Fréttir

Innritun í Þelamerkurskóla fyrir skólaárið 2023-2024

Innritun nýrra nemenda við Þelamerkurskóla er komin á rafrænt form sem finna má á þessum hlekk ://www.horgarsveit.is/is/thjonusta/menntun-og-fraedsla/innritun-i-thelamerkurskola-2023 Með skráningu þeirra upplýsinga sem hér er beðið um, telst barn formlega innritað í Þelamerkurskóla.
Lesa meira

Heimasíða heimilisfræðinnar

Í heimilisfræði leggjum við okkur fram við að safna saman uppskriftum sem nemendur geta nýtt heima við. Öllum uppskriftum er safnað saman á heimasíðu sem uppfærist reglulega ef nýjar uppskriftir bætast við. Kominn er tengill beint inn á heimasíðuna undir Nemendur - Heimasíða heimilisfræðinnar. Við hvetjum ykkur til að nýta uppskriftirnar, leyfa börnunum að sýna ykkur hvað þau hafa lært og njóta afrakstursins saman.
Lesa meira

Öskudagsgleði á sprengidag

Á sprengidag er hefð fyrir því að halda öskudagsgleði í skólanum okkar. Skólinn fylltist af kynjaverum og skrautlegum karakterum strax um morguninn og eftir að boðið var upp sá andlitsmálun og tíma til að græja sig frekar, bættust fleiri flottar fígúrur í hópinn. Haldin var söngvakeppni þar sem nemendur létu ljós sitt skína, kötturinn var sleginn úr tunnunni undir lófaklappi, hvatningu og tónlist og nemendur 10. bekkjar stjórnuðu svo frábærri marseringu þar sem eldri nemendur báru þau yngri á höndum sér í orðsins fyllstu merkingu. Frábær dagur að venju.
Lesa meira

Þorrablót 1.-6. bekkinga

Hið árlega þorrablót 1.-6. bekkinga var haldið á bóndadaginn. Nemendur 6. bekkjar skipulögðu að venju skemmtun með gátum, leikjum og söng og buðu 1.-5. bekkingum til þorraveislu. Margrét okkar spilaði undir fjöldasöng þar sem gömul og góð þorralög ómuðu um matsalinn. Milli laga gæddu nemendur sér á hangikjöti, hrútspungum og hákarli. Eftir át og skemmtun í matsal héldu nemendur svo upp í heimastofu 6. bekkinga þar sem brugðið var á leik. Við þökkum 6. bekkingum fyrir skemmtilegan dag!
Lesa meira

Jólakveðja

Nemendur og starfsfólk Þelamerkurskóla óskar aðstandendum, sveitungum og samstarfsfólki öllu gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Hjartans þakkir fyrir gott samstarf á árinu sem senn er á enda. Megi friður og hamingja umlykja ykkur öll.
Lesa meira

Litlu jólin

Litlu jólin í Þelamerkurskóla voru haldin hátíðleg í hríðarbyl þann 20. desember. Allt gekk vel þrátt fyrir að veturinn minnti á sig og saman áttum við notalega stund bæði í skólanum og í Möðruvallakirkju. Nemendur lásu, sungu og spiluðu á hljóðfæri og eftir stofujól hjá umsjónarkennurum var nemendum þjónað til borðs er þau snæddu hátíðarmat í matsalnum. Dagurinn endaði á jólaballi þar sem tveir synir Grýlu bönkuðu óvænt uppá við mikinn fögnuð barnanna, sem sungu hástöfum með þeim við undirleik Guðlaugs Viktorssonar.
Lesa meira

Skautaferð, bæjarferð og jólabíó

Rétt fyrir jólafrí fórum við öll á skauta í skautahöllinni á Akureyri. Allir nemendur fóru á skauta og nutu samveru og skemmtunar með jólatónlist í græjunum. Að skautaferð lokinni gekk hersingin inn í miðbæ Akureyrar og átti notalega stund við jólatréð á Ráðhústorginu. Heima í skóla beið svo jólabíó, popp og djús.
Lesa meira

Skólavinir skera út laufabrauð

Hefð er fyrir því að skólavinir hjálpist að við að skera út laufabrauð sem snætt verður með hátíðarmat á litlu jólunum og á þorrablóti í janúar. Nemendur eru mjög færir við skurðinn og eldri skólavinir afar duglegir við að aðstoða og kenna þeim yngri. Ljúf og góð stund.
Lesa meira

Jólaljósa- og jólaföndurdagur

Þann 9. desember héldum við okkar yndislega árlega jólaljósadag í upphafi skóladagsins. Allir nemendur fara með friðarkerti upp í hlíðina fyrir ofan skólann og lýsa upp skammdegið. Að venju mætti Birgitta á Möðruvöllum með drónann sinn og afhenti okkur margar fallegar yfirlitsmyndir. Falleg og góð hefð. Eftir að hafa gengið í kringum jólatréð og sungið jólasöngva við undirleik Jóns Þorsteins, fengum við okkur kakó og kringlu í matsalnum. Þá tók við opinn jólaföndurdagur þar sem foreldrar og aðrir aðstandendur voru boðnir sérstaklega velkomnir til samveru í skólanum. Foreldrasamfélag Þelamerkurskóla er einstakt og sást það á gríðarlega góðri mætingu, en nánast öll heimili nemenda áttu fulltrúa á svæðinu. Börn og foreldrar nutu sín vel við jólaföndurgerð eins og sjá má á myndunum sem fylgja. Í lok dags bauðst svo öllum að borða saman dýrindis gúllassúpu.
Lesa meira

Áhugasviðsvinna í 7.-10. bekk

Í hverri viku vinna nemendur í 7.-10. bekk að áhugasviðsverkefnum sem þau velja sér eðli málsins samkvæmt sjálf. Þau vinna í nokkrar vikur að sama verkefni og halda ávallt kynningu á þeim í lokin. Á kynningunum má sjá mjög fjölbreytta framsetningu verkefna sem nemendur hafa skapað sjálfir. Jafnframt hafa kynningar falið í sér gestakomur í skólann og hafa hin ýmsu gæludýr til dæmis kíkt í heimsókn, nemendum til mikillar ánægju.
Lesa meira