að nenna jafnoft að fara út að ganga míluna vegna veðurs, myrkurs og færið var stundum erfitt. Markmið með mílunni er að vakna betur á morgnana og líka bara bæta vellíðan. Mér finnst það vera hressandi að ganga míluna á morgnana, en það getur líka verið svolítið kalt.
Lesa meira

Tónlistarval í heimsókn á Minjasafnið á Akureyri

Síðasta miðvikudag fórum við í tónlistarvali á Minjasafnið á Akureyri og sáum sýninguna Tónlistarbærinn Akureyri. Þar tók hann Haraldur Þór Egilsson á móti okkur og sýndi okkur safnið. Hann sýndi okkur t.d. fyrstu hljóðfærin sem voru keypt til Akureyrar, blásturshljóðfæri og orgel. Hann talaði líka um vinsælt tónlistarfólk eins og t.d. Jóhönnu óperusöngkonu, Helena Eyjólfs, 200.000 naglbíta og ungu strákana í hljómsveitinni Bravó sem hituðu upp fyrir Kinks á tónleikum í Reykjavík 1965. Okkur fannst þetta bara mjög áhugavert og skemmtilegt. Við fengum að læra um allskonar hljóðfæri og tæki til að spila tónlist sem við höfum enga hugmynd um að voru til. Linkur á myndir https://photos.app.goo.gl/Cz9M7VEpahp75PuC6
Lesa meira

Skólahreysti í kvöld!

Lið Þelamerkurskóla í Skólahreysti þetta árið er skipað þeim Hákoni Val Sigurðssyni, Lilju Lind Torfadóttur, Lindu Björg Kristjánsdóttir og Jónatani Smára Guðmundssyni. Varamenn og liðinu til halds og traust eru þau Hlynur Atli Haraldsson og Margrét Ásta Hreinsdóttir. Keppnin fer fram í Íþróttahöllinni á Akureyri í dag, 4.maí, kl 20:00-21:00. Hún verður sýnd í beinni útsetningu á RÚV og því hvetjum við alla til að setjast fyrir framan sjónvarpið í kvöld og senda góða baráttustrauma til krakkanna. Þau eru búin að æfa vel og eru klár í þetta skemmtilega og krefjandi verkefni og ætla að gefa allt sitt í þetta.
Lesa meira

Skauta- og safnadagur

Miðvikudaginn 28. apríl verður farið nemendur skólans á skauta í Skautahöllinni á Akureyri og safnaferð á söfn í nágrenninu svo sem flugsafnið og iðnaðarsafnið. Nemendur mæta á venjulegum tíma í skólann og morgunmatur hefst kl. 8.30. Eftir morgunmat eða kl. 9.00 verður lagt af stað frá skólanum. Vegna fjöldatakmarkana er nemendum skipt í tvo hópa. Meðan annar hópurinn er á skautum fer hinn hópurinn í safnaferð. Hópur 1 er 1. - 6. bekkur og hópur 2 er 7. - 10. bekkur. Kl. 9.30 - 10.45 - hópur 1 á skautum og hópur 2 á söfnum Kl. 10.45 - 12.00 - hópur 2 á skautum og hópur 1 á söfnum Heimferð er frá Skautahöllinni kl. 12.05. Eftir hádegismat verður hefðbundin kennsla fram að heimferð. Athugið: Það er kalt inni í Skautahöllinni og því er gott að muna eftir að vera í hlýjum fötum. Ætlast er til að allir nemendur verði með hjálma og eru þeir innifaldir í skautaleigunni.
Lesa meira

Núvitund í náttúrunni - ferð á Fálkafell

Nemendur í valgreininni Allt sem er gott skelltu sér í göngu upp á Fálkafell miðvikudaginn 14.apríl sl. með Guðrúnu kennara. Þema tímans var útivist og núvitund en undanfarið hafa nemendur verið að læra um núvitund (mindfulness) og fleiri leiðir sem auka vellíðan og hamingju. Veðrið var ágætt, heldur mikill vindur, en krakkarnir létu það ekki á sig fá heldur gengu vaskir upp á fellið. Þegar upp var komið var farið í að sjóða vatn á prímus og búa til ljúffengar bollasúpur sem gott var að gæða sér á eftir gönguna. Anda og njóta var innlegg kennara meðan sötrað var á súpunum og áður en haldið var niður stóð hópurinn í nokkrar mínútur og naut augnabliksins. Fyrst með vindinn í fangið til að sækja sér kraft og svo var horft yfir fjörðinn og andað djúpt nokkrum sinnum áður en valhoppað var niður Fálkafellið. Ekki var annað að sjá en að allir hafi notið ferðarinnar frá upphafi til enda.
Lesa meira

Pennavinasamstarf við nemendur í Póllandi

Vorið 2019 komu kennarar frá Póllandi í heimsókn í Þelamerkurskóla í tengslum við Erasmusverkefni. Einn kennaranna kom með bunka af bréfum frá nemendum sínum í Póllandi en bréfin eru skrifuð á ensku og eru hluti af enskunámi barnanna. Nemendur í árgangi 2008 hér í Þelamerkurskóla tóku við bréfunum og hafa nú skrifast á við nemendur Przedszkolny í tvö ár, auk þess sem nemendur í 8. bekk eru komnir með pennavini og nokkrir yngri nemendur líka. Nemendur hafa nokkuð frjálsar hendur um hvað þeir skrifa en kennarinn kemur líka alltaf með eitt viðfangsefni sem á að skrifa um, til dæmis páskar og jólahald. Núna eru nemendur að skrifa um eldgosið á Reykjanesi. Á tenglinum hér fyrir neðan má sjá myndir af bréfum sem hafa farið á milli skólanna og myndir af verkefni sem nemendur í Póllandi unnu um Ísland og meðal annars eldvirkni, í desember 2019.
Lesa meira

Lausar stöður við Þelamerkurskóla

Þelamerkurskóli auglýsir laust starf aðstoðarskólastjóra sem og hálfa stöðu kennara í hönnun og smíði með tengingu við nýsköpun og tækni. Smellið á frétt til að sjá auglýsingarnar.
Lesa meira

GLEÐILEGA PÁSKA

Þelamerkurskóli óskar öllum nemendum, foreldrum og starfsfólki gleðilegra páska. Njótum samveru með innsta hring, förum varlega og pössum upp á sóttvarnir.
Lesa meira

Þelamerkurskóli lokaður frá og með deginum í dag og fram yfir páska

Skjótt skipast veður í lofti og við erum enn og aftur minnt rækilega á æðruleysið góða. Eins og flestir hafa eflaust séð í fjölmiðlum nú þegar, verður skólinn, sem og allir grunnskólar landsins, lokaður frá og með deginum í dag. Nemendur eru því allir komnir í páskafrí.
Lesa meira

Þriðjudagur 23. mars - Fjallið lokað

Æðruleysið heldur áfram að vera okkar helsta dyggð í skólastarfinu og nú hafa borist þær fréttir úr Hlíðarfjalli að þar verði ekki opnað fyrr en seinnipartinn í dag. Það verður því hvorki skíðaskóli né útivistardagur í dag. Við höldum áfram í bjartsýnina og stefnum á skíðaskóla og útivistardag í vikunni eftir páskafrí.
Lesa meira