Fréttir

Skólahald fellur niður í dag, þriðjudag

Skólahald fellur niður í Þelamerkurskóla í dag. Eftir nóttina er víða ófært í sveitarfélaginu þótt verið sé að vinna að mokstri. Auk þess er mikil hálka og krapi. Nú í morgunsárið er veðrið ágætt, en er líða fer á mroguninn kemur sterkur suð-suðvestan hvellur með miklu roki frameftir degi og sumstaðar úrkomu. Samkvæmt veðurspá dagsins eru því allar líkur á að það verði ófært þegar komið er að heimferð úr skólanum, vegna roks, hálku og mögulega snjófyrirstöðu. Allt skólahald fellur því niður í dag.
Lesa meira

Myndir frá skólastarfi í janúar

Skólastarf janúarmánaðar einkenndist af alls kyns skapandi þemaverkefnum, vinnu við áhugasviðsverkefni, útiskóla, bóklegum tímum, myndbandaverkefni í ýmsum námsgreinum, læsisverkefnum í sundi og spennandi sköpun í valgreinum. Auk þess fengu 7.-10. bekkur Þorgrím Þráinsson í heimsókn með stórgott erindi um leiðir til að auka sjálfstraust sitt og stuðla að góðu lífi, Ragna íþrótta- og heimilisfræðikennari setti upp frábæra dagskrá í tannverndarvikunni, sem endaði á fyrirlestri um tannheilsu frá Mörthu Hermannsdóttur tannlækni sem og flúorskoli og tannburstagjöf fyrir alla nemendur.
Lesa meira

Áhugasviðsverkefni í 7.-8. bekk

Nemendur í 7.-8. bekk eru með fasta áhugasviðstíma í hverri viku og hafa litið dagsins ljós hreint frábær verkefni hjá þeim öllum. Krakkarnir vinna í nokkrar vikur með hvert verkefni og enda lotuna á kynningum á sínu áhugasviði. Í skólann hafa komið skemmtilegir gestir til að taka þátt í slíkum kynningum, s.s. endur og kettir auk þess sem bakaðar hafa verið pizzur og ýmsir flottir munir lagðir fram.
Lesa meira

Jóladagar

Í þessari frétt setjum við saman myndasöfn frá hinum ýmsu jólatengdu dögum þar sem margra ára gamlar hefðir skapa fegurð, gleði og öðruvísi samverustundir sem eru góð tilbreyting frá annars fjölbreyttu skólastarfi. Með því að smella á yfirheiti hverrar umfjöllunar opnast myndasafn frá viðkomandi viðburði. Jól í skókassa: Nú má gera ráð fyrir að börn í Úkraínu séu um það bil að fá afhentar jólagjafir frá nemendum Þelamerkurskóla, en nemendur úr skólanum fengu þá hugmynd fyrir nokkrum árum að við myndum öll sameinast um að útbúa Jól í skókassa fyrir börn sem annars ekki fá gjafir. Góð hugmynd sem orðin er að hefð. Jólaljósadagurinn: Snemma í desember höfum við sl. 20 ár byrjað daginn á að fara upp í hlíðina við skóginn á móti skólanum, þar sem hver nemandi skólans kveikir á sínu friðarkerti til að lýsa upp skammdegið og njóta fegurðar og friðar. Falleg hefð og uppáhaldsdagur margra. Laufabrauðsskurður og jólastöðvar, skautar og jólabíó: Síðustu dagana fyrir jólafrí var að venju notaleg stemming. Einn dagur fór í að skera út laufabrauð og skemmta sér svo á fjölbreyttum og skemmtilegum stöðvum, s.s. við forritun og tækni, jólaföndur, piparkökuskreytingar, slökun, perl, íþróttir og sund. Annar dagur var nýttur í jólaskautaferð, gönguferð á Akureyri og jólabíó. Í ár komum við nemendum skemmtilega á óvart með því að hafa jólabíóið „alvöru“ bíóferð í bíóhús á Akureyri. Krakkarnir fögnuðu gríðarlega þegar þeim var tilkynnt það rétt áður en bíóið hófst. Litlu jólin: Litlu jólin okkar voru nokkuð hefðbundin með heimsókn í Möðruvallakirkju þar sem nemendur fluttu tónlist og tal af stakri snilld, stofujólum með kennara og svo hátíðarmat í matsalnum. Allir voru prúðbúnir og virtust njóta dagsins vel.
Lesa meira

GLEÐILEG JÓL

Starfsfólk Þelamerkurskóla óskar öllum nemendum og fjölskyldum þeirra gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári, með hjartans þökk fyrir gott og gefandi samstarf á árinu sem senn er á enda.
Lesa meira

Plastþema - strandhreinsun hjá 7. og 8. bekk

Fimmtudaginn 18. nóvember fór 7. - 8. bekkur í Þelamerkurskóla með umsjónarkennurunum Höllu og Ólöfu í strandhreinsun. Jón Þór skólabílstjóri keyrði hópinn sem tók að sér að fara á Hjalteyri og tína rusl í fjörunni. Þetta er hluti af skólaverkefni sem 7. og 8. bekkur hefur verið að vinna að í nokkrar vikur og markmiðið er læra um plastnotkun, hvernig plast er ekki gott fyrir jörðina og hvernig við getum minnkað að nota plast. Í ferðinni skoðuðum við líka líf í sjónum og fjörunni og alls konar steina. Það var gaman að sjá hve lítið plast við fundum í fjörunni, það var miklu minna en við bjuggumst við. Við tókum með okkur kakó og kringlur í nesti og flestir klifruðu upp í vitann. Þegar við komum í skólann flokkuðum við ruslið og sumir bjuggu til listaverk.
Lesa meira

Aðalfundur foreldrafélagsins á morgun, þriðjudag 2. nóv. kl 20. Allir að mæta!

Kæru foreldrar Aðalfundur foreldrafélagsins verður að þessu sinni haldinn þriðjudagskvöldið 2.nóvember 2021 kl. 20:00 í Þelamerkurskóla Dagskrá: Hefðbundin aðalfundarstörf Skýrsla og framtíðarsýn stjórnar Þróun og stækkun skólans okkar á næstu árum. Kynning frá skólastjóra og umræður. Það væri virkilega gaman að sjá sem flesta á fundinum og hvetjum alla foreldra skólans til að mæta. Okkur vantar nýja foreldra í stjórn og hvetjum við sem hafa áhuga á að bjóða sig fram og taka þátt í því að hlúa að skólastarfinu að hafa samband við eitthvert okkar í stjórn. Hlökkum til að heyra frá ykkur og sjá ykkur. Stjórn foreldrafélags Þelamerkurskóla Inga Björk Svavarsdóttir - ingasva@gmail.com - 6592831 Hjalti Steinþórsson - hjalti.stein@gmail.com - 8680083 Kristbjörg María Bjarnadóttir - kristbjorgm@hotmail.com 8661271 Birna Tryggvadóttir - birnatryggvad@gmail.com - 6996116 Róbert Fanndal Jósavinsson litlidunhagi@internet.is - 8451268
Lesa meira

Frétt frá nemendum um ratleik í Kjarnaskógi

Þann 15. október 2021 fóru nemendur og kennarar Þelamerkurskóla í ratleik í Kjarnaskógi. Þetta er ratleikur þar sem fólk á að finna fullt af sögupersónum úr barnabókum, til dæmis Línu langsokk, Múmínstelpuna, Fíusól, Stóra skrímsli, Greppikló og fleiri. Sögupersónurnar er samtals um það bil 13. Áður en farið er í ratleikinn þarf að skanna QR kóða. Þegar búið er að skanna kóðann þá opnar síminn/spjaldtölvan vefsíðu þar sem finna má upplýsingar um sögupersónur og neðst í textanum eru vísbendingar um hvar næstu sögupersónu er að finna. Sögupersónurnar smíðuðu krakkar í 3.-4. bekk á sumarnámskeiði Amtsbókasafnsins og Minjasafnsins. Við hvetjum alla til að kíkja í Kjarnaskóg og taka þátt í skemmtilegum ratleik.
Lesa meira

Frá ljósmyndavali

Í ljósmyndavali nú í haust höfum við nemendurnir lagt okkur fram við að mynda náttúru og dýralíf Íslands með miklum dugnaði og samvinnu. Nú höfum við sett saman nokkrar af bestu myndunum okkar og prentað þær út fyrir alla til að sjá. Í valinu voru Valdemar Ásberg, (7. bekk) Lilja Lind, Juliane Liv (9. bekk) og Elísa (10 bekk.) Við vorum öll mjög dugleg í haust og vonumst til að öðrum lítist vel á ljósmyndirnar okkar. Kveðja, Ljósmyndavalið
Lesa meira

Nemendur 7.-8. bekk taka þátt í Alþingiskosningum á sinn hátt

Nemendur í 7. og 8. bekk hafa undanfarnar vikur verið að læra um Alþingi og lýðræði. Ákveðið var að taka þátt í svokölluðum krakkakosningum sem umboðsmaður barna og KrakkaRÚV standa fyrir. Nemendur hafa m.a. kynnt sér störf Alþingis og þau framboð sem eru til alþingiskosninganna nú á laugardaginn. Síðan var efnt til kjörfundar. Þar var kjörstjórn sem sá um að merkja við alla þá sem komu á kjörstað til að kjósa, afhenda þeim kjörseðla, útskýra reglur varðandi kosningarnar og beina þeim í kjörklefa. Kjörsókn var með besta móti eða tæp 95 %. Kjörstjórn sá síðan um að yfirfara atkvæðin og telja skiptingu þeirra. Allt gekk þetta ljómandi vel og nemendur skemmtu sér vel. Niðurstaða kosninganna verður send umboðsmanni barna sem tekur við öllum atkvæðum úr krakkakosningum sem fara fram í mörgum skólum á landinu. Í kosningasjónvarpi RÚV á laugardagskvöldið kemur verða niðurstöður úr krakkakosningum kynntar. Það verður spennandi að sjá hvernig atkvæði barna á Íslandi fara í þessum kosningum í samanburði við síðan niðurstöður sjálfra alþingiskosninganna.
Lesa meira